Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:21:32 (589)

1996-10-29 15:21:32# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:21]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þau mál sem hér eru á dagskrá eru annars vegar um eignarrétt á landareignum sem fela í sér jarðhita eða nýtingarrétt á jarðhita og hins vegar frv. til laga um orku fallvatna og nýtingu hennar. Í báðum tilvikum er 1. flm. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson en aðrir flutningsmenn þingmenn Alþb. Og frá því er sagt í greinargerð með þessum frumvörpum að þau hafa verið flutt mjög lengi, árlega á Alþingi á undanförnum árum.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. og frsm., Hjörleifs Guttormssonar, að þetta eru mjög veigamikil mál. Þessir málaflokkar eru einhverjir hinir stærstu og þýðingarmestu sem Alþingi fjallar um. Nú vill svo til að þeir munu setja mjög svip sinn á það þinghald sem nú stendur yfir.

Við erum hér að ræða um auðlindastefnu. Aðalmál á Alþingi í gær var einnig um auðlindastefnu, um nýtingu á sjávarauðlindinni. Hér er verið að vekja upp spurningar sem varða grundvallaratriði um eignarhald og nýtingu á jarðhita og orku fallvatna. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að að loknum löngum undirbúningstíma er von á stjfrv. sem taki með einhverjum hætti á þeirri réttaróvissu eða þeirri óvissu sem ríkt hefur um eignarhald, eignarrétt og nýtingarrétt að því er varðar það sem nú er kallað þjóðlendur, þ.e. land á afréttum eða utan marka heimalanda bújarða, þannig að eignarhald á hálendinu, eignarhald á auðlindum, eignarhald á fiskimiðunum, allt eru þetta mál sem eru óútkljáð og eru öll til umræðu á þessu þingi.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék að því að að frumkvæði hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, fyrrv. iðnrh., fluttum við jafnaðarmenn á fyrra þingi frv. um þessi mál og reyndar fyrir utan spurningarnar um eignarhald á auðlindum, jarðhita og fallvatnaorku einnig um rekstrarform á Landsvirkjun í ljósi gerbreyttra viðhorfa og gerbreyttra aðstæðna eftir að niður er fallinn fyrirvarinn sem settur var varðandi einkarekstur opinberra aðila í orkugeiranum gagnvart EES-samningnum.

Það er satt að segja meira en lítið undarlegt að mál af þessu tagi sem verið hafa á dagskrá íslenskra þjóðmála eiginlega alla þessa öld skuli nú þegar við erum í augsýn næstu aldar vera öll nánast í uppnámi, að Alþingi skuli ekki hafa tekist að leiða þessi mál til lykta með ákveðnum og öruggum hætti þannig að fyrir liggi í löggjöf reglur um grundvallaratriði varðandi eignarrétt og nýtingu á þessum auðlindum. Það er mjög mörgum spurningum ósvarað. Að sumu leyti mótast svörin af grundvallarviðhorfum þeirra sem svara. Það flokkast undir grundvallarsjónarmið okkar jafnaðarmanna að auðlindir, sem fyrst og fremst þykja verðmætar vegna þróunar þjóðfélagsins, vegna vaxtar þéttbýlis, vegna nýrrar tækni eða þar sem svo háttar til að einkaeignarrétturinn eða eigendur landa hafa ekki upphaflega greitt neitt fyrir auðlindir, hvort heldur eru rennandi vatn eða jarðvarmi, og verðmæti þessara auðlinda er fyrst og fremst til komið fyrir þróun þjóðfélagsins án tilverknaðar eiganda, þá myndast þar gríðarlegur arður vegna þarfar almennings á að nýta auðlindina og spurningin er: Á þessi arður að renna í hlut þjóðfélagsins í heild sem hefur þá gert þetta að verðmætum eða á þetta að reynast verða lottóvinningur í höndum einkaeigenda sem ekkert hafa greitt fyrir hann og ekkert stuðlað að því að gera þetta að verðmætum? Það er grundvallaratriði jafnaðarstefnu að arðurinn af auðlindum sem þannig verður til renni til almennings en verði ekki tilviljunarkenndur happdrættisvinningur einkaaðila sem ekkert hafa lagt af mörkum.

Það væri ástæða til að ætla að um þetta mál væri víðtækari málefnaleg samstaða heldur en á milli okkar jafnaðarmanna í Alþfl. og Þjóðvaka og í Alþb. Það væri t.d. ástæða til að spyrja hæstv. iðnrh., ef hann væri í húsinu enn þá, mér sýnist hann nú ekki vera það, hvort þeir sem flokkast undir lærisveina Jónasar frá Hriflu og telja sig bæjarradíkala í Framsfl., séu ekki svipaðrar skoðunar. Vel má vera að það sé eitthvað á huldu, en það er kannski ástæða til að spyrjast fyrir um það hvort sjónarmið af þessu tagi eigi ekki einhvern hljómgrunn a.m.k. í þeim armi Framsfl. Sjálfum er mér kunnugt um það að meðal almennings, frjálslyndra og umbótasamra kjósenda Sjálfstfl., njóta þessi sjónarmið verulegs stuðnings og það inn í raðir flokksins því að þeir menn sem einhvers meta t.d. fræðileg skrif dr. Bjarna Benediktssonar um auðlindastefnu og auðlindanýtingu eru margir hverjir þeirrar skoðunar að þessi grundvallarsjónarmið okkar jafnaðarmanna séu rétt og að þau beri að halda í heiðri.

(Forseti (ÓE): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni. Það var ætlunin að hafa utandagskrárumræðu kl. hálffjögur, hvort hv. þm. vill fresta ræðunni eða hvort hann vill fá einhverjar mínútur til að ljúka henni.)

Því er til að svara, herra forseti, að ég er svona nokkurn veginn í byrjun ræðunnar og mun því fara að tilmælum forseta og gera hlé.

(Forseti (ÓE): Já. Þannig að hv. þm. mun fresta ræðu sinni, takk fyrir.)