Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:10:14 (443)

1996-10-17 15:10:14# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:10]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér fyrst og síðast hljóðs við umræðuna vegna orða sem féllu við þessa sömu umræðu fyrr í dag af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals og raunar ekki síður vegna þeirra athugasemda sem finna má í frv. til fjáraukalaga og lúta að málefnum er snúa að hv. Alþingi.

Fyrr í morgun fór áðurnefndur hv. þm. mikinn vegna framkvæmda sem hafa verið í gangi á Alþingistorfunni, endurbætur og raunar endurbygging á gömlum húsum sem Alþingi hefur haft eignarhald á til þess að koma þeim í það horf að unnt væri að nota þau undir starfsemi þingsins og einnig til þess að þau yrðu umhverfi sínu til sóma en ekki ósóma eins og verið hefur. Það kom mér satt að segja svolítið á óvart að sami hv. þm., Pétur H. Blöndal, taldi þetta hið eina fréttnæma í frv. til fjáraukalaga af hálfu framkvæmdarvaldsins, af hálfu hæstv. fjmrh., að fyrir lægi að leita eftir tilteknum fjármunum til þess að ljúka framkvæmdum við endurbætur á gömlum húsum í eigu Alþingis, löggjafarsamkundunnar.

Hann staldraði ekki eitt aukatekið andartak við önnur atriði í fjáraukalagafrv., atriðum sem lúta að ákvörðunum framkvæmdarvaldsins sem leiða aftur til þess að þetta sama framkvæmdarvald þarf að koma fyrir hið háa Alþingi og óska eftir staðfestingu þeirrar gerðar þannig að fylgt sé lögum til hins ýtrasta í þeim efnum. Nei, hv. þm. fann það helst til foráttu í þessu fjáraukalagafrv. að hið háa Alþingi þyrfti á auknum fjármunum að halda.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mjög mörgum orðum um þetta tiltekna mál sem hér bar á góma, þ.e. endurbótum og endurbyggingum á þessum húsum. Hæstv. forseti, virðulegi 1. þm. Reykn., gerði það mjög rækilega og tók raunar hv. þm. í kennslustund með örfáum beinskeyttum orðum og dró upp meginlínur og hinar réttu línur um aðdraganda og framgang og raunveruleika alls þess máls. Það er óþarfi að endurtaka það, bæði hvað varðar mikilvægi þess að koma þessum húsum í notkun og einnig hitt hvernig samskiptin voru, hin fjármálalegu samskipti voru milli æðstu stjórnar þingsins og annarra hlutaðeigandi aðila innan þings um framkvæmd þeirra mála. Það er nefnilega gefið til kynna í greinargerðinni, þeim athugasemdum um fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu að æðsta stjórn þingsins, forsætisnefnd og þá væntanlega formenn þingflokka og fjárln. í heild, hafi farið öðruvísi fram í þessum málum en samkomulag hafi verið um við hæstv. fjmrh. Það er auðvitað fjarri öllu lagi og ekki nærri nokkrum sannleika.

Eins og hv. 1. þm. Reykn. drap réttilega á voru í tillögum þingsins í frv. til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, þ.e. síðasta haust, óskir um það hvernig þessi framkvæmd gæti gengið fram og verið lokið á þessu ári og greidd á þessu ári og fundið fé til þess í yfirstandandi fjárlögum. Það gekk ekki fram. Það er út af fyrir sig önnur saga sem ég ætla að gera að umtalsefni rétt á eftir. En á móti kom að samningar um þessa framkvæmd í fullu samráði við formenn þingflokka, í fullu samráði við fjárln. voru með þeim hætti að framkvæmdum var unnt að ljúka á þessu ári þótt greiðslur gætu fallið til á því næsta. Einmitt í samræmi við þann samning voru tillögur forsætisnefndar Alþingis og Alþingis í heild til frv. til fjárlaga fyrir næsta ár þess efnis að þeir fjármunir fyndust þar og kæmu til greiðslu á næsta ári.

[15:15]

Það var síðan að frumkvæði hæstv. fjmrh. sem hann vill finna þessum fjármunum stað í því frv. sem við ræðum hér, frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Þannig að halda því fram í þessum virðulega ræðustóli að forsn. þingsins, formenn þingflokka og fjárln. hafi vísvitandi brotið lög er slík ósvinna að engu tali tekur. Mér dettur helst í hug að ætla, án þess að ég geti fullyrt um það, að vilji þingmannsins til að kalla á athygli fjölmiðla eða einhverra annarra, vitandi það að þessir flutningar standa yfir einmitt í dag og þessa dagana, hafi kallað fram þessi viðbrögð hans og þessar órökstuddu dylgjur í garðs hins háa Alþingis og þar með í garð hans sjálfs.

