Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:05:35 (684)

1996-10-31 11:05:35# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ágætlega var kvæðið ort og þó enn betur flutt. Óhætt er að segja að um þessar mundir er mikil gerjun í umræðunni um utanríkismál og ég tel ekki ólíklegt að þróunin, breytingar um forustu á afstöðu einstakra forustumanna og jafnvel heilla flokka kunni að hafa afdrifarík áhrif á þróun stjórnmálanna innan lands, jafnvel um það hvaða breytingar á flokkakerfi verða á næstu missirum og hver veit nema jafnvel kunni þetta að hafa áhrif á það hvaða stefnu sjálf landsstjórnin tekur í aðdraganda nýrrar aldar. Ég tel þess vegna vel við hæfi að nota umræðuna um skýrslu hæstv. utanrrh. til þess að reifa þessar breytingar eins og þær líta út frá sjónarhóli margra jafnaðarmanna enda hefur verið tíðindasamt af vettvangi umræðunnar innan lands, ekki síst eftir landsfund Sjálfstfl. og raunar hefur sjálfur hæstv. utanrrh. sannarlega lagt sitthvað af mörkum til umræðunnar á síðustu vikum.

Herra forseti. Viðhorfin til utanríkismála hafa fram eftir allri öldinni verið öxullinn sem þjóðfélagsumræða hér á landi hefur að verulegu leyti snúist um. Afstaðan til þeirra hefur skipt mönnum í flokka, hefur jafnvel klofið heilu flokkana oftar en einu sinni eins og dæmin sanna. Þannig var það afstaðan til Sovétríkjanna sem klauf upphaflega hreyfingu jafnaðarmanna hér á landi og þeim klofningi var að stærstum hluta viðhaldið af ágreiningi sem spannst um aðild Íslands að NATO.

Afstaða manna og jafnvel heilla stjórnmálahreyfinga til Atlantshafsbandalagsins er raunar lýsandi dæmi um þá öru þróun sem síðustu árin og jafnvel síðustu missirin hefur átt sér stað í viðhorfum manna til utanríkismála. Ég rifja það upp að það voru íslenskir sósíalistar, fyrst í Sósíalistaflokknum og síðar Alþb., sem börðust áratugum saman hatramlega gegn NATO. En það var samt sem áður fyrrv. formaður Alþb. sem í þessum sölum kastaði yfir sig kufli sjáandans á árinu 1992 og spáði því fyrstur að NATO yrði að eins konar alþjóðlegum friðargæslusveitum. Ég minnist þess, herra forseti, að ekki tóku allir þessum ummælum jafnfriðsamlega.

Ummæli formannsins fyrrverandi hrundu af stað umræðum sem stóðu lengi dags og ég man ekki eftir því að nokkur einasti maður hafi tekið sérstaklega undir orð Ólafs Ragnars Grímssonar. En eigi að síður hefur framvindan sýnt það að hann hafði rétt fyrir sér. Hersveitir NATO voru forsenda þess að það tókst að stilla til friðar í borgarastyrjöldum Balkanskagans. Það er einfaldlega staðreynd sem er ekki hægt að hrekja að það var fyrir tilstilli herja NATO, ekki síst atbeina Bandaríkjamanna, að það tókst að skapa nýtt líf, nýja byrjun fyrir hundruð þúsunda fjölskyldna sem voru á hrakhólum og lifðu í stöðugum ótta.

Fyrrv. formaður Alþb. reyndist einfaldlega spámannlegar vaxinn en margir aðrir. Hann hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði fyrir um friðarhlutverk Atlantshafsbandalagsins.

Þessi þróun, herra forseti, hefur síðan gengið eftir á þeim slóðum þar sem áður gætti einkum andstöðu við NATO. Það er ekki langt síðan formaður Verðandi, Félags ungra alþýðubandalagsmanna, lýsti því yfir í Vikublaðinu sem er málgagn Alþb., að flokkurinn ætti að hætta andófi sínu gegn NATO. Ég segi þetta ekki til þess að sproksetja Alþb. heldur til þess að benda á þá þróun sem ég tel að þar og víðar sé í gangi varðandi það mál sem átti drýgstan hlut að því að skapa djúpan ágreining milli A-flokkanna. Það er mat mitt að þróunin hafi þegar gengið það langt að nánast sé burt sorfið það ágreiningsefni sem um áratugi hefur útilokað náið samstarf og jafnvel samruna þessara flokka og sé mat mitt rétt eins og ég vænti að tíminn leiði í ljós eru það tíðindi sem eru líkleg til að hafa áhrif á flokkakerfið. Ég lít á þingmenn Alþb. sem jafnaðarmenn og það er ekkert launungarmál að ósk mín er sú að gerjunin og þróunin á viðhorfum þeirra til alþjóðamála geti leitt til þess að jafnaðarmenn sameinist fyrr en síðar í einum flokki.

