Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:40:32 (350)

1996-10-15 16:40:32# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:40]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á þeim skamma tíma sem ég hef til stefnu er ekki hægt að fara mörgum orðum um það sem komið hefur fram í umræðunni. Þó verður ekki hjá því vikist að víkja nokkrum orðum m.a. að því sem hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. Nú vil ég vekja athygli hv. þingheims á mjög athyglisverðri staðreynd. Hér erum við að ræða mál sem vissulega eru mikil skoðanaskipti um og menn ekki sammála um. En hvaða skoðanir svo sem menn hafa á þessu máli, hvort sem þeir eru fylgjandi því eða andstæðir, þá fer ekki á milli mála í huga flestra þingmanna að verið er að ræða um eitthvert stærsta mál sem er til umræðu á þjóðmálavettvangi um þessar mundir. Það er umhugsunarvert fyrir alþingismenn að slík mál skuli rædd í fjarveru allra þeirra sem fara með framkvæmdarvaldið og eru í forustu fyrir flokkum stjórnarliðsins. Alþingi hefur sett mjög mikið niður á undanförnum árum. Menn segja að skapandi umræða í stjórnmálum eigi sér ekki lengur stað í sölum Alþingis heldur í stofnunum og félögum utan veggja þingsins. Það sem er kannski einna helst til merkis um þetta er að forráðamenn þjóðarinnar sem hafa vissulega skoðanir á þessum málum, ræða ekki skoðanir sínar, rökræða ekki við okkur hv. þm. á Alþingi Íslendinga heldur leggja sig í líma við að vera fjarverandi og taka ekki þátt í neinum umræðum hér. Og ef þeir láta einhver orð falla um þessi mál þá er það á öðrum vettvangi en á Alþingi Íslendinga. Þetta er eitt skýrasta dæmið sem ég þekki um það að á Alþingi fara ekki raunar lengur fram, með þátttöku helstu valdsmanna í þjóðfélaginu, stefnumarkandi umræður um þau mál sem efst eru á baugi og eiga að vera efst á baugi í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Þess vegna sitjum við nú hér daglangt og ræðum þessi mál í fjarveru hæstv. forsrh. sem hefur haft um þau stærstu orð utan veggja löggjafarsamkundunnar. Hæstv. ráðherra sést ekki hér, tekur engan þátt í umræðum hér, lætur ekki sínar skoðanir í ljósi hér, er ekki ínáanlegur hér þrátt fyrir það að mér sé kunnugt um það að þeim tilmælum hafi verið beint til hæstv. forseta að hann óskaði eftir því að hæstv. forsrh. yrði hér viðstaddur svo hægt væri að ræða við hann, hér innan veggja Alþingis, þau ummæli sem hann hefur sjálfur látið falla um málið utan veggja þingsins. En hér í sölum Alþingis hefur hann ekki tjáð sig einu orði um þetta mál.

Á landsfundi Sjálfstfl. lét einn skynsamasti flokksmaður þeirra sjálfstæðismanna, Markús Möller, (Gripið fram í.) þau orð falla ... Já, ég sagði einn skynsamasti liðsmaður þeirra sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.) Markús Möller lét þau orð falla að Sjálfstfl. mætti ekki láta jafnaðarmenn taka sig á taugum í þessu máli. Það eru vissulega varnaðarorð í tíma töluð því það var ekki annað að sjá en að hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., hefði einmitt látið taka sig á taugum í þessu máli því það fyrsta sem hann gerir þegar hann mætir 1.500 eða 1.700 manna landsfundi Sjálfstfl., þar sem á að fjalla um stefnumarkandi mál á vegum flokksins og taka til umræðu fjölmargar ályktunartillögur sem starfshópar höfðu undirbúið fyrir þann landsfund, var að tilkynna landsfundinum hvað hann mætti og hvað hann mætti ekki. Það er að segja, áður en landsfundur 1.500 sjálfstæðismanna tekur til starfa eftir langan undirbúning þá tilkynnir formaður flokksins í upphafi flokksþingsins að það séu ákveðin mál sem þó hafi verið fjallað um í undirnefndum sem flokkurinn megi ekki hafa jákvæða skoðun á. Eitt af þeim málum var veiðileyfagjald.

