Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:47:35 (333)

1996-10-15 15:47:35# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:47]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi tillaga fjallar ekki um að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega. Hv. þm. vitnaði í að í greinargerðinni er talað um tekjuskatt upp á tæpa 17 milljarða, þ.e. tekjuskatt einstaklinga sem rennur til ríkisins. En hann gleymdi einu í ræðu sinni. Hann áttar sig ekki á hvað verið er að tala um. Það er verið að benda á að það er að myndast arður, svokallaður fiskveiðiarður, í íslenskum sjávarútvegi. Arður sem nemur núna örfáum milljörðum en mun þegar fram líða stundir, eftir því sem fiskstofnar byggjast upp og sókn verður enn hagkvæmari, nema nokkrum tugum milljarða. Þessi arður eða hagnaður í íslenskum sjávarútvegi getur að mati fróðustu manna þegar allt er komið í kjörstöðu numið 15--30 milljörðum. Þetta tekur langan tíma og við höfum ekki þessa stöðu núna. Það sem lagt er til og bent á er að þegar þessi kjörstaða er komin er hægt að draga út úr greininni 17 milljarða sem er tekjuskattur einstaklinga til ríkisins og skilja eftir hagnað í sjávarútvegi sem hefur aldrei verið fyrr, hv. þm. Það þarf að hugsa þessi mál aðeins í samhengi.

Hv. þm. spurði hvað lægi að baki tillögunni. Það er tvennt sem liggur að baki. Það eru réttlætissjónarmiðin við úthlutun veiðiheimilda eins og var skýrt mjög ágætlega áðan af hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og það eru efnahagsleg rök fyrir því til að byggja upp annað atvinnulíf, þar á meðal atvinnulífið á landsbyggðinni. Þetta er efnahagsstefna, herra forseti, til framtíðar sem tekur mið af því að við erum komin í stöðugleikaumhverfi hin síðari ár. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fara þessa leið því ef við gerum það ekki förum við sömu gömlu verðbólguleiðina sem við þekkjum mjög vel fyrir 1990. Það er fólgin í þessu mikil hugsun, herra forseti, og efnahagsstefna sem horfir til frambúðar. Ekki er verið að leggjast á eina atvinnugrein og hvað þá heldur landsbyggðina eins og hér hefur verið haldið fram. Það er þvert á móti, en til þess þurfa menn þá að lesa sig vel í gegnum þá tillögu sem hér liggur fyrir.