Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:42:18 (689)

1996-10-31 11:42:18# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er algeng aðferð hjá ýmsum þegar verið er að ræða um þessi mál að gera sjálfa sig sjálfskipaða prókúruhafa og handhafa þess að hafa áttað sig á því að hlutirnir hafa breyst og stimpla andstæðinga sína sem ekki eru sömu skoðunar að öllu leyti í umræðum eða greiningu á þeim breytingum sem fultrúa hins liðna og handhafa þess.

Afstaða mín til utanríkismála og þjóðmála og þróunar í Evrópu tekur að sjálfsögðu breytingum eftir því sem efni standa til og eftir því sem hlutirnir raunverulega kalla á slíkt. En meðan annað breytist ekki, þá breyti ég heldur ekki afstöðu minni til þess. NATO hefur ekki breytt grundvallarstefnu sinni um beitingu kjarnorkuvopna. Ég mun aldrei skrifa upp á það að Ísland beri siðferðislega ábyrgð á því að hóta beitingu gereyðingarvopna með þeim hætti sem NATO gerir og byggir á. Menn fást aldrei til að ræða það mál hér. Menn víkja sér ævinlega undan því, eins og hæstv. utanrrh. gerði, í raun og veru hér áðan að ræða sjálfan siðferðislegan grundvöll þess að yfirleitt séu til gereyðingarvopn af þessu tagi og við berum á því ábyrgð og við séum þátttakendur í bandalagi sem hefur þá stefnu að áskilja sér að fyrra bragði rétt til þess að henda þessu yfir fólk og tortíma því hundruðum þúsunda, milljónum eða milljörðum saman. Ég get ekki samþykkt það. Ég breyti ekki afstöðu minni meðan þessi forsenda liggur svona og ég er ekkert feiminn við að viðurkenna það, ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér er alveg nákvæmlega sama hversu lengi og hversu oft menn eins og hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. kalla mig gamaldags fyrir vikið. Það hefur ekki nokkur áhrif á mig. Meðan ég samkvæmt minni grundvallarsannfæringu bregst við í þessum efnum líður mér vel, hvernig sem hæstv. utanrrh. líður. Maður hefur það stundum á tilfinningunni að honum líði ekkert allt of vel því að hann er a.m.k. ekki oft ekki mjög brosmildur.