Það var með öðrum orðum farið að þessu máli af hálfu þingsins eins og lög, reglur, venjur og hefðir segja til um. Það er ekkert öðruvísi. Það er nákvæmlega ekkert öðruvísi. Það er hins vegar kapítuli út af fyrir sig að þessi hv. þm. --- og ég neita að trúa því, virðulegi forseti, að hann eigi sér hér marga viðhlæjendur í þessum efnum --- skuli ganga fram með þessum hætti við umræðu um fjáraukalagafrv. sem telur 15 milljarða kr. Og það vegna þess að löggjafarsamkunda þjóðarinnar, sem hefur rekstur með höndum sem er minni en öll ráðuneyti framkvæmdarvaldsins hvert og eitt um sig, mun minni rekstur en hið nýja umhvrn., að vísu eilítið hærra en forsrn. Það eina sem eftir stóð í hans ræðu var að fara orðum um það að hið háa Alþingi væri farið að bruðla, að hið háa Alþingi færi illa með fé skattborgaranna. Ekki datt hv. þm. Pétri H. Blöndal í hug að minnast eitt andartak á breytingar á aðalskrifstofu forsrn., ákvörðun sem landsmenn allir og þar með taldir allir hv. þm. hygg ég vera og hugsanlega jafnvel hæstv. ráðherrar, sáu og heyrðu fyrst í fjölmiðlum ef ég man rétt daginn eftir forsetakosningarnar í júní. Ekki sá hann ástæðu til að eyða einu orði að því. Mér vitanlega var ekki haft samráð, hvorki við hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn, án þess að ég geti fullyrt nokkuð um það, en fjmrh. hæstv. getur þá leiðrétt það. Þaðan af síður við hið háa Alþingi um þá framkvæmd upp á 25 millj. kr. Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að sú aðgerð og þær framkvæmdir hafi ekki verið bráðnauðsynlegar og skynsamlegar. Ég held þvert á móti að þær hafi verið það. Kannski var einmitt rétti tíminn að ráðast í þær á þessum tíma.

Ég hjó líka eftir því að hv. þm. taldi ekki ástæðu til að eyða nokkrum orðum eða sekúndum í að ræða 9 millj. kr. aukaframlag, viðbótarframlag, til að greiða ráðgjafarfyrirtækjum eða verðbréfafyrirtækjum til að gera úttektir og rannsóknir ýmiss konar. Nú veit ég að hv. þm. sökum fyrri starfa sinna þekkir þann vettvang býsna vel og kannski betur en við flest önnur og veit því að þar er ekkert gefins. Hann sá hins vegar ekki nokkra ástæðu til að spyrjast fyrir um þetta. Ég vil hins vegar árétta spurningu sem raunar hefur þegar fram komið í þessum umræðum og spyrja hæstv. fjmrh. Hann gat ekki svarað því í morgun en hefur nú haft nokkra klukkutíma til að láta sína menn gaumgæfa það. Hvaða fyrirtæki eru það sem þáðu þessar 9 millj. kr. vegna vinnu við rannsóknir og athuganir á möguleikum frekari einkavæðingar? Hvaða rannsóknir og athuganir voru það nákvæmlega sem þessi ótilteknu fyrirtæki, verðbréfafyrirtæki fyrst og síðast, eftir því sem sjá má, unnu að? Ég held að það sé brýnt að fá þau svör skilmerkilega hér upp á borð áður en þessari umræðu lýkur.

