Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 17:40:32 (368)

1996-10-15 17:40:32# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:40]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði áðan um kórvillu en ég sé ekki betur en hann sé eins konar kórvilla af Vestfjörðum því að það er aldeilis ekki rétt að þegar fiskveiðistjórnunarkerfið var sett á á sínum tíma, hafi það verið yfirlýst að það væri neyðarráðstöfun til eins árs. Það var greinargerð þáv. 1. þm. Vestf. fyrir atkvæði sínu. En það kom bara í ljós að hann hafði ekki rétt fyrir sér þannig að það kerfi sem hann hélt að ætti bara að standa í eitt ár, stóð heldur lengur.

Það er líka kórvilla af Vestfjörðum að halda því fram að við séum að búa til nýja peninga. Það eina sem sagt er í greinargerðinni er það mat færustu vísindamanna okkar, að ef stjórnkerfi fiskveiða geti skilað þeim árangri að þegar mest hagkvæmni verði af veiðunum, þá geti fiskveiðiarðurinn orðið þetta sem þar segir, 15--30 milljarðar kr. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í gagnrýni hans á fiskveiðistjórnunarkerfinu og er alveg opinn fyrir breytingum á því kerfi. Munurinn er bara sá að hann óskaði eftir því við sinn flokk, Sjálfstfl., að Sjálfstfl. féllist á að slík skoðun yrði gerð. Hann fékk svar við þeirri málaleitan sinni og svarið er nei. Hæstv. sjútvrh. segir eftir landsfundinn að Sjálfstfl. hafi aldrei verið jafneinlitur og afdráttarlaus kvótaflokkur og hann er eftir þennan landsfund. Það hefur því kannski líka verið kórvilla af Vestfjörðum, virðulegi forseti, að fara af stað með mál sem endaði svona skelfilega.