Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:18:32 (180)

1996-10-09 14:18:32# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta nú hreinlega óþarfa kennslustund hjá framkvæmdarvaldinu fyrir löggjafarvaldið. Auðvitað vitum við að reglugerðir byggjast á að hafa stoð í lögum. (Gripið fram í: Það er betra.) Þær eiga a.m.k. að hafa hana þó þær fari stundum út fyrir hana. Það sem ég er hreinlega að fara fram á er að miða við frv. eins og það liggur fyrir til að sjá hvernig slík reglugerð mundi líta út, að dómsmrh. muni beita sér fyrir því að samin verði drög að reglugerðum ef hann fengi þetta frv. nú samþykkt óbreytt eins og hann leggur til. Auðvitað veit ég að þegar Alþingi er búið að samþykkja frv. og lögin hafa tekið breytingum að þá munu reglugerðardrögin taka breytingum í samræmi við það. Ég tel hreinlega að hæstv. ráðherra sé að reyna að koma sér hjá því að sýna nefndinni reglugerðardrög sem hún kallar eftir. Ég tel það alvarlegt, ekki bara í þessu eina máli, heldur almennt varðandi reglugerðarsetningu. Það hefur komið fyrir að það hafi verið kallað eftir reglugerðum í nefndum sem ekki hefur verið orðið við af framkvæmdarvaldinu. Ég tel beinlínis ástæðu til þess, og það er nú hreinlega í frv. sem liggur fyrir þinginu, að þingnefndir hafi eftirlitsskyldu varðandi t.d. reglugerðir og að þingnefndir geti kallað eftir því við framkvæmdarvaldið og ráðherra og að áður en reglugerðin er sett fái hún a.m.k. skoðun hjá nefndinni. Mér finnst það alvarlegt að ráðherrann sé að koma sér hjá því að nefndin fái þessi drög að reglugerð og svo sannarlega mun verða kallað eftir þeim í nefndinni.