Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 16:30:16 (606)

1996-10-29 16:30:16# 121. lþ. 12.15 fundur 81. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:30]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Þetta er 81. mál þingsins og er á þskj. 82. Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Guðmundur Árni Stefánsson.

Frv. er um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, og hljóðar svo:

,,1. gr. 5. gr. laganna orðast svo:

Maki eða sá sem heldur heimili með og annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki stundað nema takmarkaða vinnu utan heimilis á rétt á umönnunarbótum er nemi allt að 50.212 kr. á mánuði. Bæturnar eru heimildarbætur og því háðar öðrum tekjum bótaþega.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Eins og segir í lagatexta frv. er hér opnað fyrir heimild til að greiða fleirum en maka fyrir að annast umönnunarsjúkling heima. Í almannatryggingalögunum nr. 67/1971 var ákvæði um greiðslu makabóta. Við gildistöku EES-samningsins var lögunum breytt. Almannatryggingalögunum var skipt upp í tvenn lög, lög um almannatryggingar, nr. 117/1993, og lög um félagslega aðstoð, nr. 118/1993. Ákvæðið um greiðslu makabóta kom þá inn í lögin um félagslega aðstoð en bótagreiðslur samkvæmt þeim eru heimildarbætur eins og allar bætur í lögum um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 5. gr. gildandi laga getur aðeins maki elli- eða örorkulífeyrisþega fengið umönnunarbætur leggi hann niður störf vegna umönnunar á heimili. Foreldrar fatlaðra og alvarlega sjúkra barna geta fengið umönnunarbætur þar til þau verða 16 ára, sbr. 4. gr. gildandi laga. Börnin fá sjálf örorkubætur þegar þau verða 16 ára og umönnunarbætur til foreldra falla niður þótt umönnunar sé áfram þörf.

Mun fleiri en makar lífeyrisþega vinna umönnunarstörf á heimilum og geta ekki stundað vinnu utan heimilis vegna þess. Nú þegar legurúmum á sjúkrahúsum fækkar og erfiðara er að fá vistun fyrir þá sem þurfa á henni að halda verða heimilismenn og aðrir aðstandendur sjúkra og fatlaðra að taka að sér þessi störf og því er úrelt að miða aðeins við greiðslu til maka þess sem er umönnunar þurfi. Ég vil í því tilliti einnig benda á biðlista sem hafa verið mikið til umræðu undanfarið. Ef sú breyting sem hér er lögð til í frv. yrði að lögum þá gætu komið til tímabundnar greiðslur til heimilismanna þeirra sem eru óvinnufærir vegna þess að þeir bíða á biðlistum eftir aðgerð og þurfa umönnun.

Eins og ég nefndi áðan eru það fleiri en makar sem sjá um umönnunarstörf. Fólk annast uppkomin börn sín, foreldra, tengdafólk eða aðra ættingja en á ekki rétt á neinum greiðslum frá hinu opinbera samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eins og þau eru nú. Það samræmist ekki anda laganna að fólki sé mismunað eftir tengslum við þann sem það annast. Breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustu, þar sem lögð er áhersla á að sjúkir geti verið eins lengi heima og unnt er og fái þjónustu þar, eru einnig rök fyrir því að umönnunarbætur greiðist fleirum en maka. Margir sjúkir og fatlaðir sem þurfa umönnun heima eiga ekki maka, en oft er einhver sem býr með þeim sem vill annast þá og gerir það. Þær greiðslur sem hér eru lagðar til gera þeim sem eru umönnunar þurfi kleift að vera lengur heima sem sparar hinu opinbera dýra sjúkrahúslegu. Hámarksupphæðin sem nefnd er í frv. er sama hámarksupphæð og greidd er vegna umönnunar fatlaðra og sjúkra barna. Ég tel það mikilvægt að upphæðin komi fram í lögunum því að ef þetta væri alfarið í höndum ráðuneytisins eða framkvæmdarvaldsins, þá tel ég ekki eins tryggt að þarna verði mögulegar hæstu greiðslur. Ég nefni sem dæmi að í lögunum eins og þau eru nú er talað um 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu sem greiðslu í umönnunarbætur, en það eru aðeins 30.934 kr. á mánuði sem greitt er þeim sem leggur niður vinnu til að annast maka sinn heima. Það er ekki há upphæð. Og ef maki leggur niður hlutastarf eða tekur að sér hlutastarf vegna umönnunar maka síns heima, þá er greidd 50% upphæð grunnlífeyris og tekjutryggingar eða 19.333 kr. á mánuði.

Í þessu frv. er ekki farið nákvæmlega í það við hvað skuli miðað við mat á greiðslu umönnunarbóta. Eins og kom fram hjá mér áðan eru allar greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð heimildarbætur og þar með háðar mati. Nú er t.d. varðandi makabætur farið bæði eftir reglugerð sem ráðherra setur og einnig reglum og síðan eru innanhússvinnureglur Tryggingastofnunar oft notaðar við mat á heimildarbótum. Hér á landi eigum við ýmiss konar mat á þjónustuþörf umönnunarsjúklinga og nefni ég þar sérstaklega vistunarmatið sem e.t.v. væri hægt að styðjast við að einhverju leyti og læknisvottorð eins og nú er.

Þessi lagabreyting er samhljóða grein í frumvarpi til almannatryggingalaga sem Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, lagði fram á Alþingi til kynningar vorið 1991 eftir heildarendurskoðun á þeim lögum.

Einnig hefur sá þingmaður sem hér stendur, sem er 1. flm. þessa frumvarps, lagt fram samhljóða frumvarp á 115. löggjafarþingi árið 1992 og síðast var samhljóða frumvarp lagt fram í fyrravetur, á 120. löggjafarþingi árið 1996. Samhljóða frumvarp hefur verið sent til umsagnar frá heilbr.- og trn. og voru umsagnir undantekningarlaust í þá veru að þetta væru nauðsynlegar réttarbætur fyrir sjúka og fatlaða og mikilvægt væri að frv. í þessa veru yrði að lögum.

Sú lagabreyting sem hér er lögð til er mikið réttlætis- og þjóðþrifamál og í takt við breytta tíma og áherslur í heilbrigðisþjónustu. Ég vona því að þetta frv. geti orðið að lögum þó svo almannatryggingalöggjöfin sé í gagngerri endurskoðun. Ég tel að leiðrétting á þessu réttlætismáli sé mjög brýn og geti ekki beðið þess að heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð ljúki.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og trn. Alþingis.