Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 14:40:43 (317)

1996-10-15 14:40:43# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:40]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Sú þáltill. sem hér er til umræðu hefur fengið nokkuð mikla umfjöllun og ég hygg að efni hennar sé orðið þjóðinni rækilega kunnugt þannig að ekki sé þörf á ítarlegri umræðu um það, en ég vildi þó fara nokkrum orðum um afstöðu mína til þess og eins og það kemur mér fyrir sjónir.

Ég vil fyrst draga fram nokkur atriði sem mér finnst áberandi að þáltill. tekur ekki á sem hefði mátt ætla að væri kannski aðaltilgangur hennar, að taka á því sem aflaga hefur farið að mati flm. Í fyrsta lagi tekur þáltill. ekki á ýmsum vanköntum fiskveiðistjórnunarinnar sem við í búum við í dag og í reynd er ekki ætlast til þess af flm. nema að mjög litlu leyti sem sýnir sig í því að lagt er til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn.

Í öðru lagi tekur hún ekki á stöðu sjómanna. Í tillögunni eru engar úrbætur til styrktar stöðu sjómanna í núverandi kerfi. Það er vitað að framsalið, sérstaklega leigubraskið, hefur hlunnfarið sjómenn. Það hefur farið fram hjá skiptakjörum og kjör þeirra hafa því skerst. Tillagan tekur ekkert á því.

Í þriðja lagi tekur þáltill. ekkert á hagsmunum landverkafólks sem eru í uppnámi meira og minna í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi af því að það kerfi er eingöngu útgerðarkerfi en ekki vinnslukerfi á neinn hátt nema að því litla leyti sem var með línutvöfölduninni og það er búið að afnema. Ég hefði viljað sjá að flutningsmenn hefðu velt fyrir sér leiðum til að styrkja landvinnsluna gagnvart útgerðinni og styrkja þannig vinnuna í landi. En það eru engar hugmyndir uppi um það í þessu máli.

Þá tekur frv. ekkert á því sem er alvarlegast í núverandi kerfi og það er braskið sjálft. Frv. tekur ekki á nokkurn hátt á því í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það. Þvert á móti er sagt: Við skulum láta braskið vera áfram. Við réttlætum braskið með því að ríkið verði þátttakandi í braskinu. Það er engin lausn á vandamáli að stækka vandamálið. Það er engin lausn á arðráni að auka arðránið. Eina leiðin sem menn hafa til að bæta úr í þessu efni er að taka fyrir vandamálið, með öðrum orðum að banna leiguframsalið eins og við alþýðubandalagsmenn höfum gert samþykktir um á okkar miðstjórnarfundi. Þar teljum við að við höfum lagt fram skýra afstöðu til brasksins og sýnt samstöðu með hagsmunum sjómanna. Þeir sem leggja þetta til horfa ekki til hagsmuna sjómanna og þeim er ekki verr við braskið en svo að þeir vilja að það haldi áfram, vilja bara að ríkið taki sitt út úr braskinu. Það er ekki lausn, herra forseti.

Tillagan tekur heldur ekki á því, sem vissulega er nokkurt vandamál og umhugsunarefni, að það er erfitt að komast inn í útgerð í dag og hefja útgerðarrekstur vegna þess að menn þurfa ekki bara að kaupa skip heldur líka fiskveiðiréttindi. Og þó að deila megi um það hversu miklu erfiðara það er í dag en það var áður, fyrir daga kvótakerfisins, af því að menn eru ekki sammála um það hversu mikið samanlagður kostnaður við skip og réttindi er meiri en áður var við skip eitt og sér, þá held ég að allir geti verið sammála um að það er erfitt. Þetta leysir ekkert úr því og gerir ekkert auðveldara fyrir nýja menn að hasla sér völl í þessari atvinnugrein sem atvinnugreinin þarf vissulega á að halda. Hún þarf eins og aðrar atvinnugreinar að geta búið við eðlilega endurnýjun og að hæfir menn eigi þar sæmilegan aðgang. Tillagan tekur sem sagt ekki á þessum helstu vandamálum sem við búum við í dag. Hún tryggir ekki stöðu sjómanna betur en nú er, hún tekur ekki á stöðu landverkafólks, hún tekur ekki á stöðu sjávarplássanna, hún tekur ekki fyrir braskið og hún auðveldar mönnum ekki aðgang að atvinnugreininni.

[14:45]

Þá spyr maður: Hvað gerir þessi tillaga? Hvað er það sem hún á að gera? Mér sýnist að það sem hún á að gera eða hún muni leiða af sér, og ætla ég ekkert að fullyrða um að það séu endilega hugmyndir flm. því ég ætla þeim ekkert annað en gott í sínum málflutningi, sé að skattleggja eina atvinnugrein umfram aðra. Það er stefna sem var hafnað á Alþingi af öllum stjórnarflokkum fyrir tveimur eða þremur árum þegar menn sameinuðust um að kasta út brúttóskatti, aðstöðuskattinum, aðstöðugjaldinu og taka inn beina skattlagningu eftir efnum og ástæðum. Og það sem verra er að tillagan gengur lengra en að taka upp brúttóskatt og atvinnugreinabundinn skatt. Hún er skattlagning úr hófi fram. Hún gerir ráð fyrir að skattleggja atvinnugrein miklu meira en atvinnugreinin getur borgað og það kemur skýrt fram í grg. með málinu að flm. er þetta ljóst og þeir svara því til: Ef ekki eru til nógir peningar í atvinnugreininni til að borga skattinn þá fellum við gengið, búum til peningana. (Gripið fram í: Er það kanínuaðferðin?) Það er kanínuaðferðin. Þetta er náttúrlega alveg fráleit efnahagsstefna að nokkur stjórnmálaflokkur og þaðan af síður flokkur sem kennir sig við jafnaðarstefnu skuli leggja upp með þá skattastefnu eða efnahagsstefnu, að skattleggja umfram efni er náttúrlega alveg út í bláinn. En gangi slíkar hugmyndir eftir hvort sem það er til ystu markmiða flm. um 30 milljarða kr. skatt eða eitthvað minna með núverandi göllum, þ.e. framsali leiguheimilda, þá mun hún leiða til að styrkja stöðu stórútgerðanna. Hún mun færa útgerðarmunstrið yfir í stóru togarana og einkum stóru frystitogarana. Það er stefna sem ég vil ekki taka undir fyrir utan það að hún mun fyrst og fremst leggja skattbyrðina á landsbyggðina. Um 86% af skattinum kæmi utan höfuðborgarsvæðisins. Og ég trúi ekki að menn muni halda því fram þegar þeir hafa skoðað málið að slíkir peningar séu í reynd til í þessum sjávarplássum.

Virðulegi forseti. Ég vil segja að lokum að ég tel þetta afar vanhugsað mál og vil mælast til af flm. að þeir dragi málið til baka og íhugi það betur áður en þeir leggja það fram aftur.