Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:19:38 (360)

1996-10-15 17:19:38# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:19]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vafalaust alveg rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir í þessu efni að margt sameinar menn fleira en virðist vera í fljótu bragði. En af hverju eru menn að gefa annað í skyn? Mér finnst með fullri virðingu fyrir vinum mínum í þingflokki jafnaðarmanna að allur málflutningurinn af þeirra hálfu og sérstaklega af hálfu formanns Alþfl. gangi út á það að veiðileyfagjaldið leysi fiskveiðistjórnunarvandann, komi í veg fyrir spillinguna og svínaríið og þess vegna eigi að taka það upp --- að Alþfl. sé með lykilinn í höndunum í þessu máli. Mér finnst ekki sanngjarnt og ekki skynsamlegt að ganga þannig fram gagnvart þjóðinni. Mér finnst þess vegna hreinlegra fyrir Alþfl. og þingflokk jafnaðarmanna að segja fullum fetum: Við erum bara hér með tillögu um skatt. Síðan getum við rætt um mismunandi útfærslur á þeim skatti.

En ég vil spyrja hv. 4. þm. Vestf. sem er næstur í andsvari: Hvernig horfir þetta við honum og byggðarlögunum vestra miðað við stöðuna sem þar er uppi? Hvað segir hann um þær röksemdir dreifbýlismanna að með þessu verði landsbyggðin fyrir skatti sem þéttbýlinu sé hlíft við? Ég spyr hv. þm.