Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:29:21 (365)

1996-10-15 17:29:21# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:29]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. að mikill grundvallarmunur er á því hvort við erum að breyta stjórnkerfinu um stjórnun fiskveiða eða hvort við erum að leggja á nýja skatta. Ég tek undir röksemdir hans hvað það varðar. Innan Sjálfstfl. eins og hv. þm. hefur eflaust heyrt hafa verið skiptar skoðanir um fiskveiðistjórnunina og menn hafa viljað ýmsar útfærslur hvað hana varðar. En ég held að mér sé óhætt að fullyrða það og eins og komið hefur skýrt fram eru sjálfstæðismenn almennt sammála því að aflastýringarkerfið sé rétta aðferðin til að ná tökum á fiskstofnunum eða stjórnun veiða úr þeim. Síðan hafa menn deilt um hvernig leysa ætti erfiðleika sem hafa skapast vegna framsalsins. Og ég er hjartanlega sammála hv. þm. að leysa verður það með einhverju móti þannig að þjóðin sætti sig við stjórnkerfið. Það er hægara sagt en gert en nauðsynlegt fyrir hið háa Alþingi að geta leyst málið svo vel fari. Annars glutrum við ágætis stjórnkerfi, aflastýringarkerfinu út úr höndunum.