Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:54:22 (598)

1996-10-29 15:54:22# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:54]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þessi umræða um Landsvirkjun hefur nú snúist yfir í allt annað en að ræða nákvæmlega um það sem ég held að hv. þm. hafi ætlað að ræða um í upphafi. Hún hefur snúið fyrst og fremst að því hvert skipulag orkumálanna á að vera í framtíðinni og þeirri nefnd sem hafði ekkert um eignarhald að Landsvirkjun með að gera heldur var að fjalla um skipulag orkumálanna í heild sinni. Þar er samkomulag, hv. þm., um meginniðurstöðuna. Meginniðurstaðan er sú að innleiða samkeppni í orkugeirann í áföngum. Um þetta meginatriði er samkomulag. Það er einn hv. nefndarmaður sem tók þátt í þessu starfi, fulltrúi Alþb., sem varaði við þessari leið. Athugasemdir annarra, sem allir hv. þm. fengu sendar í sín hólf með skýrslunni þannig að þeir gætu kynnt sér hverjar athugasemdir annarra fulltrúa hefðu verið, snúa ekki að þessum hlutum, t.d. athugasemdir fulltrúa þingflokks jafnaðarmanna, heldur snúa að því að það þurfi að tryggja eignarhald á auðlindum í jörðu sem ríkisstjórnin er að vinna að. Þannig er með þeim breytingum sem núna eru lagðar til verið að undirbúa Landsvirkjun undir að menn geti innleitt samkeppni í orkugeirann í áföngum á næstu árum.

Ég tek undir það með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að það þarf auðvitað að vera sátt um ákveðin meginmarkmið. Og þau meginmarkmið sem hv. þm. nefndi, að aðkoma eignaraðilanna að fyrirtækinu þurfi að vera skýr. Í þeim tillögum sem núna liggja fyrir og verða kynntar innan tíðar er þetta klárt. Í öðru lagi þarf að móta reglur um arðgreiðslur. Það er verið að gera í fyrsta skipti. Þannig að þetta er verið að tryggja. Að þessu máli núna er ekkert öðruvísi staðið en í tíð þess ráðherra sem fór með iðnaðarmál árið 1983, en ég hef kynnt mér það hvernig að málum var staðið þá. Og það var með alveg sama hætti. (Gripið fram í: Hver var það?) (Forseti hringir.) Við skulum láta það liggja milli hluta hver það var, sá hv. þm. sem hér situr í salnum núna veit það sjálfsagt manna best að það var staðið að þessu (Forseti hringir.) með nákvæmlega sama hætti og núna er gert. Það er verið að reyna að leiða fram sátt milli eignaraðila í Landsvirkjun. Það hefur tekist en það er sárt, hv. þm. Svavar Gestsson, sjálfsagt (Forseti hringir.) í þínum huga að það skuli hafa tekist.