Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:53:14 (449)

1996-10-17 15:53:14# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um einstök atriði sem hér hefur borið á góma eins og neyðarsímsvörunina. Ég vil þó segja það eitt um það að það kom að því að hæstv. ráðherra hlustar á Ríkisendurskoðun og er henni sammála í einu og öllu og guð láti gott á vita ef svo fer fram sem hún spáir fyrir um sparnað af neyðarsímsvörun. Það sem ég vildi hins vegar eyða minni einni og hálfri mínútu í er einmitt þetta sem hæstv. ráðherra gerði að sínum lokaorðum og það eru samskipti í okkar stjórnskipan, hvernig við viljum halda á málum í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, m.a. um meðferð fjár og hvernig að ákvörðun skuli staðið varðandi fjárlagafrv.

Ég vil minna hv. þm. á það þó að það sé ástæðulaust hvaða undirstofnanir heyra undir hið háa Alþingi. Það eru ekki ómerkari stofnanir heldur en umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun, tvær stofnanir sem undir engum kringumstæðum mega og eiga að sækja sitt undir framkvæmdarvaldið því að þær hafa því heilaga hlutverki að gegna að líta gagnrýnum augum á þetta sama framkvæmdarvald og eiga þess vegna ekki að þurfa að sækja eitt né neitt undir það heldur njóta skjóls hv. Alþingis. Þannig hefur það gengið býsna vel. En maður hefur auðvitað af því áhyggjur ef skilningur hæstv. fjmrh. er með þeim hætti byggður á reglugerðarákvæði um stjórnskipan lýðveldisins sem er auðvitað ekki lagaígildi, að frumkvæðið um ráðstöfun fjár eigi að koma frá framkvæmdarvaldinu til hins háa Alþingis og þeirra mikilvægu undirstofnana. Ég dreg það mjög í efa og held að við þurfum mjög ítarlega umræðu um þau mál og það fyrr en síðar. Það má enginn velkjast í vafa, hvorki í þessum sal né þjóðfélaginu öllu um það hvernig þeim málum er háttað. Ég hvet því mjög til þess, virðulegi forseti, að við tökum þá umræðu og gefum okkur góðan tíma í hana.