Endurskoðun laga um málefni aldraðra

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:09:53 (649)

1996-10-30 15:09:53# 121. lþ. 14.9 fundur 89. mál: #A endurskoðun laga um málefni aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Í janúar 1990 gengu í gildi lög um málefni aldraðra með endurskoðunarákvæðum sem fram færu 1. janúar 1996. Með leyfi forseta segir svo í 1. gr. laganna:

,,Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða.``

Þetta eru nokkuð merk lög sem í gildi eru og eiga að veita þeim öldruðu ágætan rétt. Hins vegar hefur oft vaknað spurning hjá þeim um þátttöku þeirra í því sem lýtur að eigin málefnum. Ég vil benda ráðherra sérstaklega á að í 3. gr. þessara laga segir svo, með leyfi forseta:

,,Skipa skal samstarfsnefnd um málefni aldraðra til fjögurra ára í senn frá 1. janúar 1990. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn tilnefndur af Öldrunarráði Íslands [þ.e. ekki Samtökum aldraðra], einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar.``

Ég vildi sérstaklega benda ráðherra á að Landssamtök aldraðra og Félag eldri borgara í Reykjavík hafa margoft bent á að það eru ýmsar samþykktir fleiri félagasamtaka hér á landi sem benda á nauðsyn þess að aldraðir komi meira að þeim málefnum sem að þeim lúta. Ég tek heils hugar undir það.

Virðulegi forseti. Í þessum lögum eru mörg afbökuð ákvæði sem fullrar endurskoðunar og athygli þurfa við, einkum og sér í lagi þau ákvæði þar sem talað er um sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða eða sérstakar þjónustuíbúðir. Því miður hefur það gerst of lengi að þær íbúðir sem ýmsir byggingaraðilar eru að bjóða til sölu, sérstaklega útbúnar fyrir aldraða, eru svo illa úr garði gerðar að með ólíkindum er. Oftar en ekki gerist það að aldraður, sem hyggur gott til glóðarinnar þá sól fer að lækka á lofti í hans lífi, selur sína íbúð og flytur í íbúð sem á að heita sérstök þjónustuíbúð fyrir aldraða, að þá er nánast engin breyting sem verður önnur en sú að flutt er úr íbúð með þröskuldum í íbúð þar sem engir þröskuldar eru. Þetta er mjög bagalegt og þarf að taka á í þessum lögum um málefni aldraðra. Það þarf að skilgreina mjög hvernig þessar íbúðir eigi að vera, t.d. með neyðarþjónustuhnappa, staðsetningu þeirra, hversu margir þeir eru o.s.frv. Þess vegna, virðulegi forseti, legg ég fram svohljóðandi fyrirspurn: Hvað líður endurskoðun þessara laga? Ég tel að ráðherra með reynslu sem hjúkrunarfræðingur hljóti að átta sig á því að þessi lög eru allsendis ófullnægjandi, einkum með tilliti til þess sem ég talaði um áðan, með nauðsyn þess að hinir öldruðu fái líka þátttöku í endurskoðun laganna. Ég vona svo sannarlega að ef ekki er farið að endurskoða þessi lög og skipa nefnd, þá sé hugsað til Landssamtaka aldraðra og þau fái að koma nálægt þessu máli.