Umferðarlög

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:30:27 (249)

1996-10-10 14:30:27# 121. lþ. 6.3 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:30]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á umferðarlögum. Frv. byggist á frv. til breytinga á umferðarlögum sem lagt var fram á síðasta Alþingi en varð þá ekki útrætt. Er meginefni frv. samhljóða hinu fyrra frv. Þrjár greinar eru þó lítillega breyttar og inn í frv. hefur verið bætt þremur nýjum greinum.

Breytingar samkvæmt frv. varða einkum tvö atriði, þ.e. aðlögun að tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini og breytingar er tengjast gildistöku nýrra vegalaga. Tilskipun Evrópusambandsins frá 1991 um ökuskírteini var tekin inn í reglukerfi Evrópska efnahagssvæðisins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 21. mars 1994.

Tilskipunin kveður á um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina sem gefin eru út í aðildarríkjunum, án tillits til búsetu skírteinishafa. Í því sambandi er byggt á samræmdri flokkun ökuréttinda og samræmdum reglum um skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis, svo sem að því er varðar lágmarksaldur, um þekkingu, leikni og hæfni og um líkamlegt og andlegt hæfi. Ákvæði tilskipunarinnar áttu að koma til framkvæmda í aðildarríkjunum 1. júlí 1996. Í sérstökum viðauka við tilskipunina er gert ráð fyrir að tekið verði upp samræmt form á ökuskírteinum, sex blaðsíðna pappírsskírteini. EFTA-ríkin í ESS fengu undanþágu frá því að taka þetta skírteinisform upp og var miðað við að sameiginlega EES-nefndin hefði endurskoðað þá ákvörðun fyrir 1. júlí 1994. Þessu hefur síðan verið frestað til 31. desember 1997. Á vegum ESB hefur um nokkurt skeið verið unnið að mótun nýs forms fyrir ökuskírteini. Er þar gert ráð fyrir að skírteinin verði gerð úr plasti, af svipaðri gerð og greiðslukort. Hefur sú gerð ökuskírteina verið viðurkennd innan ESB frá 1. júlí 1996. Er gert ráð fyrir að ákvörðun um þessa gerð ökuskírteina verði á næstunni tekin í reglukerfi EES.

Í dómsmrn. er þegar hafinn undirbúningur að gerð nýrra ökuskírteina sem verða í formi plastkorts.

Af ákvæðum tilskipunarinnar leiðir að breyta þarf skilgreiningu umferðarlaganna á léttu bifhjóli. Þá þarf að kveða á um gildi ökuskírteina útgefinna í öðrum EES-löndunum hér á landi eftir að viðkomandi hefur sest hér að. Nú gildir slíkt eingöngu um norræn ökuskírteini.

Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar á 50. og 63. gr. laganna til frekara samræmis við tilskipunina. Að öðru leyti samrýmist tilskipunin ákvæðum umferðarlaganna. Hins vegar þarf að breyta ákvæðum í reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl. Vinnur sérstök nefnd á vegum ráðuneytisins að gerð nýrrar reglugerðar um ökuskírteini.

Með vegalögum, nr. 45 6. maí 1994, var skilgreiningu þjóðvega breytt. Jafnframt hefur verið felld niður sú flokkun á þjóðvegum í kaupstöðum og kauptúnum sem var í V. kafla eldri vegalaga. Þá hefur orðið sú breyting að sýsluvegir eru ekki lengur sérstakur flokkur vega. Af þessu leiðir að breyta þarf ákvæðum umferðarlaga sem víkja að sýsluvegum og þjóðvegum. Þessar breytingar er að finna í 2., 11. og 12. gr. frv. Í samráði við Vegagerðina hafa verið gerðar orðalagsbreytingar á texta 11. og 12. gr. miðað við fyrra frv.

Auk þess sem hér hefur verið greint er lagt til að gerðar verði nokkrar aðrar breytingar á umferðarlögunum. Eru þær þessar:

Lagt er til að 3. og 4. mgr. 38. gr. verði breytt þannig að leyfður hámarksökuhraði bifreiða með eftirvagn eða skráð tengitæki verði 80 km á klst. Er það 10 km meiri hraði á klst. en nú gildir. Er lagt til að um þessi ökutæki gildi sama regla og um vörubifreiðir. Þó verði leyfður hámarksökuhraði ekki meiri en 60 km á klst. ef eftirvagninn er án hemla og 300 kg eða meira að heildarþyngd, svo og þegar bifreið dregur óskráð tengitæki.

Lagt er til að a-lið 1. mgr. 52. gr. verði breytt þannig að tekið verði fram að ráðherra geti sett reglur um ökunám auk ökukennslu.

Reglur um ökunám eru ekki síður mikilvægar en reglur um ökukennslu. Er lagt til að skýrt verði kveðið á um þetta atriði. Undir reglur um ökunám koma m.a. ákvæði um námskrá fyrir einstaka flokka ökutækja. Undir það mundu og geta fallið nánari reglur um tilhögun æfingaaksturs með leiðbeinanda.

Lagt er til að 3. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að réttindi til að stjórna bifreið feli sjálfkrafa í sér rétt til að stjórna léttu bifhjóli.

Fram til þessa hafa allir þurft að gangast undir sérstakt próf til að öðlast réttindi til að aka léttu bifhjóli án tillits til þess hvort þeir hafa þegar réttindi til að aka bifreið. Er eðlilegt að sá sem öðlast hefur réttindi til að aka bifreið geti þar með ekið léttu bifhjóli enda er um að ræða ökutæki með takmarkaðan hámarkshraða.

Lagt er til að 4. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að enginn megi stjórna torfærutæki nema hafa gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið.

