Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 14:53:59 (320)

1996-10-15 14:53:59# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:53]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hugsa að ég og hv. þm. getum orðið sammála um að leggja beri á hóflega skatta og hófleg gjöld. En ég vil benda á um veiðileyfagjald, að ef það rennur til að greiða kostnað við sjávarútveg sem hefur verið talað um, 2--3 milljarðar, jafnvel þó fyrstu tillögur um veiðileyfagjald væru mun lægri, þá er ekki um að ræða skatta í hefðbundnum skilningi. Ég vil draga sérstaklega fram að verið er að tala um að veiðileyfagjaldið taki mið af fiskveiðiarðinum, af stöðu sjávarútvegsins hverju sinni. Það er meginmál í okkar huga.

Aftur blandar hv. þm. fiskveiðistjórnunarkerfinu inn í umræðuna sem er alveg hægt að gera þó svo líka sé hægt að halda því aðskildu. Hann spyr sérstaklega um leigu á veiðiheimildum, hvernig hægt er að minnka hana eða koma í veg fyrir hana. Fyrr í umræðunni var bent á vandkvæði þess að banna leigu en heimila varanleg kaup og sölu. Það vita menn ef þeir banna að selja hús en leyfa leigu eða öfugt. Þetta er ekki einfalt í framkvæmd. Hjá Alþb. eru menn í umræðu um þessi mál, og ég skil það, en enn þá skortir á að þeir sýni betur fram á útfærslu sinna hugmynda við að takmarka leigu á sama tíma og þeir vilja samt leyfa varanlegt framsal veiðiheimilda. Þetta er ekki auðvelt mál. Ég vil hins vegar bíða með alla dóma um þá útfærslu þar til hún kemur í skýrara formi. Ég vil gefa Alþb. tíma til að útfæra sína stefnu með þeim hætti að hér geti skapast samstaða um það sjálfsagða réttlætismál að veiðiheimildum sé ekki úthlutað ókeypis á Íslandi. Það er í andstöðu við núgildandi lög og það er í andstöðu við réttlætistilfinningu ekki bara alþýðubandalagsmanna og annarra jafnaðarmanna heldur líka gervallrar þjóðarinnar.