Langtímaáætlun í vegamálum

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:20:06 (505)

1996-10-28 15:20:06# 121. lþ. 11.2 fundur 48#B langtímaáætlun í vegamálum# (óundirbúin fsp.), KHG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:20]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er auðvitað mjög gagnlegt að fulltrúar þingflokka séu kallaðir að slíkri vinnu sem undirbúningur langtímaáætlunar í vegagerð er. Þar með fá þeir aðgang að upplýsingum og sérfræðingum og geta tekið þátt í að móta tillögur til framtíðar. Það er eins og fara gerir að stundum næst ekki sameiginleg niðurstaða og þá skipta menn liði og skilar hvor aðili sínu áliti sem kemur fram í skilabréfi nefndarinnar. Allir stjórnmálaflokkarnir eru þá búnir að fara yfir málið og eru tilbúnir að ræða það í þingsölum.

Ég vil því, herra forseti, ítreka spurningu mína til hæstv. samgrh. hvort að ekki sé ráð fyrir því gert í hans áformum að fulltrúar allra stjórnmálaflokka komi að tillögugerð við gerð næstu langtímaáætlunar í vegagerð og vísa til þess fordæmis sem sýnt var af þáv. samgrh. Steingrími J. Sigfússyni.