Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:32:01 (367)

1996-10-15 17:32:01# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:32]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði Þjóðvaki fram þáltill. um sama efni og nú er lögð fram. Ég hafði orð á því þá að mig minnir að þetta væri vond tillaga, en sá ástæðu til að hæla greinargerðinni því að greinargerðin var svo haglega samin að þar var talið upp allt mögulegt og ómögulegt og látið að því liggja að það mætti svo sem heita auðlindaskattur.

Nú hefur eins og allir vita Þjóðvaki ummyndast í upphaf sitt. Nú leggja þeir fram sömu tillögu en nú er greinargerðin orðin ítarlegri og um leið vafasamari. Án þess að ætla að fara ofan í þetta nákvæmlega, því að það gefst ekki tími til þess, þá er það fyrst og fremst eitt atriði í þessari greinargerð sem skiptir máli. Í greinargerðinni er því haldið fram og af talsmönnum þess haldið fram alls staðar í ræðum og ritum, að auðlindaskattur búi til nýja peninga, gefi ný sóknarfæri eins og aðaltalsmaður tillögunnar hefur oft talað um, bæði í þessum ræðustól svo og í fjölmiðlum. Þetta er aðalvillan. Skatturinn getur aldrei búið til nýja peninga og allir þeir virtustu hagfræðingar sem um þetta mál hafa fjallað hafa aldrei haldið því fram, aldrei. Þvert á móti hafa þeir sem mest hafa um þetta rætt eins og t.d. doktor Ragnar Árnason sýnt fram á að svo sé ekki. Ég hlakka þess vegna til ef tillagan fer til nefndar þar sem nefndin getur þá farið yfir þessa villu og krufið til mergjar því að þetta er náttúrlega kórvilla. Menn eru að blekkja þjóðfélagið með þessu. Þetta er kórvilla og trúlega gerð viljandi. Það er viljandi verið að segja fólki að hægt sé að draga upp úr galdrahattinum hvorki meira né minna en alla skattana þess. Það munar um annað eins þó að tveir þriðju Íslendinga þurfi ekki að borga tekjuskattinn. Það var komið inn á það áðan.

Hvorki Sjálfstfl. né nokkur annar stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur nokkurn tíma sagt að menn væru á móti sköttum í sjálfu sér. Það er nauðsynlegt að ríkisvaldið, hið opinbera, hafi tekjur. Það vita allir. Og skattur hlýtur á hverjum tíma að vera lagður á eftir skynsemi valdhafanna fyrst og fremst. Það verður að gæta þess fyrst og fremst að drepa ekki skattstofninn eins og hefur komið fyrir í ýmsum löndum. Auðvitað verður að leggja á skatta og það er enginn að tala gegn því. Í þessari ágætu þáltill. er m.a. eins og í hinni í fyrra talað um tekjuskatt og nú er sérstakur tekjuskattur á sjávarútveginn orðinn auðlindaskattur. Það er svo sem ágætt.

Ég get ekki að því gert, þó að ég ætli ekki að fara yfir þessa fimm liði sem síðan er hrært saman í 6. liðinn sem tillögu flutningsmanna um hvernig skattleggja skuli, að nefna að mér finnst 6. tillagan nokkuð skondin með tilliti til þess að meðal flutningsmannanna eru nú þingmenn á borð við hv. þm. Vestf., Sighvat Björgvinsson og fleiri, sem virðast ekki muna langt aftur í tímann. Fyrir 12 eða 13 árum settum við á þetta kerfi fiskveiðistjórnunar sem neyðarráðstöfun til eins árs vegna þess að við vorum að reyna að færa þorskveiðiheimildirnar úr því sem hafði verið að meðaltali 370 þús. tonn, 70 árin þar á undan, niður í 200 þús. tonn. Þetta kom sér óskaplega illa fyrir ýmsar byggðir sem þrifust fyrst og fremst á þorski. Nú er það orðin tillaga að skattstofni, að þorskurinn kunni að færast úr 155 þús. upp í 185, tillaga að skattstofni. Hvers eiga t.d. Vestfirðingar að gjalda þegar slík tillaga kemur frá þingmanni þeirra? Það var eins og um árið að haft var eftir Jóni Hreggviðssyni: ,,Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.`` Ég held að margir hugsi þannig við lestur þessa.

En það er ekki rétt sem talsmennirnir hafa sagt að þetta sé stórt mál. Þetta er lítið mál vegna þess að ef okkur tekst að búa til nýja peninga í þessu þjóðfélagi, þá er það aðalatriðið. Aukaatriðið er og það er sjálfsagt að ræða það, hvað við ætlum að gera við nýja peninga.

Í þessu plaggi er því haldið fram að fiskveiðistjórnunin á Íslandi sé að skila gríðarlegum árangri, að vísu ekki alveg núna en mjög væntanlega, bara á morgun að mér skilst, svo miklum arði að hann geti fljótlega numið milljörðum og aftur milljörðum. Ég dreg hins vegar mjög í efa að við séum að ná árangri. Mér er það til efs. Ég vil benda á að við notum tvenns konar aðferðir við það. Við notum líffræðilega stjórnun og ráðgjöf sem því miður hefur ekki skilað okkur nokkrum sköpuðum hlut. Við erum enn þá að hjakka í sama farinu og fyrir 12--13 árum. Einhver kann að trúa því að það sé betri tíð fram undan. Við skulum vona að svo sé. En það er fullkomin ástæða til að efast um hana og spyrja þeirrar spurningar: Eru ekki aðrar leiðir þá til? Ber ekki að athuga það?

Ég efast líka um að aflamarkskerfið sem við höfum rekið núna lengi sé raunverulega að búa til nýjan fiskveiðiarð. Það er ómögulegt á þessum stutta tíma að fara nákvæmlega ofan í það. Ég gæti viðurkennt að það eru líkur sem benda til þess að svo sé í uppsjávarfiskveiðunum. Það gæti verið. En mér er mjög til efs að svo sé í hinum botnlægu tegundum.

Ég hef gagnrýnt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi fyrst og fremst af einni ástæðu, þ.e. þeirri að það er sóun í henni, svo mikil sóun að ég hef trú á því að það geti ekki staðist. Svo koma menn úr öllum flokkum og segjast vera fylgjandi aflamarkskerfinu en það eigi bara að afnema gallana. Og hverjir eru gallarnir? Spillingin, segja þeir, braskið og svínaríið. Og hvað er þetta nú? Jú, það er framsalið, það er framsalið á aflaheimildunum sem orsakar spillinguna, braskið og svínaríið. Þegar þeir eru búnir að afnema það, þá verði þetta bara fínt. En þetta er nákvæmlega það sama og að segja: Ég er mjög hlynntur því að við höfum flugvélar, bara ekki hafa á þeim vængi. Þetta kerfi án þess að hafa framsal fram og til baka gæti aldrei gengið eina einustu mínútu. Það kolfélli á stundinni. Menn verða að gera það upp við sig: Fylgja þeir þessu kerfi, þá með þeim göllum sem á því eru, eða eru þeir reiðubúnir til þess að fara í alvöru að skoða aðrar leiðir? Það er stóra málið því að það gæti orsakað að við fyndum nýja peninga sem okkur sárlega vantar.