Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:54:34 (337)

1996-10-15 15:54:34# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:54]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ef sá dagur kemur að fiskveiðiarður í íslenskri útgerð verður það mikill að útgerðin í Norðurlandi eystra verður aflögufær um þá milljaðra sem hv. þm. Stefán Guðmundsson talaði um áðan þá held ég að við getum öll orðið ánægð. Ég óttast, því miður, að það verði ekki en það er allt í lagi að vona það. Mig langar svo rétt til að nefna það því hv. þm. hafði áhyggjur af veiðileyfagjaldi á íslenska fiskvinnslu sem væri í kreppu að það stendur ekki til að leggja veiðileyfagjald á fiskvinnslu. Fiskvinnslan fær engum kvóta úthlutað. Við leggjum ekki veiðileyfagjald á hana. Íslensk fiskvinnsla er vissulega í kreppu, það er rétt. Og það er sjálfstætt íhugunarefni að velta því fyrir sér af hverju það er. Það kann t.d. að vera vegna þess að kvótaverð er orðið býsna hátt og nýir menn eru að kaupa sig inn í greinina fyrir býsna háar upphæðir og verða samkeppnisstöðu sinnar vegna að fá býsna hátt verð fyrir þann fisk sem þeir færa að landi. Kreppa íslenskrar fiskvinnslu er sjálfstætt íhugunarefni en sú umræða á kannski ekki alveg heima hér þó að það henti hv. þm. að draga kreppu íslenskrar fiskvinnslu inn í þá umfjöllun sem hér fer fram um veiðileyfagjald.