Í þessu felst að lágmarksaldur til að stjórna torfærutæki verður 17 ár í stað 15. Er þessi breyting í samræmi við tillögur í greinargerð með þáltill. um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi á síðasta vetri.

Í greinargerð með þeirri tillögu kom m.a. fram það markmið að breyta skuli reglum er gilda um akstur torfærutækja. Fram til þessa hefur sú regla gilt að hafi einstaklingur á annað borð réttindi til að stjórna vélknúnu ökutæki án tillits til þess um hvers konar ökutæki er að ræða hefur hann rétt til að stjórna torfærutæki. Slík regla þykir of rúm en hún leiðir m.a. til þess að 15 ára ungmenni, sem réttindi hefur til að stjórna léttu bifhjóli, má stjórna torfærutæki án tillits til vélarafls þess.

Lagt er til að við 56. gr. verði bætt ákvæði er heimili ráðherra að setja reglur um stofnun og starfsemi ökuskóla. Ýmislegt ökunám fer fram í ökuskólum nú. Þar er einkum um að ræða bóklegt nám vegna almennra ökuréttinda. Allt ökunám til aukinna ökuréttinda fer einnig fram í ökuskólum. Er eðlilegt að settar verði reglur um stofnun og starfsemi ökuskóla og er lagt til að ráðherra hafi heimild til slíks.

Lagt er til að æfingaakstur, sbr. 4. mgr. 57. gr., megi hefjast tólf mánuðum áður en nemandi hefur aldur til að fá ökuskírteini útgefið í stað sex mánaða.

Frá 1. júní 1993 lengdist sá tími sem nemandi má stunda æfingarakstur áður en hann hefur aldur til að fá ökuskírteini útgefið úr þremur mánuðum í sex. Jafnframt var ráðherra veitt heimild til að setja reglur um æfingaakstur án ökukennara enda hafi nemandinn áður hlotið lágmarksþjálfun. Reglur um æfingaakstur með leiðbeinanda tóku gildi í maí 1994. Æskilegt er að lengja þann tíma sem nemandi hefur til að stunda æfingarakstur hvort heldur er hjá ökukennara eða með leiðbeinanda áður en til próftöku kemur. Með auknum æfingaakstri öðlast nemandinn meiri reynslu í akstri sem honum nýtist þegar hann síðar hefur öðlast rétt til að aka sjálfstætt. Er því lagt til að æfingaakstur geti hafist sex mánuðum fyrr en nú er. Getur æfingaakstur til almenns bifreiðastjóraprófs þá hafist þegar nemandi verður 16 ára.

Lagt er til að 2. mgr. 113. gr. verði breytt þannig að dómsmálaráðherra verði veitt heimild til að ákveða í reglugerð nánari skipun Umferðarráðs.

Þetta er lagt til í ljósi þess að breytingar hafa orðið á stofnunum og samtökum sem tilnefna mega fulltrúa í Umferðarráð. Breyting þessi gerir viðbrögð við slíku viðurhlutaminni en ella væri.

Lagt er til að 4. mgr. 114. gr. verði breytt að því er varðar sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa og að ráðherra verði fengið rýmra vald um fjölda nefndarmanna og um skipun og skipulag nefndarinnar að öðru leyti.

Er í þessu sambandi vakin athygli á því að nefndin kemur ekki í stað rannsóknar sem lögregla framkvæmir samkvæmt réttarfarslögum. Rétt er að taka fram að ég hef nýlega skipað slíka þriggja manna nefnd sem m.a. er ætlað að semja drög að reglum fyrir slíka starfsemi.

Á síðasta þingi var samþykkt hér á hinu háa Alþingi þingsályktun um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun þar sem segir að á næstu sex árum skuli stefnt að 20% fækkun alvarlegra umferðarslysa. Því takmarki skal ná með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, tryggingafélaga og áhugahópa um umferðamál í samvinnu við ökumenn og samtök þeirra. Þá er kveðið svo á að dómsmrh. skuli í byrjun hvers árs kynna Alþingi stöðu umferðaröryggismála og hvernig áætluninni miðar í átt að settu marki en starfs- og framkvæmdaáætlun skal endurskoðuð árlega.

Í ágústmánuði skipaði ég sérstakan vinnuhóp til að vinna að framvindu umferðaröryggisáætlunarinnar. Í vinnuhópnum eiga sæti: Þórhallur Ólafsson, aðstoðarmaður dómsmrh., sem er formaður nefndarinnar, Georg Lárusson, sýslumaður í Vestmannaeyjum, og Rögnvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar. Jafnframt var skrifstofu Umferðarráðs falið í umsjá vinnuhópsins að vinna að framvindu umferðaröryggisáætlunarinnar, kalla eftir hugmyndum frá hagsmunaaðilum um tillögur til aðgerða og gefa ráðherra skýrslu um framvindu mála.

Í samræmi við þingsályktunina mun ég flytja Alþingi skýrslu um stöðu umferðaröryggismála í byrjun næsta árs. Rétt er að taka fram að ýmsar þeirra tillagna sem felast í frv. því sem hér liggur fyrir eru, þótt það hafi ekki verið tekið sérstaklega fram, í samræmi við tillögur í greinargerð þeirri sem fylgdi þingsályktunartillögunni.

Meðal breytinga sem lagðar eru til í frv. eru breytingar sem nauðsynlegt er að nái fram að ganga svo unnt verði með fullnægjandi hætti að uppfylla skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum á þessu sviði. Í því sambandi er rétt að taka fram að málið varðar ekki einvörðungu bætta stöðu íbúa annarra EES-ríkja hér á landi heldur er málið einnig mikilvægt fyrir Íslendinga sem búa eða ferðast innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir aðalatriðum þessa frv. og legg til að því verði vísað að lokinni umræðunni til 2. umr. og hv. allshn.