Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:24:38 (687)

1996-10-31 11:24:38# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar nokkuð athyglisverðar ræður. Ég las með athygli ræðu hæstv. utanrrh. sérstaklega vegna þess að hæstv. utanrrh. og form. Framsfl. eru einn og sami maðurinn. Sömuleiðis hlustuðum við hér með athygli á hv. þm. Össur Skarphéðinsson fjalla á sinn hátt um utanríkismál, að vísu aðallega um landslagið í íslenskum stjórnmálum og hugsanlega breytingar á flokkakerfinu en ágætlega tengt þó við ummæli og hræringar sem tengjast utanríkismálum. Þar voru miklar ástarjátningar á ferð í ýmsar áttir en þó alveg sérstaklega til Framsfl. Það læðist að mér sá grunur að hugsanlega sé leiðarahöfundur Alþýðublaðsins í gær og síðasti ræðumaður einn og sami maðurinn. En hvað um það. Þær teljast óneitanlega nokkur tíðindi, hlýtur að vera, í íslenskum stjórnmálum þessar stífu ástarjátningar. Þær eru að vísu tiltölulega einhliða. Þær hafa ekki verið alveg endurgoldnar enn sem komið er a.m.k. af hálfu Framsfl. En þvílík bónorð hafa ekki verið borin upp í langan tíma (Gripið fram í: Framsóknarmanna í Alþfl.) sem við höfum heyrt nú frá Alþfl. til framsóknarmanna. Sömuleiðis er auðvitað afneitunin á Sjálfstfl. nokkuð merkileg.

Já, herra forseti, ég segi það að ræða hæstv. utanrrh. er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að þar talar form. Framsfl. Einhvern tímann hefðu það þótt veruleg tíðindi að talsmaður framsóknarmanna í utanríkismálum og formaður þess flokks mælti með þeim hætti sem hér er gert frá upphafi til enda. Á ég þar ekki síst við ýmis ummæli sem lúta að Evrópusamstarfinu og Atlantshafsbandalaginu, NATO, og öðru slíku.

Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemdir, herra forseti, við það orðalag hæstv. utanrrh. að með því að ganga í Sameinuðu þjóðirnar hafi íslenska þjóðin endanlega, eins og þar er sagt, horfið frá hlutleysistefnu í alþjóðamálum. Það er ekki minn skilningur að þjóðir þurfi að hverfa frá hlutleysisstefnu þó þær eigi aðild að Sameinuðu þjóðunum. Það hefur ekki verið skilningur Svía, Austurríkismanna og fleiri þjóða. Svisslendingar hafa að vísu verið svo kaþólskir í þessum efnum að þeir hafa ekki talið sitt ævaforna og rótgróna hlutleysi samrýmast fullri aðild að slíkum alþjóðastofnunum en þeir eru tiltölulega einir um það í veröldinni, hygg ég, að túlka hlutleysishugtakið þannig. Ég er ekki sammála þessum skilningi og vil láta það koma fram.

Í öðru lagi vil ég segja um það sem hér er sagt um Norðurlöndin og grannsvæði okkar þar og norrænt samstarf að ég get ekki að öllu leyti tekið undir þennan texta. Ég hlýt því miður, herra forseti, að lýsa áhyggjum yfir því hvernig norrænt samstarf er að þróast. Ég óttast að Norðurlandaráð og norrænt samstarf sé að veikjast. Um það eru sýnileg teikn á lofti. Ég tel að mikil mistök hafi verið gerð með skipulagsbreytingum á Norðurlandaráði á síðasta ári og ég sakna þess að í máli hæstv. utanrrh. skuli til að mynda ekki koma fram sjónarmið gagnvart þeirri áráttu sumra samstarfsþjóða okkar í Norðurlandaráði að skera norrænu fjárlögin stórkostlega niður. Ég vísa þar sérstaklega til tillagna sem Svíar hafa endurtekið uppi um að skera norrænt samstarf í raun og veru niður við trog. Ég held að það þýði ekkert að tala um þetta tæpitungur. Við þurfum að taka upp mjög harða baráttu fyrir því að norrænt samstarf fái að haldast og eflast og styrkjast.

