Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:30:19 (346)

1996-10-15 16:30:19# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:30]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sé rétt hjá hv. þm. að undirrótin fyrir óánægju í sambandi við sjávarútvegsmál sé mikil óánægja með framsal. Eitt af því sem við höfum nefnt sem röksemd fyrir veiðileyfagjaldi er að óréttlæti er fólgið í því að úthluta veiðiheimildum ókeypis og að menn hagnist á kaupum eða sölu eða leigu þeirra.

Þingmaðurinn sagði að tillagan væri óútfærð. Það er ekki rétt. Tillagan er pólitísk eins og við höfum margoft sagt. Hún fjallar um að Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Það er skilgreint hvað veiðileyfagjald er. Það er sagt í tillögunni að það eigi að skipa nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta atriði og hverjir eiga þar sæti. Síðan er sagt:

,,Nefndin kanni hvaða form veiðileyfagjalds er heppilegast með tilliti til áhrifa á eftirtalin atriði ...`` Svo eru talin upp ýmis atriði. Nefndin á ekki að kanna hvort það eigi að taka upp veiðileyfagjald. Hún á að kanna hvaða form veiðileyfagjalds er heppilegast með tilliti til áhrifa á eftirtalin atriði. Málið sem felst í þessu er að það liggur fyrir pólitísk yfirlýsing stærsta flokks þjóðarinnar og forustuflokks ríkisstjórnarinnar um að viðhafa óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Menn þurfa að svara eftirfarandi spurningum: Vilja menn hafa þetta óbreytt kerfi án veiðileyfagjalds? Vilja menn hafa veiðileyfagjald í því? Eða kjósa menn þann pólitíska slag sem margir eru reiðubúnir að taka þátt í til að breyta þessu fiskveiðistjórnunarkerfi? Menn þurfa að svara þessum pólitísku spurningum. Þess vegna höfum við m.a. sagt: Það á og er skynsamlegt að ræða um veiðileyfagjald án tengsla við fiskveiðistjórnunarkerfið um stund. Menn eiga að taka þessa pólitísku afstöðu. Sumir flokkarnir hafa tekið mjög skýra pólitíska afstöðu í þessu þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég vil benda á það að lokum, herra forseti, að Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., hefur einmitt sagt að eftir því sem hagur sjávarútvegsins eflist og hann braggist sé eðlilegt að hann greiði meira til samfélagsins. Og það er nákvæmlega þessi röksemd sem við höfum verið að draga fram í okkar þáltill., mjög skýrt. Um það snýst málið og þarna er komin líka ákveðin mjög markverð pólitísk yfirlýsing af pólitískum forustumanni.