[16:45]

Og hvernig brást svo þessi 1.500 manna samkoma við? Hún brást þannig við að enginn þessara 1.500 manna sem hafði skoðanir svipaðar þeim sem flutningsmenn þessarar tillögu hafa þorðu að opna munninn. Þeir sátu og þögðu. Ef þetta er ekki að taka flokk á taugum, þá veit ég ekki hvernig það er gert. Hafi við jafnaðarmenn tekið formann Sjálfstfl. á taugum, þá tók hann sína 1.500 fylgismenn á taugum strax í upphafi fundarins. (Gripið fram í: Ekki Einar Odd.) Jú, jú, Einar Odd líka, og hafði m.a. þau ummæli um sjónarmið þeirra Vestfirðinganna að menn þyrftu að hrista ánamaðkana úr hlustum sér. Þeir sem legðu eyrun við röddum grasrótarinnar yrðu að passa sig á að ánamaðkar skriðu ekki inn í eyru þeirra. Ég varð ekki var við annað en að þessum ummælum væri líka tekið ósköp rólega og með þögninni.

Hv. formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh., reyndi að færa rök í upphafi landsfundar fyrir því að landsfundarfulltrúar mættu ekki hafa skoðun á þessu máli sem gengju í berhögg við skoðanir hans sjálfs. Hver voru þessi rök? Í fyrsta lagi að jafnaðarmenn væru að tilkynna það að þeir ætluðu að taka 40--50 milljarða út úr sjávarútveginum í ríkissjóð. Hvar hefur hæstv. forsrh. séð það? Hvar hefur hæstv. forsrh. heyrt það? Hvergi. Ekkert er um það sagt í greinargerð með þessari tillögu og ekkert hefur verið um slíkt sagt í máli flutningsmanna. Það eina sem hefur verið sagt sem nálgast eitthvað þessar tölur er að það megi vænta þess að þegar sjávarútvegurinn verði kominn í kjörstöðu, þá geti hagnaður í sjávarútvegi numið 15--30 milljörðum kr. Það hefur hvergi verið sagt að það standi til að taka þann hagnað allan af sjávarútveginum og flytja hann í ríkissjóð og það hefur hvergi verið sagt að um sé að ræða 40--60 milljarða kr. arðrán af sjávarútveginum eins og hæstv. forsrh. lét sér sæma að segja, ekki í ræðustól hér á Alþingi þar sem alþingismenn og flutningsmenn þessarar tillögu geta átt í orðastað við hann, heldur á landsfundi Sjálfstfl.

Hæstv. forsrh. sagði líka að það stæði til að fella gengið samkvæmt tillögum okkar um 40--60%. Hvaðan hefur hann það? Það hefur orðið til í hans eigin huga því að það hefur enginn svo mikið sem orðað slíkt og ég spyr á móti: Hvað var gengið fellt þegar þróunarsjóðsgjaldið var tekið upp? Forsrh. segir að það sé ígildi veiðileyfagjalds. Ekki neitt. Hvað var gengið fellt þegar viðskipti með aflaheimildir hófust sem skipta nú eitthvað á annan milljarð króna og eru beinar álögur, ekki síst á fiskvinnslur og ígildi veiðileyfagjalds? Það hefur engin gengisbreyting verið gerð þrátt fyrir það. Og ég spyr enn: Ef hæstv. ríkisstjórn nær sínum áformum um að samræma tryggingagjald sjávarútvegsins við aðrar greinar, þá eru menn að tala þar um á bilinu 500--750 millj. kr álögur á sjávarútveginn. Hvað á að fella gengið mikið þar?