Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:16:51 (179)

1996-10-09 14:16:51# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:16]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi reglugerð sem hv. þm. spyr um þá er það svo að reglugerðarheimildin fæst fyrst þegar Alþingi hefur samþykkt lögin og gefið heimild til að setja reglugerðina og eðli máls samkvæmt verða reglugerðir ekki settar fyrr. Þær verða líka að taka mið af og byggjast á lögunum sjálfum. Lögin kunna að taka breytingum í meðförum þingsins þannig að það er mjög óvanalegt að reglugerðir séu samdar og því síður settar áður en lög eru samþykkt frá þinginu. Þar að auki er verið að opna heimildir til að setja ákveðna þætti í reglugerð vegna þess að talið er eðlilegt að sú sveigja sé fyrir hendi vegna þess að tímarnir breytast og nauðsyn þarf að vera á því að gera breytingar um tiltekin atriði með skjótum hætti án þess að þau mál fari fyrir þingið. Það er því ekki þar með sagt að reglugerð sem sett er í upphafi standi til eilífðarnóns. Þess vegna er það svo að reglugerðirnar koma þegar Alþingi hefur samþykkt lögin með heimildum til að setja reglugerðirnar.