Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:07:28 (323)

1996-10-15 15:07:28# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:07]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta eitt atriði í máli hv. þm. þar sem hún sagði að úthlutun væri ókeypis. Það tel ég ekki vera rétt. Frá og með því fiskveiðiári sem nú er að hefjast eru engar veiðiheimildir ókeypis eftir því sem ég best veit. Ég nefndi áðan að það væru þrjú veiðileyfagjöld. Það er í fyrsta lagi almennt veiðileyfi sem er til skamms tíma í senn og menn þurfa að borga. Það er fyrsta veiðileyfagjaldið. Síðan þurfa menn að borga fyrir annað veiðileyfi, leyfi til að veiða tiltekna fisktegund sem er líka afmarkað í tíma og er til eins árs í senn. Í þriðja lagi þurfa menn að borga vissa fjárhæð fyrir hvert kíló af veiðiheimildum sem menn fá úthlutað. Mér er ekki kunnugt um að í dag sé um að ræða ókeypis úthlutun veiðiheimilda. Þvert á móti held ég því fram að þrjú veiðileyfagjöld séu nú þegar í gangi þannig að þetta vildi ég bara leiðrétta.

Síðan langar mig að spyrja þingmanninn um afstöðu hans til leiguframsalsins. Telur þingmaðurinn rétt að leyfa það áfram að útgerðarmenn geti leigt frá sér veiðiheimildir ár eftir ár án þess að nýta þær nokkurn tíma til veiða og hirða bara tekjurnar af í eigin vasa? Miðað við þær tölur sem menn hafa nefnt í umræðunni geta útgerðarmenn vænst þess að fá um 90 kr. fyrir hvert kg og flutningsmenn nefndu í upphafi að það mætti ímynda sér 2--3 milljarða kr. skattlagningu á útgerðina til að byrja með. Af því er um 10 kr. á kg. Telur þingmaðurinn þá að réttlætinu sé fullnægt ef ríkið fær 10 kr. af þessum 90 kr. en útgerðarmaðurinn fær áfram 80 kr. í leigutekjur?