Þá að Evrópumálunum, herra forseti. Ég tel að þetta sé stórmerkur texti sem hér er fram færður af hálfu hæstv. utanrrh. um þau mál. Það má að mínu mati lesa saknaðartóninn milli línanna þegar orðin: ,,Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar,`` eru lesin. Þar má lesa saknaðartóninn milli línanna. Það er líka rétt að hafa í huga í þessu sambandi ýmis ummæli hæstv. utanrrh. um Evrópumálin á undanförnum vikum og mánuðum. Í heild er hér um mjög merkilegan kafla að ræða eins og fjallað er um hið evrópska samstarf og ég tel vissulega nokkrar innstæður vera fyrir ástarjátningum Alþfl. í garð form. Framsfl., hæstv. utanrrh., í ljósi þess hvernig hæstv. utanrrh. hefur á síðustu mánuðum og missirum stillt sér upp í sambandi við Evrópusambandsmálin, vissulega. Það er dálítið merkilegt að hæstv. utanrrh. skuli nota þessi klassísku orð forsrh. hæstv. um að málin séu ekki á dagskrá til að skýla sér á bak við í þessu sambandi en fjallar síðan að öðru leyti um hlutina eins og þarna er gert. Ég held að það sé mjög athyglisvert til að mynda hvernig hæstv. utanrrh. er að gefa í skyn að breytingar á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins séu mál sem við þurfum alveg sérstaklega að gefa gaum og vegna hvers má spyrja á móti. Er það vegna þess að hæstv. utanrrh. væntir þess að breytingarnar opni fyrir mögulega aðild Íslands? Vegna þess að Bretar eru að barma sér undan kvótahoppinu og reyna að ná fram einhverri leiðréttingu sinna mála þar, að þá sé líklegt að eitthvað verði sem varði okkur í þeim skilningi að það komi aðild eða samstarfi við Evrópusambandið sem slíkt við.

[11:30]

Mér finnast tíðindin frá Möltu, herra forseti, vera merkileg, að Malta skuli sýna þann kjark smáþjóðar að þora að ákveða að standa utan við Evrópusambandið og leita annarra leiða í samskiptum sínum við bandalagið en stefna á aðild. Ég vek athygli á þeirri þróun sem hefur verið að gerast á hinum Norðurlöndunum, vaxandi massífa andstöðu við aðild í Noregi samkvæmt skoðanakönnunum þar sem talsvert aukinn meiri hluti lýsir sig algerlega andvígan hugmyndum um aðild frá því sem varð niðurstaðan þar í kosningum um aðild fyrir ekki löngu síðan. Ég bendi á að í Svíþjóð er mjög eindregin andstaða við aðild samkvæmt skoðanakönnunum nú. Milli 60--70% Svía sögðust nú mundu segja nei væri kosið í dag og rífur helmingur telur að það beri að segja upp aðildarsamningum Svía að Evrópusambandinu. Menn ræða stundum um þetta eins og hluti sem skipti ekki máli vegna þess að valdaaðilarnir hafi ákveðið að þetta skuli vera svona, menn skuli vera í Evrópusambandinu hvað sem tautar og raular hversu óvinsælt sem það er af almenningi, en það er auðvitað ekki lýðræðislegur hugsunarháttur frekar en margt í sambandi við þessi Evrópumál, svo sem eins og það að þessi mál hafa ekki fengist borin undir þjóðaratkvæði í mörgum löndum þar sem það hefði þó verið eðlilegt, bæði á Íslandi, í Bretlandi og víðar.

Ég tel að sjálfsögðu, herra forseti, að menn eigi ekki að gera gælur við aðildarmál að Evrópusambandinu, það sé beinlínis tímasóun, það sé röng tilvísun, það séu misvísandi skilaboð til almennings á Íslandi að vera að gefa það í skyn að aðild að Evrópusambandinu sé eitthvað sem við eigum að eyða tíma í að hugsa um á næstu árum.

