Takmarkanir á aðgangi að Símatorgi

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:18:51 (680)

1996-10-30 16:18:51# 121. lþ. 14.16 fundur 96. mál: #A takmarkanir á aðgangi að Símatorgi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Undanfarið hefur reglugerð um símatorgsþjónustu verið í endurskoðun á vegum samgrn. Við þá vinnu hefur einkum verið litið til eftirfarandi atriða:

Í fyrsta lagi er nú unnið að því að skilgreina að nýju þá þjónustu sem til boða stendur á Símatorginu og til álita kemur að lokað verði fyrir þá flokka sem dýrastir eru, þ.e. leiki ýmiss konar sem og efni sem ekki er ætlað börnum. Að öðru leyti verði símnotendum opinn aðgangur að Símatorginu eins og nú tíðkast. Rétthöfum símanúmera mun síðan þeim að kostnaðarlausu standa til boða opnun fyrir aðgang að dýrari flokkum Símatorgsins samkvæmt sérstakri beiðni til Póst- og símamálastofnunar.

Í öðru lagi eru nú í athugun á vegum Póst- og símamálastofnunar kostir þess að senda viðvaranir til rétthafa símanúmera ef símreikningur fer yfir vissa upphæð vegna mikillar notkunar símatorgsþjónustu.

Í þriðja og síðasta lagi er til athugunar hvort komið skuli á auknu eftirliti vegna efnis og þjónustu sem veitt er á Símatorgi, en því hefur verið haldið fram að þar sé að finna ýmiss konar þjónustu sem stangast á við reglur um almennt siðgæði. Því hef ég opnað fyrir þann möguleika í frv. um nýja heildarlöggjöf um fjarskiptaþjónustu sem verður lagt fyrir Alþingi að Fjarskipta- og póststofnun verði gert að hafa eftirlit með að reglum þessum verði framfylgt, ella verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að loka fyrir þá þjónustu sem um ræðir sé um ítrekuð brot á reglugerð að ræða.

Að lokum vil ég taka fram að þó hert sé á reglum um símatorgsþjónustu þá verður ekki fram hjá því litið að stór hluti þeirra vandamála sem upp hafa komið vegna himinhárra símreikninga á rætur sínar að rekja til erlendra símatorgsfyrirtækja. Mér fannst satt að segja, herra forseti, fullfreklega hlaupið yfir þann þátt málsins. Á því verður engin breyting þó reglur verði hertar hér á landi því að að sjálfsögðu verður áfram mögulegt að hringja í erlend símatorg með tilheyrandi auknum kostnaði. Mestu kvartanir sem ég hef persónulega fengið inn á mitt borð af þessum sökum hafa verið vegna þess að hringt hefur verið í erlend símatorg, sem við getum ekki hróflað við séu símar á annað borð opnir fyrir útlönd, og kemur auðvitað hinu íslenska símafyrirtæki, Pósti og síma, ekki við. Þess vegna er hér um fjölþjóðlegt vandamál að ræða og ljóst að ekki verður mögulegt að takmarka aðgang manna að símatorgsþjónustu hjá erlendum símafyrirtækjum.

Að lokum er mikilvægt að minnast á alla þá fjölmörgu möguleika sem jákvæðir verða að teljast í símatorgsþjónustu og nefni ég til að mynda ráðgjöf gegnum síma af ýmsu tagi vegna skattframtala, tölvuþjónustu og reyndar um allt milli himins og jarðar. Það má kannski segja að það sé sá þáttur málsins sem gerir málið flókið og eins hitt að hér er um takmarkaða vörn að ræða fyrir heimilið ef sá sem misnotar aðgang sinn að símtæki á annað borð er mikið gefinn fyrir klám eða þjónustu af því tagi sem hv. þm. skýrði betur en ég get gert.