Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:46:38 (691)

1996-10-31 11:46:38# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að leggja hæstv. utanrrh. orð í munn, en ég held að allir hafi nú skilið í hvaða átt hæstv. utanrrh. var að vísa með því að undrast á því að ég gæti ekki skipt um skoðun á jafnsjálfsögðum hlut eins og þeim að NATO væri orðið sérstakt friðarbandalag. Kannski er það sjálfur hugsunarhátturinn sem við ættum að ræða hér fyrst og grundvallarfyrirkomulag þessara mála í heiminum. Eru hernaðarbandalög í gamla andanum líkleg til þess að flytja varanlega friðinn og öryggi í heiminum? Hafa vopnin sýnt sig í því þar sem þeim er hlaðið upp eins og t.d. á Balkanskaganum að vera mikil blessun fyrir þær þjóðir? Auðvitað er NATO enn þá athvarf haukanna og vígbúnaðaraflanna í heiminum, vopnaiðnaðarins o.s.frv. Það hefur því miður ekki breyst og grundvallarstefnan um beitingu kjarnorkuvopna hefur ekki breyst. Það eitt og sér nægir mér. Mér er alveg sama hvaða tusku menn tjalda og hvað menn hengja utan á sig. Á meðan sjálfur grundvöllurinn er þessi skrifa ég ekki upp á slíkt.

Ég tel að við hefðum átt að leggja NATO niður um leið og Varsjárbandalagið var lagt niður og við hefðum átt að efla lýðræðislegan öryggisvettvang eins og ÖSE og eftir atvikum friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er lýðræðislegi grunnurinn hvað ákvarðanatöku og hugsunarhátt snertir. En til þess höfðu menn ekki kjark eða öllu heldur, herveldin vildu ekki missa það vald sem felst í því að ráða heiminum í krafti vopna eins og Bandaríkjamenn gera.

Um Schengen verð ég að segja eins og er, herra forseti, að þar hefur verið leikinn mjög ljótur leikur á Norðurlöndunum af norrænu pólitíkusunum. Fyrst var sagt: Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Við munum standa saman í málinu og ekkert ríkjanna verður aðili ef ekki tekst að ganga frá og leysa norræna vegabréfasambandið með þeim hætti. En svo var það svikið og allt í einu var sagt: Norðmenn og Íslendingar verða bara að ráða því hvað þeir gera því að Danir, Svíar og Finnar ætla inn. Í raun og veru voru menn þannig vélaðir inn í þetta mál að mönnum var talin trú um að það væri allt í lagi að athuga þetta því öll Norðurlöndin mundu þá bara draga sig til baka ef ekki næðist viðunandi lausn. Síðan var ekki staðið við það og þess vegna er þessi staða komin upp sem raun ber vitni að við erum úti í horni.