Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:49:12 (692)

1996-10-31 11:49:12# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:49]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla skýrslu um utanríkismál þar sem mjög víða er komið við og hreyft við öllum helstu málum sem varða okkur Íslendinga og lúta að utanríkismálum. En það er rétt sem fram kemur í lok ræðu utanrrh. að hinn hefðbundni greinarmunur á því sem við köllum utanríkismál og innanríkismál er óðum að hverfa og þessi mál blandast saman í æ ríkari mæli og erfiðara og raunar ástæðulausara að gera þann greinarmun á sem oft hefur verið gert í gegnum árin.

Mér þótti athyglisvert að hlýða á mál hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem var í raun og veru að bjóða Alþb. upp í flatsæng þeirra jafnaðarmanna á grundvelli þess að ágreiningi um utanríkismál hefði nánast verið bægt til hliðar. Ég bið hann um að endurskoða hug sinn í ljósi ræðu síðasta ræðumanns. Ég heyrði ekki að bilið milli Alþfl. og Alþb. að því er varðar Atlantshafsbandalagið hafi neitt minnkað. Kannski skiptir það engu máli í hinni nýju flatsæng jafnaðarmanna að það sé grundvallarafstöðumunur í slíku stórmáli sem varðar öryggi Íslands og öryggishagsmuni nágrannalanda okkar, Atlantshafsbandalagið. Mér þykir nú býsna langt í land, ef það er draumur hv. þm. að þeir félagarnir nái saman um utanríkismál , að allur ágreiningur um þessi mál verði máður út og er reyndar ekki bara að því er varðar Atlantshafsbandalagið því hvað sagði hv. síðasti ræðumaður um Evrópusambandið? Hann sagði að það væri út í hött, það væri að kasta ryki í augun á fólki, það væri verið að blekkja almenning með því að gera því skóna að það mál ætti eitthvert erindi í umræðu á Íslandi á næstunni, það væri aktúelt mál. (Gripið fram í: Þú notar sömu orð og forsrh.) Það má vera að það sé styttra á milli síðasta ræðumanns og forsrh. en brúðgumans í jafnaðarmannaflokknum sem biðlar svo stíft til Alþb. í þessu máli.

Þó að vangaveltur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar séu í sjálfu sér skemmtilegar og fróðlegar eru þær auðvitað út í hött og marklausar með tilliti til þess málefnaágreinings sem ég hef bent á og er auðvitað augljós öllum sem hafa hlýtt á umræðurnar síðasta hálftímann eða svo. Að öðru leyti ætla ég ekki að skipta mér af þeim skætingi sem kom fram í máli hv. þm. í garð Sjálfstfl. Söguskoðanir hans í því máli og hinar nýju kenningar og útleggingar hans að því er okkur varðar eru út í bláinn og það er algert öfugmæli að ætla að kenna Sjálfstfl. eða utanríkisstefnu hans í gegnum árin eða nú við einhverja einangrunarstefnu. Það eru aðrir fulltrúar hér á Alþingi sem hafa tekið að sér að fylgja einangrunarstefnunni og eitt sinn var hv. þm. Össur Skarphéðinsson í þeirra hópi þegar hann var hernámsandstæðingur og andstæðingur alls samstarfs við erlend ríki á grundvelli öryggismála eða viðskipta. Ég vara við því að menn kasti steinum úr glerhúsi því sem þeir hafa komið sér fyrir.

Hins vegar vildi ég gjarnan eiga orðastað við hv. þm. um málefni Atlantshafsbandalagsins og stækkun NATO vegna þess að ég tel að þar sé um að ræða eitthvert stærsta og mikilvægasta mál sem við stöndum frammi fyrir sem aðilar að Atlantshafsbandalaginu og sem þjóðirnar í Evrópu standa frammi fyrir á næstunni. Það mál er reyndar líka nátengt stækkun Evrópusambandsins eins og hv. þm. vék að þó að það sé ekki með þeim formerkjum sem hann gerði.

Það er líka rétt í þessu sambandi að breyting hefur orðið á afstöðu manna. Hann vitnaði til ummæla minna í fyrra. Ég hafði þá velt þessu máli mikið fyrir mér. Það er ekki rétt að ég hafi verið á móti því að Eystrasaltslöndin fengju aðild. Ég hafði bara ekki endanlega gert upp hug minn um það hvort það væri orðið tímabært. Ég hef gert það núna. Hv. þm. getur ekki kvartað yfir því að vera áhrifalaus maður ef hann hefur haft þessi áhrif á okkur sem stöndum til að mynda að tillögu hægri hópsins í Norðurlandaráði um öryggismál. En þar er einmitt lýst stuðningi við það að Eystrasaltslöndin fái aðild að NATO. (Gripið fram í.) Ja, þú ert áhrifameiri, hv. þm., heldur en þú gerir þér kannski grein fyrir í þessum efnum og átt ekki að kvarta undan áhrifaleysi hér í þinginu.

