Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 15:56:16 (338)

1996-10-15 15:56:16# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:56]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að ég fagnaði því sannarlega að arðurinn í íslenskum fiskveiðum og vinnslu mundi aukast og það er akkúrat það sem ég hef verið að segja. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af þeim mikla arði sem flutningsmenn virðast sjá í greininni. Ég tek undir það og mér fannst hv. þm. vera að segja það að þá ætti að skattleggja þessa atvinnustarfsemi eins og aðra atvinnustarfsemi í landinu. Það á ekkert og þarf ekkert að meðhöndla sjávarútveginn á einhvern annan hátt en aðra atvinnustarfsemi. Ef hv. þm. heldur virkilega að skattlagning greinarinnar upp á 17 milljarða kr. hafi ekki áhrif á fiskvinnsluna botna ég ekki í málinu. Ef þingmaðurinn heldur að það muni ekki hafa áhrif á fiskverð skil ég ekki málið. Ef þingmaðurinn heldur að það muni ekki hafa áhrif á launakjör starfsfólks í fiskvinnslu og sjómenn þá skil ég ekki málið. Ég held að fleiri séu orðnir ráðvilltir en prófessorinn.