Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:30:49 (366)

1996-10-15 17:30:49# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:30]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kannski segja núna að það sem sanna átti er komið fram. Með öðrum orðum það að framsalsvandinn er aðalvandi kerfisins nú. Það verður að taka á honum ef menn vilja höggva að rótum spillingarinnar og í þeim efnum höfum við alþýðubandalagsmenn lagt fram tilteknar hugmyndir eins og menn þekkja. Spurningin er hvort þingmenn eru tilbúnir til að ræða þær. En að minnsta kosti er ljóst að eftir þennan dag liggur fyrir að það er almenn viðurkenning manna úr öllum flokkum á því að framsalsvandinn sé aðalundirrót spillingarinnar og brasksins í þessu kerfi og á honum þurfum við að taka og ég er þakklátur hv. þm. og öðrum fyrir að taka undir þau sjónarmið.