En að öllu gamni slepptu er það auðvitað svo að þetta mál snýst fyrst og fremst um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna, sjálfsákvörðunarrétt smáþjóðanna í þessu tilfelli sem hafa lýst vilja sínum til þess að ganga bæði í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Þess vegna er vikið að því í tillögunni að eðlilegt sé að þessi ríki fái inngöngu í bæði þessi samtök. Það er auðvitað á þeim grundvelli, hv. þm. Það er ekki vegna þess að menn hafi einhverjar tilteknar skoðanir á Evrópusambandinu. Það er vegna þess að þessar þjóðir vilja ganga í það og ég tel að þær eigi að hafa rétt til þess. En þá skulum við ekki heldur gleyma því að þessar þjóðir líta á aðild að Evrópusambandinu líka sem veigamikinn þátt í öryggismálum og til að tryggja öryggi sitt. Það eru ekki bara efnahagslegir og viðskiptalegir hagsmunir sem hanga þar á spýtunni heldur líka það að með því að tengjast Vestur-Evrópuþjóðunum í gegnum Evrópusambandið telja þær að þær séu jafnframt að tryggja öryggi sitt.

Að því er varðar þá tillögu sem hv. þm. vék að í Norðurlandaráði og sem verður rædd á þingi þess innan tveggja vikna eða svo vil ég gjarnan upplýsa hann og aðra hér um það að tillagan er flutt að frumkvæði mínu sem formanns í hópi hægri manna í ráðinu og ég tel að það hafi verið mikill sigur að ná samstöðu þingmanna frá öllum Norðurlöndunum fimm um þetta efni. Það er ekki einfaldur hlutur fyrir þingmenn frá Finnlandi eða Svíþjóð að taka svo eindregna afstöðu eins og fram kemur í tillögunni. Hún er að vísu ekki orðin samþykkt Norðurlandaráðs sem slíks en hún er samþykkt þessa hóps, samherja í ráðinu sem hafa með því að leggja fram þessa tillögu lýst stuðningi sínum við það að NATO verði stækkað til austurs og að Eystrasaltslöndin fái þar aðild og það sem fyrst. Og reyndar líka lagt áherslu á að ríkisstjórnir Svíþjóðar og Finnlands meti og greini hver áhrif slík aðild mundi hafa á þeirra eigin afstöðu gagnvart NATO og hugsanlega jafnframt aðild að bandalaginu.

Það eru vissulega breyttir tímar þó að þeir í Alþb. geri sér ekki grein fyrir því og halda áfram að álykta um að það eigi að leysa upp NATO og Ísland eigi að segja sig úr NATO o.s.frv. Það er raunalegt að hlusta á þennan málflutning ár eftir ár af hálfu þeirra alþýðubandalagsmanna sem tala eins og ekkert hafi gerst í þessum málum á undanförnum árum og það eigi bara að leysa upp NATO og það hefði átt að gera það vegna þess að Varsjárbandalagið var leyst upp. En hvar eru þjóðirnar í Varsjárbandalaginu? Það eru þær sem eru að banka á dyrnar hjá NATO og vilja ganga í Atlantshafsbandalagið vegna þess að þetta voru ekki sambærileg samtök. Varsjárbandalagið var auðvitað framlenging á kúgunarvaldi Sovétríkjanna yfir þessum þjóðum en ekki samtök sem þessi lönd höfðu gengið í af fúsum og frjálsum vilja til þess að standa vörð um öryggishagsmuni sína. En þannig er það með Atlantshafsbandalagið. Það eru frjáls samtök ríkja sem hafa bundist samtökum um að standa saman ef á reynir og ef á eina þeirra verður ráðist. (SvG: Og halelúja.) Og halelúja-söngvarinn mér á vinstri hönd, hv. þm. Svavar Gestsson, kann auðvitað ekki að meta þessi rök vegna þess að hann hefur talið sjálfum sér og öðrum í Alþb. trú um annað árum saman og neitar að viðurkenna mistök sín eins og þeir gera í Alþb. En það má þó hv. fyrrv. formaður Alþb. eiga sem hér var vitnað í áðan að hann var búinn að gera sér grein fyrir breyttum aðstæðum eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að hér er hann nefndi til sögunnar ummæli hv. fyrrv. formanns Alþb. þegar á árinu 1992 en hann mun hafa verið rödd hrópandans í eyðimörk Alþb. í þessum efnum.

