Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:05:52 (356)

1996-10-15 17:05:52# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:05]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það gætti smámisskilnings í umræðunni hjá hv. 10. þm. Reykn., Kristjáni Pálssyni, hvað varðaði það frv. sem ég ásamt Guðjóni Guðmundssyni lagði fram á þingi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það væri kannski líka til að upplýsa þingheim um það að ég gerði landsfundinum grein fyrir þessu frv. sem við mundum leggja fram í gær. (SvG: Hvaða fundi?) Landsfundi Sjálfstfl. Þar gerði ég grein fyrir því frv. sem við mundum leggja hér fram. Og það gengur út á það ... (Gripið fram í.) Ég var klár á því á hvaða landsfundi ég var, enda sá ég ekki Svavar Gestsson þar, en hann á kannski eftir að koma þangað.

Varðandi þetta frv. sem hér verður tekið efnislega til umræðu og gætti smámisskilnings hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni um, þá gengur frv. út á það að jöfn skipti geta farið fram, en hins vegar ef útgerðir eða skip veiða ekki þann afla sem þeim hefur verið úthlutað, þá ber þeim að skila þeim afla til Fiskistofu og síðan geta útgerðir sótt um að fá endurúthlutun gegn umsýslugjaldi sem er þá prósentugjald miðað við gangverð hvers dags á kílói á fiskmörkuðum. Ég vildi bara aðeins skýra frá þessu og væntanlega mun þetta mál koma til frekari umfjöllunar.

Út af því sem hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, gat um áðan, þá er rétt að þetta komi fram vegna þess að það var ekki einróma rödd á landsfundinum og menn höfðu sínar skoðanir, enda Sjálfstfl. víðsýnn og framsýnn þannig að þar hafa menn skoðanir miklu fremur en í þessum fámennu flokkum á vinstri kantinum.