Ég tók líka eftir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal sá ekki ástæðu til að eyða sekúndu af sínum ræðutíma til að ræða um rekstur sendiráða erlendis. Það er að finna mjög athyglisverðar upplýsingar í athugasemdum við fjáraukalagafrv., á bls. 35 í greinargerðinni. Þar kemur fram að lagt er til að veitt verði 14,5 millj. kr. viðbótarframlag vegna umframgjalda í sendiráðum og hjá fastanefndum erlendis. Og það þrátt fyrir að á síðasta ári hafi verið gert hreint borð í þeim efnum eins og hæstv. ráðherra gerir hér grein fyrir í greinargerð og talað um að þar hafi mál verið komin á þurrt og á réttan grundvöll. Nei. Svo virðist ekki hafa verið því að ekki er nóg að hér séu veittar 14,5 millj. til að hækka þennan stofn á yfirstandandi ári heldur er gefið til kynna og fullyrt, sem síðan er að finna í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár, gert ráð fyrir að þessi hækkun verði varanleg, að þessi hækkun sé eitthvað sem við komum til með að búa við. Skýringar eru þær að hjá fjórum sendiráðum hafi útgjaldaaukningin stafað af hækkunarákvæðum í húsaleigusamningum. Vissu menn ekki um það hækkunarákvæði? Var þetta eitthvað nýtt? Voru menn að skipta um húsnæði eða hvað var hér á ferð? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra upplýsi það. Einnig er rætt um breytta samsetningu starfsmanna. Ég hefði nú haldið í fljótu bragði að sá rammi sem utanrrn. er skammtaður um rekstur sendiráða erlendis ætti að vera það rúmur að hann ætti að ráða við þær sífeldu breytingar sem eðlilega eiga sér stað innan hinna einstöku sendiráða úti um víða veröld og það þyrfti ekki sérstaklega að breyta gjaldagrunninum til lengri tíma vegna slíkra innbyrðis breytinga frá einum tíma til annars. Ég óska eftir svörum við þessu. Það er athyglivert að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem stundum hefur farið mikinn í þessum ræðustóli vegna bruðls framkvæmdarvaldsins sá ekki ástæðu til að eyða einni sekúndu í þetta atriði frekar en önnur sem lutu að framkvæmdarvaldinu.

Svona væri hægt að halda lengi áfram enn. Og af því að ég er hér að nefna nokkur atriði, nokkur dæmi um það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal, samviska Sjálfstfl. þegar kemur að opinberum rekstri, taldi ekki ástæðu til að nefna þá er beðið um sérstakt framlag á yfirstandandi ári, 4 millj. kr., til að greiða nefndarmönnum í ráðgefandi nefnd sem hefur haft það viðfangsefni að fjalla um inn- og útflutning landbúnaðarvara samkvæmt ákvæðum GATT-laganna. Með öðrum orðum þarf 4 millj. til viðbótar til að búa til tollmúra, þröskulda, til þess að snúa forsendum GATT-samkomulagsins gjörsamlega á hvolf. Ég hef stundum heyrt hv. þm. Pétur H. Blöndal ræða um að framkvæmd GATT-laganna væri nú ekki algerlega í þeim anda sem hann hefði gert ráð fyrir. En hann er hins vegar greinilega mjög sáttur við að það kosti skattborgarana 4 millj. kr. til viðbótar, ja, ég veit ekki til viðbótar við hvað. Það er kannski ástæða til að spyrja um hvaða heildarupphæðir er að ræða gagnvart þessari ráðgefandi nefnd sem á að fjalla um leiðir til að setja upp þröskulda og tollmúra vegna samkomulagsins um GATT. Hver er heildarkostnaðurinn? Hér er eingöngu rætt um viðbótarkostnað sem ekki var að finna í forsendum fjárlaga yfirstandandi árs. Ég hef því miður ekki þær tölur handbærar enda kannski ekki finnanlegar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er heildarkostnaðurinn við þessa ráðgefandi nefnd sem hefur þetta mjög svo umdeilda, svo ekki sé meira sagt, verkefni af hálfu framkvæmdarvaldsins, landbrn., að tryggja það að halda vöruverði uppi gagnvart íslenskum neytendum? Það er greinilegt fagnaðarefni og alveg nýtt af nálinni hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að honum þykir þetta hið eðlilegasta og sjálfsagðasta mál. A.m.k. eyddi hann ekki hálfri sekúndu í það í ræðu sinni í morgun.