Nei, það er vissulega svo að stóra málið að því er varðar Atlantshafsbandalagið er auðvitað stækkunin. Og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur núið mér því um nasir hér að menn hafi ekki verið nógu duglegir talsmenn þess að stækka bandalagið. Það má vera að hann hafi verið að tala við sinn eigin flokksformann í því efni líka vegna þess að ég veit ekki betur en hv. þm., fyrrv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, hafi líka viljað fara með löndum í þessu máli vegna þess að hann hafi verið þeirrar skoðunar að ástæðulaust væri að ögra Sovétríkjunum með því að bjóða Eystrasaltslöndunum inn í bandalagið. (Gripið fram í: Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar.) Ég man ekki betur en hann hafi lýst þeirri skoðun, bæði á fundum í utanrmn. eða á vettvangi hennar og sömuleiðis hérna í þingsalnum. En það er ekki aðalmálið. Aðalmálið er að það eru auðvitað til veigamikil rök fyrir því að fara með löndum í málinu og til eru veigamiklar röksemdir fyrir því að það ætti kannski að bíða með aðild Eystrasaltslandanna að Atlantshafsbandalaginu. Þau rök eru m.a. að ekki sé skynsamlegt að sparka í liggjandi ríki, í liggjandi mann má segja, Sovétríkin fyrrverandi, Rússland, af þeim sem unnu kalda stríðið. Það sé lítilmannlegt og lúalegt af sigurvegurum hinnar hugmyndafræðilegu baráttu kalda stríðsins að sparka nú í Rússana eða egna þá að ástæðulausu til hugsanlegra óhæfuverka gagnvart þessum litlu ríkjum. Það eru til svona rök og þau hafa auðvitað ákveðið gildi þegar menn eru að velta þessu fyrir sér og hafa ákveðna skírskotun til sögunnar þar sem er vitnað til þess hvernig farið var með þá sem töpuðu fyrri t.d. heimsstyrjöld af hálfu sigurvegaranna. Það eru ýmis dæmi um að það geti borgað sig að sýna ákveðið lítillæti þegar menn eru í stöðu sigurvegarans og ekki ganga fram í að knésetja þann sem er í rúst.

[12:00]

En hitt er veigameira í mínum huga og það er ástæðan fyrir að ég er ekki þessarar skoðunar, að þjóðirnar sjálfar hafa gert það upp við sig að öryggi þeirra sé best tryggt með því að þær gangi í bandalagið og í ljósi þess að menn eigi að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna sé eðlilegt að verða við þeirri ósk og við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að þær óskir verði uppfylltar. En auðvitað eru líka ákveðin skilyrði fyrir því að ríki geti gengið þarna inn. Það eru bæði pólitísk skilyrði, tæknileg og hernaðarleg skilyrði sem verður að uppfylla. Þetta verða auðvitað að vera lýðræðisleg ríki í raun og sann sem virða mannréttindi og markaðsbúskap. Þetta verða að vera lýðræðisríki þar sem tryggt er að borgaraleg yfirvöld, til að mynda, ráði yfir hernum en herforingjarnir sjálfir séu ekki alls ráðandi o.s.frv. Og þær þurfa líka að uppfylla ýmis skilyrði sem lúta að hernaðarþáttum og möguleikanum á að starfa með herjum bandalagsins og geta lagt sitt af mörkum í þeim efnum. Þetta er ekki vegur sem liggur bara í aðra áttina. Hann liggur fram og til baka og menn geta ekki bara verið þiggjendur heldur verða menn að leggja sitt af mörkum.

Þetta er kjarni málsins, virðulegi forseti, og það sem ég vildi sagt hafa um þetta mál. Eitt vildi ég þó nefna til viðbótar vegna þess að hv. þm. spurði ráðherra að því og ráðherrann hefur svarað en það er um aðild Alþingis að ákvörðunum Íslendinga í þessu máli. Það er rétt að hvert ríki hefur út af fyrir sig neitunarvald um stækkun NATO, þ.e. það þarf að samþykkja í öllum þjóðþingum þeirra 16 ríkja, sem eru aðilar að NATO núna, ályktun og heimild til þess að stækka bandalagið. Þannig kemur þetta mál einnig hingað til Alþingis þegar þar að kemur. En það er líka hugsanlegt, og ég hef hugleitt það, hvort utanrmn. ætti að hafa frumkvæði að þingsályktun um þetta málefni. Mér finnst það alveg koma til greina ef niðurstaða okkar er sú að slík ályktun geri gagn í málinu, ekki bara ályktun sem okkur langar til þess að gera, heldur ályktun sem gerir virkilegt gagn í málinu og spillir ekki þeim málstað sem við viljum styðja. Og þar getur verið vandmeðfarinn millivegur, getur verið erfiðleikum bundið að finna hann, en ég er alveg tilbúinn sem formaður nefndarinnar að líta á það mál og kanna hvort við getum komist að einhverri niðurstöðu í því efni.

Virðulegi forseti. Ræðutími minn er því miður á enda. Ég hef ekki tíma til að koma hér að fleiri málum. Ég vil þó nefna rétt í lokin hið svokallaða Norðurskautsráð. Ég vil lýsa ánægju minni með að það mál er leyst og ráðið hefur verið stofnað. Ég vil þakka utanrrh. fyrir frumkvæði hans og hlutdeild að því máli. Ég tel að þar sé um að ræða mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, sem getur á reynt þegar fram í sækir, bæði að því er varðar auðlindanýtingu, umhverfismál og fleiri merka þætti.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.