Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:41:16 (593)

1996-10-29 15:41:16# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:41]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrir ekki löngu síðan skilaði nefnd sem hæstv. fjmrh. hafði skipað, ég man ekki hvort það var með atbeina viðskrh. líka, til þess að gera úttekt á samkeppnisstöðu Íslendinga. Niðurstaðan varð sú að það væri mjög einkennandi fyrir íslenskan þjóðarbúskap að hann lyti ekki lögmálum samkeppni, heldur væri í fjötrum einokunar, ríkisforsjár og fákeppni. Mörg dæmi voru nefnd um þetta, m.a. hið veigamikla svið sem hér er til umræðu, þ.e. orkuframleiðsla, dreifing og sala.

Nú vill svo til að það er fyrirsjáanlegt að á næstu árum verða gríðarlegar fjárfestingar í okkar þjóðfélagi í þessari grein og hafa verið nefndar tölur allt í allt að því er varðar bæði virkjunarmannvirki, dreifimannvirki og úrvinnslu upp á 38 milljarða kr. Það eru með öðrum orðum gríðarlegar fjárfestingar fram undan í þessum geira.

Þar að auki liggur ljóst fyrir að það er af mörgum ástæðum utanaðkomandi og öðrum brýnt að rjúfa þessa einokun og það þarf að gera greinarmun á því hverjir stunda framleiðslu, hverjir dreifa og það þarf að koma samkeppni til verndar almannahagsmunum og gæta hagsmuna neytenda í þessari grein. Þess vegna er í alla staði eðlilegt að leita álits sem flestra um það hvernig eigi að taka á þessum málum til frambúðar.

Hæstv. ráðherra nefndi að hann hefði skipað fjölmenna nefnd, 20 manns, fulltrúa allra flokka sem hefur skilað áliti til þingflokka og fullyrti að þar væri samstaða um meginniðurstöður. Það kann að orka nokkuð tvímælis því það eru fyrirvarar frá fulltrúum allra flokka, eða fulltrúum a.m.k. stjórnarandstöðuflokkanna eftir því sem ég best veit. (Forseti hringir.) Og að því er þetta mál varðar þá vil ég aðeins segja það í einni setningu, að þetta mál á að taka til mjög rækilegrar umræðu í þingflokkum og ekki útiloka þar neina frá málinu því að það er gríðarlega mikilvægt eins og hæstv. ráðherra sagði að allt verði gert til þess að unnt er til þess að skapa samstöðu til framtíðarstefnumótunar um málið.