Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:02:28 (396)

1996-10-17 11:02:28# 121. lþ. 10.1 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:02]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er jafn vel ljóst og hæstv. fjmrh. hvaða kerfisbreytingar eru meginástæða þess að nú er bjartara fram undan og mér er líka ljóst eins og honum hverjir það voru sem þær gerðu. Þess vegna er mér nokkurt harmsefni að menn skuli ekki hafa haldið áfram á þeirri braut, þeirri braut kerfisbreytingar.

Hins vegar þykir mér ekki góð latína að skattleggja eina atvinnugrein til þess að greiða niður fjármagnskostnað við fjárfestingar innan lands. Það er ekki góð efnahagspólitík vegna þess að hætta er á að slíkar aðferðir verði einfaldlega til að ýta undir fjárfestingar sem hefðu betur verið ógerðar og þó svo staða Stofnlánadeildar landbúnaðarins kunni að vera sterk vegna þess að hún er skattlögð til að greiða niður neikvæða vexti til fjárfestinga er það enginn fyrirmyndarbúskapur. Ég vil enn spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki standi til að breyta því þannig að þeir sem stunda framkvæmdir, hvort sem það er í landbúnaði eða öðrum atvinnuvegum, þurfi að standa undir eðlilegum vaxtakostnaði af þeirri framkvæmd og gera eðlilegar arðsemiskröfur vegna þeirra fjárfestinga sem verið er að gera fremur en að menn séu að skattleggja atvinnugreinina til að greiða niður fjárfestingar sem ef til vill eru alls ekki í hennar þágu.