Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 14:58:42 (322)

1996-10-15 14:58:42# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Vegna þeirra umræðna sem þegar hafa farið fram um veiðileyfagjald finnst mér ástæða til að undirstrika það einu sinni enn að með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er til þess ætlast af hv. Alþingi að tekin sé grundvallarákvörðun um hvort fámennur hópur eigi að fá ókeypis aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Gæðin, þ.e. hin sameiginlega auðlind, er takmörkuð og hvernig á almannavaldið að deila þeim út? Á aðgangur hinna fáu að vera ókeypis eða finnst okkur réttlátt að greitt sé fyrir aðganginn? Um það snýst þessi tillaga og um það þarf að taka hina pólitísku ákvörðun.

Þegar kemur að þeirri ákvörðun hvaða aðferð sé best koma ýmsir þættir til álita. Í greinargerð tillögunnar eru nefnd ýmis álitamál og aðferðir og í greinargerðinni er getið um þær hugmyndir sem helst hafa verið ræddar meðal þeirra sem hafa tekið þátt í málefnalegri umræðu um veiðileyfagjald á undanförnum árum, jafnvel áratugum. Og þær eru nefndar jafnvel þó þingflokkur jafnaðarmanna taki engan veginn undir þær, jafnvel þó þingflokkur jafnaðarmanna sé á móti þeim. Þeim er haldið til haga í greinargerðinni. Það kann svo að vera smekkur einhverra hér að taka þær tillögur og gera þær að hugmyndum þingflokks jafnaðarmanna og verður þá að vera þeirra mál sem þeir eiga við sig.

Það hefur líka komið fram, bæði í þinginu og annars staðar, að menn eru að taka afstöðu til veiðileyfagjaldsins á grundvelli meintrar afstöðu þingflokks jafnaðarmanna. Menn eru að taka afstöðu til gjaldsins, til þessarar réttlætiskröfu á grundvelli þess. Í stað þess að taka afstöðu til innihalds tillögunnar, þ.e. þess réttlætis sem felst í því að greitt sé fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur ekki tekið afstöðu til einstakra aðferða varðandi álagningu veiðaleyfagjalds en það er rétt að við skilyrðum ekki afstöðu okkar því fiskveiðistjórnunarkerfi sem er í gangi á hverjum tíma. Réttlætisrökin í málinu eiga nefnilega við a.m.k. svo lengi sem um er að ræða takmörkun á sókn í sameiginlega auðlind. Fiskveiðistjórnunarkerfið skiptir ekki máli í því sambandi. Á meðan við þurfum að stjórna veiðunum, á meðan við þurfum að takmarka þær eiga réttlætisrökin við. Mér er það þess vegna óskiljanlegt að menn séu að skilyrða afstöðu sína breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvað ef það breytist ekki á næstu árum? Gilda ekki réttlætisrökin eftir sem áður? Eða er í lagi að gefa aðganginn ef núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi stendur áfram? Nei. Og hvað sem mönnum kann að finnast um kvótakerfið, þá er kvótakerfi með veiðileyfagjaldi heppilegra og réttlátara fyrirkomulag en kvótakerfi án veiðileyfagjalds.

Mér finnst rétt að halda þessu til haga í umræðunni vegna þess að ég átta mig ekki á því af hverju menn eru að skilyrða afstöðu sína, þá afstöðu sem ætti að byggjast á réttlæti til þess hvaða stjórnun fiskveiða er í gildi á hverjum tíma.

Það eru réttlætisrök fyrir því að greitt sé fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þannig að eigandinn sé virtur. Auðveldara er líka að afturkalla kvótakerfi með lögum, það kvótakerfi sem sett hefur verið á með veiðileyfagjaldi heldur en án vegna þess að gjaldið staðfestir eign þjóðarinnar á auðlindinni. Við fáum aðeins smjörþefinn af þeirri umræðu sem fer fram um eignarhald eða eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni nú þegar menn eru að ræða um hugsanlega veðsetningu veiðiheimilda. Við þurfum að staðfesta eignarhald þjóðarinnar betur en gert er í dag.

[15:00]

Mér finnst að við þurfum líka að hugsa til þess að við erum búin að leyfa eignarhald útlendinga á þessari auðlind, jafnvel þó óbein sé. Mér finnst það líka kalla á það að við staðfestum eignarhald þjóðarinnar á einhvern hátt betur en gert er með núverandi löggjöf. Allt eru þetta rök sem menn verða að taka afstöðu til. Það sem hlýtur að skera úr um afstöðu manna auk réttlætisrakanna er síðan spurningin um það hvort almenn lífskjör í landinu sýnast verða betri við gjaldtöku. Ef gjaldið er nýtt til þess að greiða kostnað við sjávarútveginn og jafnvel til að efla rannsóknir þýðir það bætt lífskjör í landinu. Með óbreyttu ástandi er auðvitað verið að vernda sérhagsmuni sem geta reynst almannahag mjög þungir í skauti vegna þess að fræðin leiða ekki til þeirrar niðurstöðu að auður fárra hjóti að leiða til almennrar velsældar og arður af nýtingu sameiginlegrar auðlindar er ekki einkamál þeirra sem hafa fengið tímabundinn afnotarétt.

Ef núverandi fyrirkomulag festist óbreytt í sessi verður veiðirétturinn eins og hver önnur eign og nýjar útgerðir verða þá og hafa nú þegar þurft að kaupa sér veiðirétt á markaði og búa við þau skilyrði sem sumir útgerðarmenn eða andstæðingar veiðileyfagjalds í dag telja að útgerðin þoli alls ekki, þ.e. að greiða fyrir þær veiðiheimildir sem þeir fá.

Bandaríski hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Gary Becker, sem nú telst til sósíalista samkvæmt skilgreiningu hæstv. forsrh., líkir þeirri aðferð sem landsfundur Sjálfstfl. lýsti stuðningi við við ríkisstyrk, þ.e. ókeypis úthlutun aflamarks sem síðan má selja eða leigja að vild. Hann segir í viðtali sem tekið var við hann þegar hann var í heimsókn hér á landi og hafði kynnt sér kerfið, með leyfi forseta:

,,Þeir sem upprunalega fengu kvótann fá peningana. Þeir sem reyna að komast inn í greinina verða að greiða fyrir kvótann, greiða þeim fé sem í upphafi fengu hann afhendan frítt. Nýir menn í greininni borga fyrir réttinn. Þeir sem fengu kvótann í upphafi eru þeir sem hlutu ríkisstyrk.``

Hér er ókeypis úthlutun líkt við ríkisstyrk, reyndar bara til þröngs hóps og mætti verða þeim til umhugsunar sem telja enga ríkisstyrki vera í íslenskum sjávarútvegi.

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram af flutningsmönnum þessarar tillögu að það að samþykkja veiðileyfagjald tengist réttlæti vegna þess að eigandinn fær þá afgjald sem er réttmætt að hann fái og staðfestir eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni. Því hefur líka verið haldið fram að veiðileyfagjald sé hægt að nýta til þess að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Tillögur um veiðileyfagjald byggja auðvitað á því að það er að myndast og hefur verið að myndast verulegur arður af nýtingu fiskstofnanna og það mun halda áfram ef stjórnun veiðanna er skynsamleg. Nú þegar er verið að taka hluta af þessum arði út með þeim kaupum og sölum sem eru í gangi og það sýnir verðið á þeim veiðiheimildum sem nú er verið að selja og kaupa að arðurinn er að verða umtalsverður.