Herra forseti. Afstaðan til utanríkismála hefur leitt til þess að flokkur minn, Alþfl., hefur stundum átt mjög farsæla samleið með Sjálfstfl. í ríkisstjórn og fyrr á tíð byggðist á sameiginlegum viðhorfum til Atlantshafsbandalagsins, til Fríverslunarbandalags Evrópu, til erlendra fjárfestinga og ekki hvað síst álversins í Straumsvík á sínum tíma. Þá var menn sem opnastir voru fyrir að leyfa íslenskum neytendum að njóta þeirra gæða sem hægt er að skapa með auknum viðskiptasamböndum við útlönd einfaldlega helst að finna í Sjálfstfl. Samvinna þessara flokka, t.d. í viðreisnarstjórninni á sínum tíma, leiddi til gerbreytinga á viðskiptaháttum landsmanna, skar á forneskjuleg viðskiptahöft og bókstaflega talað kippti verslun Íslendinga inn í nútímann. Það er, herra forseti, einn af þeim þáttum arfleifðar Sjálfstfl. sem hann er hvað stoltastur af.

Ég tel hins vegar að ein merkasta breytingin sem nú er að gerast í íslenskum stjórnmálum sé þróun Sjálfstfl. í átt til aukinnar einangrunar þegar utanríkismál eru annars vegar. Ég segi það hreint út við gamla samstarfsmenn mína í Sjálfstfl.: Þið eruð ekki bara að loka ykkur frá umheiminum, þið eruð að loka ykkur frá kjósendum, þið eruð að loka ykkur frá þjóðinni. Þið eruð að takmarka pólitískt svigrúm ykkar.

Þessarar breytingar varð auðvitað vart þegar leið á stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar þar sem Sjálfstfl. neytti allra ráða til þess að taka mjög þarfa og tímabæra umræðu um tengsl Íslands og Evrópu út af dagskrá og lagðist að lokum með ofurþunga gegn allri umræðu. Við höfum góð dæmi um það úr þessum sölum þar sem var bókstaflega skrúfað fyrir þá þingmenn sem voru hlynntir umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Evrópusambandið er hins vegar ekki eina dæmið um vaxandi einangrunarhyggju Sjálfstfl. Samningurinn um GATT er sömuleiðis eitt birtingarform þessarar lokunarstefnu. GATT sem átti að leiða til kjarabóta fyrir neytendur gegnum verðlækkun á innfluttum varningi snerist upp í fullkomna ranghverfu sína eins og sést best á því að í dag er verðlag á grænmeti hærra en fyrir staðfestingu samningsins og það kemur fram í dagblöðum dagsins að hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar vegna þessa hefur leitt til þess að skuldir landsmanna hafa aukist um 1.300 millj. kr. Það sem meira er, innan Sjálfstfl. er það orðið tabú, bannorð, að taka upp umræðu um þessi mál. Þannig er skyndilega búið að gerbreyta eðli heils stjórnmálaflokks, búið að kippa honum áratugi aftur í tímann með því að taka upp stefnu í utanríkismálum sem gengur algerlega á skjön við hagsmuni neytenda. Það, herra forseti, eru auðvitað tíðindi í umræðu um utanríkismál. Þetta er stefna sem ég er sannfærður um að gengur þvert á vilja stórs hluta kjósenda flokksins og þessi nýja og þvergirðingslega afstaða Sjálfstfl. hefur gert hann að sams konar flokki og Framsfl. var fyrir 15--20 árum.

Í þessum efnum er munurinn á stjórnarflokkunum hins vegar meiri en talsverður og það vill svo til að hann speglast einmitt í ræðu hæstv. utanrrh. Meðan Evrópumálin eru tekin út af dagskrá í Sjálfstfl. og fást ekki einu sinni rædd þá er staðreyndin hins vegar sú að í skýrslu hæstv. utanrrh. fær enginn málaflokkur jafnmikið rými og einmitt Evrópumálin. Hæstv. utanrrh. er ekki hræddur við að ræða málið og þó vita allir að það er bæði umdeilt og hefur verið erfitt innan Framsfl. Andstætt hinum stjórnarflokknum hefur hann tekið þann kost að örva umræðuna innan flokksins og þessa gætir hjá öðrum þingmönnum flokksins, ekki síst þeim sem eru í yngri kantinum. Í röðum þeirra gætir vaxandi skilnings á nauðsyn þess að kanna hvaða möguleika Ísland á í stöðunni. Hæstv. utanrrh. hefur raunar talað þannig um Evrópusambandið nýlega að engum dylst að hann nálgast málið af miklu meira fordómaleysi en tíðkast í Sjálfstfl.

