Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 14:49:27 (318)

1996-10-15 14:49:27# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:49]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. þyrfti að lesa tillöguna ögn betur. Hún fjallar um veiðileyfagjald og fyrsti málsliður hljóðar þannig:

,,Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi.``

Það er hin pólitíska ákvörðun sem tillagan fjallar um. Rökstuðningur fyrir því er m.a. fyrst og fremst réttlætisrök sem ég ætla ekki að fara yfir þar sem ég fór yfir þau í framsögu minni. Það eru mörg efnahagsleg atriði sem eru færð sem rökstuðningur fyrir málinu. Tillagan fjallar ekki um fiskveiðistjórnunarkerfið og það kemur skýrt fram að hún á ekki að gera það. Hún gerir það ekki. Hv. þm. veit það ósköp vel. Ég geri mér grein fyrir að það er margt í fiskveiðistjórnunarkerfinu sem er þarft umræðu og má ræða í tengslum við veiðileyfagjald en þarf ekki að gera það. Ég vil benda á eina tillögu jafnaðarmanna, sem við erum að vinna að, að allur fiskur fari á fiskmarkaði. Það er t.d. mikilvægt atriði í fiskveiðistjórnunarkerfi en á ekki heima í þessari tillögu nema ef til vill í umræðunni. Ég bið menn um að gæta þeirrar sanngirni að ræða um efni tillögunnar en ekki um það sem hún fjallar ekki um og kemur skýrt fram að sé ekki.

Það sem hann nefnir hins vegar að verið sé að skattleggja um efni fram þá er það rangt. Það eru rangar fullyrðingar að hér sé verið að leggja til 30 milljarða skattlagningu á sjávarútveginn. Hér verður þingmaðurinn aftur að lesa betur. Bent er með mjög skýrum rökum á það sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi. Það er að myndast það sem kallað er fiskveiðiarður sem þegar er orðinn umtalsverður og getur orðið enn meiri á næstu árum og áratugum. Við erum að leggja til, fyrir utan réttlætið sem er fólgið í því að gjaldtaka sé fyrir úthlutaðar heimildir, að þá eru efnahagsleg sóknarfæri fólgin í því að draga þennan arð að hluta til út úr sjávarútveginum eftir því sem hann myndast. Það er enginn að tala um að leggja skatta á atvinnugrein sem þolir það ekki. Hér er verið að benda á að arður er að byggjast upp í sjávarútvegi sem er mjög gott mál. Við erum með þessari aðferðafræði að koma í veg fyrir hækkun raungengis, þ.e. að aðrar atvinnugreinar geti líka lifað sterkar við hliðina á sjávarútvegi. Út á það gengur þetta mál og þá verða menn annað hvort að lesa sér betur til eða leyfa flm. að njóta sannmælis í röksemdum sínum.