Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:19:28 (344)

1996-10-15 16:19:28# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:19]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er aftur komin til umræðu þáltill. um veiðileyfagjald. Mig langar í örfáum orðum að blanda mér inn í þá umræðu sem hér fer fram. Maður verður var við það nánast hvar sem maður fer að rætt er um að taka beri upp innheimtu veiðileyfagjalds. Ég hef með sjálfum mér verið að reyna að skilgreina hvernig standi á því að þessi umræða er orðin svo útbreidd eins og tel hana vera. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að í langflestum tilfellum sé rótin að umræðunni sú að fólk er óánægt með fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar þar sem um er að ræða heimild til framsals, þ.e. sölu eða leigu á veiðiheimildum. Niðurstaða mín eftir að hafa rætt þetta við fólk töluvert víða er að rótin sé þessi. Út af fyrir sig get ég viðurkennt að sú rót sem ég tala um er á sinn hátt skiljanleg. Mín skoðun á því er sú að framkvæmd á þessu framsali samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða er að sumu leyti ekki eins og ég vildi sjá hana. Hins vegar vil ég segja að ég tel eins og umræðan er hér að framsal veiðiheimilda og veiðileyfagjald séu tveir aðskildir þættir og í rauninni er talað um það á þann hátt í greinargerð með tillögunni að svo sé. Þess vegna tel ég að umræðan um að ákveða að innheimta veiðileyfagjald sé í rauninni ekki lausn á því vandamáli sem fólk telur að sé við þetta fiskveiðistjórnunarkerfi. Sérstaklega er það svo þegar til þess er horft að tillagan er algjörlega óútfærð og það er ekki með nokkru móti hægt að sjá hvert flutningsmenn hennar ætla að stefna í málinu.

Umræðan um veiðileyfagjaldið er í mínum huga mjög óskilgreind eins og hún hljómar og er nánast út og suður á köflum. Ég leyfi mér að segja að því miður er það svo að margir sem tala um að leggja skuli veiðileyfagjald á sjávarútveginn vita nánast ekki um hvað þeir eru að tala. Þeir bara grípa þetta á lofti vegna þess sem ég hef hér áður sagt.

Síðan er annað sem við megum ekki gleyma og það verður að hafa í huga að í dag er innheimt veiðileyfagjald af útgerðinni, það er einfaldlega þannig. Það var komið aðeins inn á þetta í umræðunni í dag. Hvernig skyldi þetta veiðileyfagjald vera? Jú, veiðiskip sem fær heimild til fiskveiða þarf að borga gjald fyrir að fá að veiða aflaheimildir sínar á yfirstandandi fiskveiðiári. Ef útgerð sem á þetta fiskiskip gerir viðkomandi skip út á einhverjar sérveiðar, ég nefni sem dæmi dragnót, ber útgerðinni að greiða sérstakt veiðileyfi vegna þess. Síðan má líka nefna að útgerðirnar þurfa að greiða sérstakt gjald í þróunarsjóð sem miðast við úthlutaðan afla. Ég skoðaði eitt dæmi sem mig langar að nefna, herra forseti. Ég skoðaði eitt dæmi þar sem niðurstaðan var sú að ég tel að viðkomandi útgerð þurfi að greiða sem svarar tveimur til þremur krónum á hvert kg aflaheimildar sem henni er úthlutað með þeim gjöldum sem þegar eru innheimt þannig að veiðileyfagjald er innheimt í dag. Þess vegna þarf ekki að vera með sérstaka tillögu um það hér. Ég tala ekki um fyrst tillagan er óútfærð.

En svo ég víki að tillögunni er talað um að það skuli taka upp þetta veiðileyfagjald og síðan er talað um að skipa skuli sérstaka nefnd og á hæstv. forsrh. að skipa hana. Í tillögunni er talað um hverjir eða fulltrúar hverra skuli eiga sæti í nefndinni. Síðan er nefndarinnar að komast að raun um hvernig á að gera þetta og ég vænti þess að nefndin eigi í rauninni að komast að því hvort það sé raunhæft að gera þetta. Þannig túlka ég þetta mál.

Þá er talað um að nefndin skuli kanna leiðir til að leggja á auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar, svo sem vatnsorku. Mér finnst, herra forseti, ákaflega skondið að sjá það hér hvernig þessi nefnd skuli skipuð og síðan að leggja til að nefndin fjalli um hvort taka beri upp auðlindagjald vegna ýmissa annarra auðlinda. Mig langaði að koma inn á þessi örfáu atriði í tillögunni.

En umræðan um veiðileyfagjaldið vítt og breitt hefur að mínu mati að vissu leyti farið út á mjög óæskilegar brautir. Þá meina ég það þannig að allir útvegsmenn eru í umræðunni stimplaðir sægreifar sem braski með eigur þjóðarinnar o.s.frv. Þetta tel ég að hafi valdið því að það er mjög hallað á marga heiðvirða útgerðarmenn og sjómenn sem hafa ekki stundað það sem umræðan skilgreinir sem brask og svínarí. Ég veit dæmi þess að einstaka persónur hafa orðið fyrir aðkasti vegna þessa en eru þó alsaklausir að málinu. Mig langaði rétt að nefna þetta, herra forseti, sem óæskilega afleiðingu af umræðunni sem ég tel mjög slæma. Síðan megum við ekki gleyma því að heimildin til framsals samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða hefur vissulega gert það að verkum að þjóðarbúið hefur í heild haft ákveðinn hag af því og menn hafa nefnt úthafsveiðarnar sem flotinn fór út í að stunda fyrir nokkru. Menn nýttu sér heimildir til framsals aflaheimilda þannig að auðvitað má færa rök fyrir því að þessar úthafsveiðar hefðu ekki hafist nema þessi heimild væri fyrir hendi.

Í þessu sambandi vil ég nefna að ég tel umhugsunarvert hvort þær útgerðir sem hafa stundað úthafsveiðar og unnið sér inn veiðireynslu skuli halda öllum þeim veiðiheimildum sem þær hafa fyrir í lögsögunni. Ég tala ekki um þegar samkvæmt nýframlögðu frv. um úthafsveiðar er gert ráð fyrir að aflaheimildum verði úthlutað til þessara skipa og þau muni væntanlega halda heimildum innan lögsögunnar sem þau hafa a.m.k. að hluta til leigt frá sér á meðan úthafsveiðarnar eru stundaðar. Mér finnst þetta ekki sjálfgefið. Ég vil gjarnan að við ræðum þetta og ég geri ráð fyrir að það verði gert þegar þar að kemur.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég rótina að þessari umræðu um veiðileyfagjald vera óánægjuna sem kemur fram víða um fyrirkomulagið um framsal veiðiheimilda og að sjálfsögðu er skylda okkar að ræða þessi mál. Menn eru að vísu alltaf að ræða með hvaða hætti við getum tekið á því. Ég tel að við þurfum að fara yfir með hvaða hætti við getum lagfært þessa löggjöf til að skapa um hana sátt sem ég held að allir séu sammála um og hefur komið hér fram að þurfi að ríkja um þessi mál.

Ég sé að tíminn er búinn, herra forseti, þannig að ég læt hér máli mínu lokið þó svo að að sjálfsögðu sé hægt að ræða þetta mun lengur en ég kemst ekki lengra í bili.