Fyrir Sjálfstfl. og þá ekki síst þingmenn hans úr þéttbýlinu hlýtur þetta auðvitað að skapa vaxandi erfiðleika og það er ekki af einskærri umhyggju fyrir hag þeirra heldur fyrir kjörum neytenda sem ég leyfi mér að segja við þessa ágætu þingmenn: Sjáið þið ekki skriftina á veggnum? Sjáið þið ekki hvað er að gerast? Sjáið þið ekki að um leið og þið eruð að færa ykkur aftur í fortíðina er Framsfl. hægt og sígandi að koma upp að hliðinni á ykkur og vinna þá kjósendur í þéttbýlinu sem þið höfðuð áður? Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvernig ætlar t.d. hv. þm. Kristján Pálsson að útskýra það fyrir kjósendum sínum að í samanburði við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur er hann eins og nátttröll þegar kemur að neytendamálum á borð við GATT svo að ég tala nú ekki um Evrópumálin. (Utanrrh.: Er þingmaðurinn á leið í Framsfl.?) Hvernig ætlar hv. þm. Geir Haarde að útskýra það fyrir sínu fólki að hann er oft á tíðum í umræðum um þessi mál orðinn eins og roskinn framsóknarmaður úr afskekktri sveit þegar utanríkismálin eru annars vegar?

Herra forseti. Það er skoðun mín að niðurstaða landsfundar sjálfstæðismanna hafi verið eins og blaut tuska í andlitið á öllu frjálslyndu fólki. Hún kom kirfilega á framfæri við þjóðina að um þessar mundir er hann ekki lengur valkostur fyrir þá sem vilja auka viðskiptafrelsi við útlönd, vilja sjá aukinn innflutning á ódýrri matvöru, vilja sjá aukin tengsl við Evrópu. Slíkt frjálslynt fólk á einfaldlega ekki lengur í hús Sjálfstfl. að venda. Svo einfalt er það.

[11:15]

Herra forseti. Ég hef ekki komið í þennan stól til að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. um utanríkismál síðustu missirin öðruvísi en að koma að tilteknu máli sem er eitt af hjartans málum mínum og jafnaðarmanna. Það er afstaða Íslendinga til óska Eystrasaltsþjóðanna um inngönu í NATO. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að mikilvægustu ákvarðanirnar sem Íslendingar standa frammi fyrir á allra næstu mánuðum varða stækkun NATO. Hæstv. utanrrh. sagði, minnist ég frá umræðum á síðasta vetri, að undir lok þessa árs, hann nefndi sérstaklega desember, yrði ráðið hvaða stefnu bandalagið tekur um stækkun. Sjálfar ákvarðanirnar yrðu síðan teknar strax á næsta ári og hann lofaði að um þau mál yrði rætt í þinginu áður en til þeirra kæmi. Ég tók a.m.k. ræðu hans þá þannig að um loforð væri að ræða. Ég rifja líka upp, herra forseti, að þingið fékk á síðasta vetri góðan gest, Solana framkvæmdastjóra NATO. Hann átti m.a. fund með utanrmn. þingsins þar sem hann var spurður um stækkun NATO og svar hans var skýrt: ,,Ákvörðunin um stækkun NATO ræðst á þjóðþingunum.`` Hæstv. utanrrh. virtist þessu öldungis sammála þegar við ræddum þessi mál hér í fyrra og ég minnist þess að í svari til hv. þm. Svavars Gestssonar, þegar við ræddum um skýrslu Norður-Atlantshafsnefndarinnar, velti hæstv. ráðherra sjálfur upp nokkrum leiðum í þessu sambandi. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh. hvenær og hvernig hyggst hann koma með það mál sem varðar stækkun NATO inn í þingið. Eða ætlar hann, þvert á það sem mér virtist hann gefa til kynna í fyrra og þvert á það sem framkvæmdastjóri NATO hefur sagt, að ráða málinu til lykta í reykfylltum herbergjum Stjórnarráðsins eða ætlar hann að leyfa þinginu að koma að því með einhverjum hætti? Tilefni spurningarinnar, herra forseti, er því brýnna sem það virðist ljóst að innan stjórnarflokkanna er ágreiningur um þetta mál í utanríkisstefnu Íslendinga.

