Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:08:19 (695)

1996-10-31 12:08:19# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir að ástandið innan stjórnarliðsins væri þannig að sjálfstæðismenn tækju það nærri sér ef þeim væri líkt við framsóknarmenn á virðulegum aldri. Ég skil hins vegar, herra forseti, að erfitt sé fyrir hv. þm. þegar menn koma hér og ræða breytingarnar á afstöðu Sjálfstfl. til utanríkismála. En það er einfaldlega staðreynd að fyrir tilstilli Sjálfstfl. var GATT-samningnum snúið upp í ranghverfu sína og afskræmdur. Yfirlýst markmið síðustu ríkisstjórnar var það að hann átti að verða m.a. til að auðvelda innflutning á matvöru sem selja átti hér innan lands á lægra verði en tíðkaðist. Það hefur orðið þveröfug þróun í því. Sagt var frá því í Morgunblaðinu í dag að skuldir landsmanna hafa vegna þessarar öfugþróunar hækkað um 1.300 millj. og það er flokkur hv. þm. sem er ábyrgur fyrir þessu. Auðvitað er þetta erfitt fyrir hann.

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að við eigum samleið að því er varðar stækkun NATO. Ég er hins vegar ekki viss um að ég og hv. þm. Geir Hilmar Haarde eigum samleið með hæstv. forsrh. og ekki heldur með hæstv. utanrrh. Auðvitað má það vera að sameiginlega takist okkur með samanlagðri vigt okkar að hafa áhrif á stefnu þessara tveggja manna. En í stefnuræðunni sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Nú er útlit fyrir að Eystrasaltsríkin, sem við Íslendingar höfum tengst sérstökum vináttuböndum, verði ekki tekin inn í Atlantshafsbandalagið í fyrstu lotu.``

Hv. þm. lýsir því hins vegar sem skoðun sinni, og þá væntanlega sjálfstæðismanna og hægri manna á Norðurlöndum, að þau verði tekin inn sem allra fyrst. Er ekki alveg ljóst, herra forseti, að hér er ekki bara áherslumunur heldur ágreiningur milli formanns utanrmn. og hæstv. forsrh.?