Brunatryggingar

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:31:35 (571)

1996-10-29 14:31:35# 121. lþ. 12.7 fundur 75. mál: #A brunatryggingar# (umsýslugjald) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:31]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var þannig þegar þetta mál var til umfjöllunar á sínum tíma á Alþingi gerði stjórnarandstaðan mjög miklar athugasemdir við vinnubrögð þáv. ríkisstjórnar um það hvernig þetta gjald skyldi lagt á. Í raun og veru hefur það allt saman komið í ljós sem stjórnarandstaðan hélt fram á þeim tíma, að lagagrundvöllurinn fyrir álagningu gjaldsins væri mjög hæpinn. En það heyrir sögunni til og ekki ástæða til að rifja það upp. Aðalatriðið er auðvitað að tryggja þarf lagagrunninn fyrir umsýslugjaldinu.

Fasteignamat ríkisins taldi sig þurfa að hækka þetta gjald úr 0,025 prómillum í 0,030 prómill og voru óskir um það. Það er ástæðan fyrir þessum mismun sem um er getið í fjárlagafrv. Ég féllst hins vegar ekki á að á sama tíma og menn væru að leita leiða til þess að spara hjá öllum ríkisstofnunum á öllum sviðum, þá þyrfti Fasteignamat ríkisins eins og aðrar stofnanir líka að spara hjá sér og þetta sama gjald yrði áfram að vera nægilegt fyrir Fasteignamatið til að viðhalda þeirri skrá og þeim verkefnum sem þetta gjald á að standa undir.