Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:35:40 (349)

1996-10-15 16:35:40# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., MBJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:35]

Magnús B. Jónsson:

Virðulegi forseti. Í till. til þál. sem hér er til umfjöllunar er gert að meginmáli að lagt sé veiðileyfagjald á sjávarútveg. Ekki virðist skipta máli hvernig umrætt veiðileyfagjald er lagt á heldur gefin opin spil á hvaða útfærslu sem er. Í raun er veiðileyfagjald ekki annað en viðbótarskattlagning á sjávarútveginn sem kæmi til með að bitna á afkomu hans. Tillagan virðist hins vegar ekki byggja á þeirri forsendu að sjávarútvegur á Íslandi sé of lítið skattlagður heldur hinu að um einhvers konar réttlætismál sé að ræða og réttlætið sé fólgið í nafninu á skattinum, ekki beinlínis eðli hans nema sem nafngiftinni nemur. Í tillögunni er gert ráð fyrir að gjaldið verði lagt á hvað sem tautar þótt nefnd sem fjalla á um málið sé falið að kanna helst allt sem tengst getur sjávarútvegi til að byggja á rök fyrir skattheimtunni að því er virðist en ekki til að komast að neinni annarri niðurstöðu.

Virðulegi forseti. Það er dagljóst að sjávarútvegsfyrirtækin sem ekki hafa náð að skila arði og sum hver beinlínis berjast fyrir lífi sínu þola ekki slíka skattlagningu hvernig sem hún birtist. Í raun gæti verri afkoma sjávarútvegsfyrirtækja þýtt hrun einhverra byggðarlaga sem þrátt fyrir allt byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Það upplegg í grg. með till., að hægt sé að sexfalda afkomu sjávarútvegsins vekur óneitanlega spurningar um hvað þeir séu að hugsa sem nú stjórna útvegsfyrirtækjum. Eða eru flutningsmönnum e.t.v. kunnar einhverjar töfralausnir í rekstri slíkra fyrirtækja sem ekki hafa verið opinberaðar? Sá framsetningarmáti að taka þessa sexföldu arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja og stilla henni upp á móti skatttekjum einstaklinga er auðvitað ekkert annað en pólitískar sjónhverfingar.

Virðulegi forseti. Með tillögunni eru kynntar sjö hugmyndir að því hvernig megi fara að því að leggja umræddan skatt á.

Í fyrsta lagi er talað um að dreifa veiðiheimildum á alla landsmenn og koma allri þjóðinni inn á prúttmarkað með kvóta. Flutningsmenn viðurkenna þó að þessi aðferð geti orðið erfið og skal fyllilega tekið undir það sjónarmið.

Í öðru lagi er bent á að leggja mætti árlegt gjald á hvert úthlutað þorskígildi. Þróunin á undanförnum árum hefur verið í þá átt að kvótaverð einstakra fisktegunda hefur í auknum mæli bein áhrif á fiskverð. Veiðileyfagjald sem lagt yrði á úthlutaðar aflaheimildir mundi leiða til hækkunar fiskverðs sem aftur leiddi af sér enn verri afkomu landvinnslunnar sem er þó bágborin fyrir.

Í þriðja lagi er bent á að ríkið gæti selt veiðiheimildir á opinberu uppboði sem mundi leiða til þess að þeir fjársterku kæmu til með að kaupa upp meiri hlutann af kvótanum og minni fyrirtæki og þeir sem erfitt eiga uppdráttar í greininni yrðu undir með viðeigandi byggðaröskun og ófriði.

Í fimmta lagi er bent á beina skattheimtu sem ég fæ tæplega séð hvernig ætti að halda til skírnar undir nafnið veiðileyfi og enn vaknar spurning um hvort útvegurinn sé ekki nægjanlega skattlagður.

Í sjötta lagi er þeirri hugmynd velt upp að taka gjald fyrir viðbótarkvóta. Það opnar augljósa leið fyrir hina sterkari til að ná kvótanum en hinir veikari lægju óbættir hjá garði.

Ég held, virðulegi forseti, að engin þessara leiða yrði farsæl fyrir sjávarútveg á Íslandi eða þjóðina yfirleitt og þótt öllum þessum leiðum væri blandað saman í mismunandi styrkleikum þá yrði útkoman ekki skárri. Ég held að það sé fyllilega hægt að taka undir það sem fram kemur í greinargerðinni að flestir forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja átta sig ekki á því að álagning veiðileyfagjalds styrki sjávarútveg til lengri tíma. Ég held hins vegar að það stafi ekki af þekkingarskorti viðkomandi stjórnenda á sjávarútvegi heldur af því að umrætt veiðileyfagjald er ekki sú lausn sem í veðri er látin vaka. Og ef því yrði komið á mundi það skapa fleiri vandamál en það leysir.

Virðulegi forseti. Það er beinlínis röng fullyrðing sem fram kemur í greinargerðinni að fáir einstaklingar sitji nær eingöngu að afrakstri mestu auðlindar þjóðarinnar. Öll þjóðin nýtur þess á beint og óbeint þegar vel gengur í sjávarútvegi en geldur þess hins vegar ef illa árar bæði með tilliti til veiða, vinnslu og stjórnvalda.