Ég rifja það upp, herra forseti, að hv. þm. Geir Hilmar Haarde, form. utanrmn., lýsti því afdráttarlaust yfir í viðtali við Morgunblaðið og Ríkisútvarpið 28. september að hann væri fylgjandi því að Eystrasaltsþjóðunum yrði hleypt hið fyrsta inn í NATO. Það var hins vegar ekki jafnafdráttarlaust viðhorf uppi þegar hæstv. forsrh. flutti stefnuræðu sína nokkrum dögum síðar. Að vísu lýsti hann yfir miklum stuðningi við þjóðirnar en hann fór eins og köttur í kringum heitan graut. Og það sem vakti athygli mína og áhyggjur var að hann gekk út frá því sem vísu að þessar þjóðir þrjár yrðu ekki teknar inn í fyrstu umferð. Þegar ræða hæstv. utanrrh. er síðan skoðuð í þessu ljósi kemur í ljós að afstaða hans er enn loðnari. Þar kemur að vísu fram að stuðningur Íslendinga er skýr við stækkun til austurs og hann tekur líka fram að það sé rétt að styðja sjálfsákvörðunarrétt Eystrasaltsþjóðanna og allra þjóða raunar, en það er líka tekið fram að menn verði að gæta þess að styggja ekki Rússa.

Herra forseti, Vinur er sá er til vamms segir og ég segi hreinskilnislega: Þessi afstaða er ekki boðleg íslenska þinginu og ég leyfi mér að fullyrða að hún er í andstöðu við vilja íslensku þjóðarinnar. Forustumenn Eystrasaltsþjóðanna þriggja hafa, ýmist í heimsóknun til Íslands eða á öðrum vettvangi, lagt fast að Íslendingum að leggjast á sveifina með sér og hver einast maður skilur ástæðuna fyrir þeim kvíðboga sem þær bera fyrir framtíðinni. Bæði hæstv. utanrrh. og forsrh. hafa gefið þessum þjóðum fremur skýrt til kynna að Íslendingar muni styðja þá eftir megni. Mér finnst ekki, af því sem fram kemur í stefnuræðu forsrh. hæstv. og í ræðu hæstv. utanrrh., að verið sé að efna þau orð og mér finnst satt að segja allt annar bragur uppi en þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson tók með alkunnum hætti á málum þeirra. Ég tel að það sé nauðsynlegt að það reyni á vilja þingsins í þessum efnum.

Í svari sínu í fyrra til hv. þm. Svavars Gestssonar velti hæstv. ráðherra sjálfur upp þeim möguleika að stefnumörkun á þessu sviði færi fram með þáltill. og ég minnist þess að það var rætt lítillega almennt í tengslum við vinnubrögð Norðmanna á þessu sviði. Ég tel að fyrir þingið og fyrir a.m.k. jafnaðarmenn, sé það meira en einnar messu virði að láta reyna á það. En ég tel hins vegar að til þess að þingmenn geti metið þörfina á frumkvæði af þeirra hálfu, sé nauðsynlegt að vita um afstöðu ríkisstjórnarinnar því auðvitað væri langæskilegast að samstaða næðist.

Ég vil enn fremur að það komi fram í lok máls míns, herra forseti, að mér finnst lítið leggjast fyrir mikinn kappa þegar hæstv. forsrh. gefur sér það í stefnuræðunni í haust að það verði gengið fram hjá Eystrasaltsþjóðunum í fyrstu umferð. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh.: Hvernig stendur á þessum orðum? Var það ekki rétt sem hann sagði okkur í fyrra að engar ákvarðanir yrðu teknar fyrr en síðla þessa árs? Og hann nefndi sjálfur líklega desember. Ég minni bæði hann og hæstv. forsrh. og þingheim allan á það að Íslendingar eru sjálfstæð þjóð. Við ráðum okkar afstöðu sjálfir. Við förum með neitunarvald innan NATO. Það þýðir að við getum, ef svo ber undir, neitað að staðfesta tillögur um stækkun ef þær eru ekki að skapi okkar. Ég er ekki á þessu stigi að hvetja til þess að slíku neitunarvaldi verði beitt. Því má ekki gleyma, herra forseti, að það er vopn sem við getum notað til að ná fram niðurstöðu sem er bæði ásættanleg fyrir vilja íslensku þjóðarinnar í þessu máli og fyrir öryggi vina okkar við Eystrasalt.