Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:13:03 (177)

1996-10-09 14:13:03# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:13]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Varðandi spurningu um það til hvaða atriða bótagreiðslur samkvæmt 5. gr. frv. geta tekið, þá leiðir það af greininni sjálfri að þær bætur taka til allra atvika sem fasteignasalinn ber skaðabótaábyrgð á. Það kemur fram í frumvarpsgreininni sjálfri. Það verður svo auðvitað að meta í hverju einstöku tilviki hver skaðabótaábyrgð fasteignasalans er.

Hv. þm. spurði um það hvort vænta megi að söluþóknun hækki eða lækki. Ég held að engin leið sé að segja fyrir um það. Ráðuneytið styðst við mat Samkeppnisstofnunar sem telur að það sé frekar til styrktar neytendum að aflétta hámarkinu. Það er megintilgangur samkeppnislaganna. Ég get ekki á þessari stundu haft neinar skoðanir á því. Markaðurinn hlýtur að segja til sín þegar á þetta reynir. Samkeppnislögin byggja á því. Það ætti hv. þm. að vita vegna þess að flokkur hans er einn aðalhvatamaður að samkeppnislöggjöfinni og því að markaðslögmálin tryggi hagsmuni neytenda. Markaðurinn sjálfur verður að leiða það í ljós, um það er ekki hægt að segja fyrir fram.