Ég vil segja fáein orð, herra forseti, um það sem hér kemur fram um aðild okkar að Schengen-samningnum. Ég tel það mjög misvísandi að taka svo til orða eins og hæstv. utanrrh. gerir, með leyfi forseta:

,,Ísland var ásamt hinum Norðurlöndunum áheyrnaraðili að Schengen-samkomulaginu frá og með 1. maí sl. Segja má að það sé um margt útvíkkun á norræna vegabréfasambandinu.``

Þessu er ég ekki sammála. Ég tel það fullkomlega misleiðandi að stilla málum upp með þessum hætti. Norræna vegabréfasambandið, það að Norðurlöndin samþykktu að ekki þyrfti vegabréfsáritun og vegabréf vegna ferðalaga innan Norðurlandanna var og er allt annað heldur en það sem er á dagskrá í Schengen-samkomulaginu sem kemur inn á miklu, miklu stærri mál eins og sameiginlega stefnu ríkjanna varðandi flóttamenn, landamæravörslu og guð má vita hvað. Auðvitað er það þannig að með vissum hætti er verið að ýta okkur bakdyramegin inn í Evrópusambandið með þessari aðild okkar að Schengen. Og það mál hefur langt frá því fengið þá umræðu og athugun á Íslandi sem vert væri og skyldi.

Þá, herra forseti, nokkur orð um kaflann um öryggismál. Hann er sennilega það athyglisverðasta af öllu sem frá formanni Framsfl., hæstv. utanrrh., hefur komið um langt skeið vegna þeirra ástarjátninga sem þar eru á hernaðarbandalaginu NATO og öllu sem því viðkemur, og ég vil segja takmarkalausrar aðdáunar hæstv. utanrrh. á því hvernig NATO sé að breytast. Þar er tekið svo til orða, hvorki meira né minna, herra forseti: ,,Leggur Ísland mesta áherslu á þátt Atlantshafsbandalagsins en innan þeirra samtaka hefur verið unnið þrekvirki``, hvorki meira né minna en þrekvirði, ,,í aðlögun að breyttum aðstæðum, enda mun NATO eftir sem áður gegna lykilhlutverki í öryggismálum álfunnar.``

Margt fleira stórkostlegt mætti taka upp úr þessum textum sem lúta að aðdáun og hóli hæstv. utanrrh. um NATO, eins og um frammistöðu þess á Balkanskaganum, en það er fullyrt að bandalagið hafi sýnt hæfni til að takast á við ný viðfangsefni eins og sannast hefur í vel heppnaðri forustu þess við að koma á friði í Bosníu og Hersegovínu. Ja, heyr á endemum. Var það ekki þannig að mánuðum, missirum og árum saman horfði heimsbyggðin upp á algert máttleysi Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins gagnvart harmleiknum á Balkanskaga. Það vita það auðvitað allir menn, að það var ekki fyrr en Bandaríkjaforseti fékk af persónulegum hagsmunaástæðum áhuga á þessu máli og tók að beita heimsveldiskrafti Bandaríkjanna að skriður komst á málið og með hótunum og þvingunum og hörðum samningamanni og herstyrk Bandaríkjanna á bak við var þvingað fram það samkomulag sem nú er unnið samkvæmt. NATO stóð þá ráðalaust og dáðlaust álengdar og kom engu fram. Enn síður Evrópusambandið. Þessi texti allur, bæði um þrekvirkin í sambandi við aðlögun NATO og vel heppnaða forustu þess, er þess vegna auðvitað alveg kostulegur. Ég veit ekki í hvaða heimi hæstv. utanrrh. lifir eiginlega í þessum efnum.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er verið að reyna að klæða úlfinn í sauðargæru eins og bandarísk stórblöð réttilega benda á í leiðurum sínum um þessar mundir. Það er enn verið að leita að tilgangi fyrir þetta hernaðarbandalag sem er búið að missa óvininn.

