Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:36:28 (447)

1996-10-17 15:36:28# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig að ég stafi þetta nú ofan í hv. þm., og fyrirgefðu orðbragðið, hæstv. forseti. Það er ekki búið að greiða eina aukatekna krónu umfram forsendur yfirstandandi fjárlaga. Það er ekki búið að brjóta nein lög í þessum efnum. Ætlar hv. þm. ekki að skilja það? Hv. 1. þm. Reykn. fór yfir þetta frá a til ö hér í morgun. Þannig að það er augljóst mál af því sem hann sagði hér áðan að hann ætlar ekki að læra. Það eru orð að sönnu. Engin lög hafa hér verið brotin og það er háalvarlegur hlutur að halda því hér fram við hið háa Alþingi að það fari á undan með að brjóta lög í landinu. Þannig að hv. þm. verður að finna þessum orðum sínum stað eða vera ómerkur orða sinna annars. Það er ekki flóknara en það. En það breytir því ekki sem ég sagði hér áðan og hef áréttað mörgum sinnum að hann er fullkomlega áhyggjulaus af hinum 15 milljörðunum sem runnið hafa út úr ríkiskassanum án þess að ástæða hafi verið til þess að spyrja kóng eða prest. Þó að auðvitað séu sannarlega á því skýringar sem hið háa Alþingi vegur og metur og tekur síðan endanlegar ákvarðanir um. En hv. þm. hefur ekki áhyggjur af því en ber kollegum sínum það á brýn að brjóta lög í landinu. Hann verður þá að finna þeim orðum stað og rökstyðja og sýna fram á en það getur hann auðvitað ekki.