Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:53:49 (407)

1996-10-17 11:53:49# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:53]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi skal tekið fram að fjárreiðufrumvarp hefur verið afgreitt úr báðum þingflokkunum. Það er verið að prenta frv. (Gripið fram í: Er það stjfrv.?) Það er stjfrv. og er frv. sem fjmrh. flytur og verður lagt fram eins og var gert á sl. ári, með sama hætti.

Í öðru lagi held ég að betur sé staðið að þessu fjáraukalagafrv. en oftast áður og ástæðan er sú að við höfum nú sterkari samninga í heilbrigðismálunum en oftast áður þegar fjáraukalagafrv. hefur verið lagt fram. Það er auðvitað mikill kostur að geta afgreitt þetta frv. sem allra fyrst og ég tek undir það. Ég bendi á að lokauppgjör fer fram í fjáraukalagafrv. sem verður lagt fram á vorþinginu næsta.

Um lið 190, Ýmis verkefni í utanríkisráðuneytinu á bls. 35, þ.e. forræðismál Sophiu Hansen, var tekin sú ákvörðun að veita þessar fjárveitingar til að geta haldið úti starfsmönnum utanríkisþjónustunnar og til að greiða annan kostnað sem eðlilegt þótti að greiða. Ég get ekki hér og nú sagt hvort þetta sé endanlegt uppgjör eða ekki.

Ekkert hefur breyst hvað Silfurlax varðar. Ég man ekki hver okkar orðaskipti voru í fyrra en tryggingin sem ríkið hefur er fyrst og fremst í þeim hafbeitarlaxi sem á eftir að koma og fer auðvitað dálítið eftir því hvort hann skilar sér í þeim mæli sem við búumst við eða ekki.

Og að allra síðustu vegna raðsmíðaskipanna þá hefur verið lokið við samninga við alla aðila og þeir samningar hafa verið gerðir í samráði við Ríkisendurskoðun þannig að af hálfu Ríkisábyrgðasjóðs og Lánasýslunnar er því starfi nú lokið. Það mun væntanlega verða hægt að fá upplýsingar um það mál ef þær hafa ekki komið fram til þingmanna.