Hv. þm. hafa eðlilega gert að umtalsefni viðbótarkostnað við neyðarsímsvörun. Það mál er auðvitað hreinn og klár skandall, hreint og klárt rugl frá upphafi til enda eins og stundum vill nú verða þegar hæstv. ríkisstjórn og einkanlega hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. og þeirra stuðningsmenn, menn á borð við Pétur H. Blöndal, þessir beiðendur útboða, ræða um breytingar á formi og innihaldi ríkisreksturs og þjónustu gagnvart almenningi. Það hefur verið talið allra meina bóta að bjóða út. Þá leysast öll vandamál. Það sparar peninga, bætir þjónustu og ég veit ekki hvað og hvað. Þessa þulu þekkja hv. þm. allir. Hvað kemur hér í ljós? Vandræðagangurinn í kringum þessa neyðarsímsvörun er slíkur að ekki verður hjá því komist að sækja viðbótarframlag hjá hinu háa Alþingi til að setja í gang þetta samkomulag sem dómsmrh. beitti sér fyrir við eitt tiltekið einkafyrirtæki úti í bæ sem hirti þennan bita í raun allan þó að reynt hafi verið að setja um það einhvers konar silkipappír. En hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur greinilega engar áhyggjur af því. Honum þykir það hið eðlilegasta mál að þrátt fyrir að hin heilaga leið hans, útboð, hafi verið farin, a.m.k. í orði kveðnu, er engu að síður kallað á verulega fjármuni úr ríkissjóði vegna þessa útboðs. Hækkun á 15 millj. vegna rekstrarframlags og síðan stofnkostnaður og aðrar 7 millj. kr. vegna kynningarmála. Það er orðið hlutverk hins opinbera eftir að útboð hefur farið fram. Eftir að einkaaðilinn sjálfur hefur tekið við rekstrinum þá er það ríkissjóður sem auðvitað borgar brúsann og hann þarf líka að sjá um kynningarmálin. Hann þarf líka að sjá um stofnkostnaðinn. Það þarf meiri peninga og meiri peninga. En ekki eitt aukatekið orð um þetta, engar áhyggjur af þessu hjá hv. þm., sérfræðingi Sjálfstfl. um ríkisrekstur og einkarekstur. Nei. Það eru húsin við Kirkjustræti sem áttu hug hans allan.

Ég gæti haldið svona lengi áfram, virðulegi forseti. Ég vil hins vegar að lyktum víkja að því sem er auðvitað meginkjarni þessa máls. Húsin við Kirkjustræti eru það ekki heldur eru það fyrst og síðast samskipti hins háa Alþingis við framkvæmdarvaldið sem er lykilmál í þessu sambandi. Ég get upplýst það hér að bæði við fjárlagagerðina á liðnu hausti, haustinu 1995 og aftur núna á þessu hausti 1996, stendur stjórn þingsins og formenn þingflokka í stappi við fulltrúa framkvæmdarvaldsins um það hvernig málum skuli hagað á hinu háa Alþingi. Ekki í einu einasta þjóðþingi öðru sem ég þekki til þarf þingið að vera undir sök framkvæmdarvaldsins selt í málum af þessum toga. Og enginn held ég að geti fullyrt um það að Alþingi hafi gengið fram með offorsi á umliðnum árum eða áratugum í kröfugerð hvað varðar stofnframkvæmdir eða annað því um líkt. Alþingismenn og starfsfólk þingsins er nú í 11 húsum hér á torfunni. Þar af eru 30 þingmenn í leiguhúsnæði. Ég hygg að hin háu ráðuneyti búi ekki við slíkan húsakost. Meginatriðið er að Alþingi sem hefur eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdarvaldinu hafi til þess tök, ráðrúm og möguleika. Ég hélt að það væri metnaðarmál nýrra þingmanna á borð við þingmanninn Pétur H. Blöndal að staða þingsins til slíks eftirlitshlutverks væri slík að þingið gæti sinnt því hlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu sem fram undir þetta hefur þannig farið fram að gagnrýni er sannanlega vert. Mér fannst tóntegundin hjá hv. þm. alls ekki vera með þeim hætti heldur þvert á móti og það veldur mér verulegum áhyggjum og ekki síst í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi þegar æ frekar hefur borið á því að hv. þm. stjórnarflokkanna hafa virkað eins og pöntunarfélag fyrir framkvæmdarvaldið. Þeir hafa, eftir að ríkisstjórnin hefur lagt inn pöntun, afgreitt eftir hendinni, ýtt á hina grænu takka algjörlega eftir pöntunum og hefur þar ekki síður hv. þm. Pétur H. Blöndal frekar en aðrir staðið sína plikt. Það er auðvitað eftirtektarvert í þessu öllu saman og veldur mér áhyggjum þegar kemur að hinu mikilvæga sjálfstæði þingsins og stöðu þess í samfélaginu, ekki síst gagnvart framkvæmdarvaldinu. En það er augljóst mál að ekki deila allir þessum áhyggjum mínum í umræðunni sem hér fer fram þó full ástæða sé til.

Ég vil hins vegar að gefnu tilefni og það verða mín lokaorð, virðulegi forseti, kalla eindregið eftir því að formenn þingflokka, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, komi og vitni um þau mál sem voru hér á borð borin í morgun af hv. þm. og vitni um framgang þessara mála. Einnig er auðvitað eðlilegt að hv. formaður og varaformaður fjárln. geri slíkt hið sama þannig að menn velkist ekkert í vafa um það hvernig staðið var að þeim ákvörðunum sem hér um ræðir og lúta að framkvæmdum við þau hús sem hér hafa verið margnefnd.