Löggildingarstofa

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:20:48 (566)

1996-10-29 14:20:48# 121. lþ. 12.6 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu ekki á móti því að spara ef hægt er að spara peninga og það er auðvitað ærin ástæða til að reyna að halda aftur af útgjaldaþenslunni í eftirlitsiðnaðinum sem hefur verið gífurleg undanfarin ár og er náttúrlega hluti af óskapnaðinum sem við erum að flytja inn frá Brussel og höfum ekkert um að segja í mörgum tilvikum, alls konar eftirlitsfargan sem er yfirgengilegt og væri hægt að segja ýmsar sögur af. Þetta lendir bæði á skattgreiðendum í gegnum það sem ríkið þarf að taka að sér, en líka á atvinnulífinu vegna kostnaðar af flóknu eftirlitsbatteríi og maður sér þá ekki fyrir endann á því öllu saman, langt í frá.

Ég held að ekki sé vafi á því að við Íslendingar komumst ágætlega af hér á árunum án þess að reka jafnumfangsmikið og flókið eftirlitskerfi á öllum sviðum eins og skrifræðisbáknin gera hjá milljónaþjóðunum í kringum okkur. Nærtækasta og stærsta dæmið þar um eru kannski fiskveiðarnar og veiðieftirlit og allt slíkt innan sjávarútvegsins sem við höfum af skiljanlegum ástæðum orðið að reka af ýtrustu hagkvæmni, þar sem að nágrannaþjóðirnar eru nánast með eftirlitskerfi þar sem er maður á mann. Það þarf einn mann til að hafa eftirlit með hverjum öðrum sem starfar í greininni. Við erum að sjálfsögðu ekki að biðja um slíkt hér. Þvert á móti, ef hægt væri að hafa þetta eftirlitsbákn einfaldara þá er það fagnaðarefni.

Ég er hins vegar ekki viss um að þessi silkihúfustjórnun á stofnuninni, þó að það sé jafnágætur maður og gagnmerkur og formaður Neytendasamtakanna sem þar er formaður ... (Gripið fram í: Það er kona.) Eða kona, örugglega góð framsóknarkona, ég giska á að hún hafi einstöku sinnum kosið Framsfl. sem þar fær ágætisþóknun samanber umsögn um frv. hér. Síðan kemur ráðgjafarnefndin og verða það ekki líka þrjár framsóknarkonur sem sitja í henni og fá 500--700 þús. kr. samtals. Ég held að þegar upp verði staðið þá sé ekki víst að þessi lagskipta yfirstjórn og silkihúfur hæstv. ráðherra skili miklum nettósparnaði. Mér finnst þetta oft vera þannig að það á að spara í orði og svo er nokkrum óbreyttum starfsmönnum sagt upp, en í reynd þenst þetta út og það eru oftast silkihúfurnar sem fá mest fyrir sinn snúð þegar upp er staðið.