Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:30:43 (400)

1996-10-17 11:30:43# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég muni það rétt að miðað við rammafjárlagagerðina var gert ráð fyrir því að útgjöld heilbrrn. lækkuðu um einar 1.200 millj. kr. frá grunntölunni. Nú er beðið um 1.347 millj. kr. aukafjárveitingu, sem sé mun hærri fjárveitingu en nam þeim niðurskurði sem átti að vera þannig að lesi menn þessar tvær tölur saman þá er niðurstaðan einfaldlega sú að enginn árangur hafi orðið. Það er athyglisvert að í skýringum kemur ekki fram að nein atvik valdi því svo sem eins og áhrif kjarasamninga eins og var við fjáraukalagagerðina 1995. Þá er annaðhvort grunnsetningin í rammafjárlagagerðinni gróflega röng, þ.e. að grunngerðin fyrir heilbr.- og trmrn. er stórlega röng, eða þá það að öll sparnaðaráformin, ef þau hafa verið raunhæf, hafa alls ekki gengið eftir og engu skilað.