Það er ekki í þessum textum hér, herra forseti, minnst einu orði á stórmerkan atburð sem varð á sl. sumri þegar Alþjóðadómstóllinn í Haag tók til úrskurðar ósk allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um lögmæti kjarnorkuvopna. Af einhverjum ástæðum velur hæstv. utanrrh. að minnast ekki á þetta einu orði frekar en margir aðrir sem hefðu mátt upplýsa almenning um þau merku tíðindi að Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur dæmt kjarnorkuvopn ólögleg nánast án undantekninga. Og ekki bara vopnin sem slík, heldur hótun um beitingu þeirra líka ólöglega. Og hvers vegna nefni ég þetta hér í tengslum við hernaðarbandalagið NATO? Það er vegna þess að NATO byggir á slíkri hótun um beitingu kjarnavopna sem núna hefur verið dæmd ólögleg. Þetta held ég að séu tíðindi sem verðskuldi athygli og eigi heima í þessari umræðu. En það er eins og menn þekkja að fjölmörg virt alþjóðasamtök, þar á meðal bæði alþjóðasamtök lækna, lögfræðinga gegn kjarnorkuvopnum, alþjóðaskrifstofan, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fleiri slíkir aðilar hafa lengi barist fyrir því að þetta mál yrði tekið til úrskurðar hjá Alþjóðadómstólnum. Og loksins náðist sá áfangi með samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1994 að vísa málinu til Haag. Þá gerðist það hneyksli að Ísland greiddi atkvæði gegn tillögunni um að skorið yrði úr um lögmæti kjarnorkuvopna eins og venjulega af fylgispekt og taglhnýtingshætti gagnvart kjarnorkuveldunum. En leynt og ljóst hafa Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland barist gegn því að þessi úrskurður fengi að falla. En hann féll. 8. júlí sl. tók Alþjóðadómstóllinn fyrir þetta erindi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og var samhljóða um þá niðurstöðu að það væri skyda þjóða heims að vinna að og ganga frá samningum um algert afnám kjarnorkuvígbúnaðar á öllum sviðum og undir ströngu og alþjóðlegu eftirliti. Dómurinn samþykkti jafnframt, að vísu með oddaatkvæði forseta dómsins, að sérhver ógnun eða notkun kjarnorkuvopna væri einnig ólögmæt. Þannig að nú stendur friðarbandalagið, knúpurinn, sem stóð sig svona vel á Balkanskaga frammi fyrir því að Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur dæmt þá stefnu sem NATO byggir á um að áskilja sér rétt til að beita kjarnavopnum að fyrra bragði ólöglega. Og þá ætti hæstv. utanrrh. einnig að svara fyrir andstöðu sína við frv. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. En hæstv. ráðherra sagði í umræðum um það mál í fyrra að hann gæti ekki stutt að slíku máli og hefði bannað þingmönnum Framsfl. að vera meðflutningsmenn að málinu. Vegna hvers? Vegna þess að það samrýmdist ekki veru okkar í NATO, réttilega í raun og veru vegna þess að NATO byggir á þessari hótun um beitingu kjarnorkuvopna sem nú hefur verið dæmd ólögmæt.

Herra forseti. Það er margt fleira sem væri gaman að koma hér inn á, t.d. kaflann um þróunarsamvinnu sem er afar dapurlegur texti eins og venjulega af Íslands hálfu sem erum auðvitað okkur sjálfum til stórskammar í félagsskap þjóðanna fyrir það hversu nánasarleg framlög okkar til þróunarsamvinnu eru en ég vísa í því sambandi til þáltill. um aukið framlag til þróunarsamvinnu sem dreift hefur verið hér á þinginu. Og þar sem tíma mínum er lokið, herra forseti, læt ég nægja að segja að lokum að margt merkilegt hefur að sjálfsögðu verið að gerast í utanríkismálum og að sjálfsögðu verðskulda þær breytingar alla athygli og umræðu, en það breytir ekki hinu að menn eiga að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og mér finnst það satt að segja dapurlegt að það skuli vera hlutverk hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. að vera nánast orðinn oddviti þeirrar haukahreyfingar sem er að reyna að dulbúa hernaðarbandalagið NATO og breiða yfir hinn raunverulega tilgang þess sem er m.a. að standa fyrir kjarnorkuvígbúnaðarstefnu aðildarríkjanna.