Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:28:05 (698)

1996-10-31 12:28:05# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um það sem hv. þm. sagði um mannréttindi og viðskipti. Ég held að það grundvallarsjónarmið verði að liggja fyrir hvort við teljum að samskipti við ríki séu af hinu góða og við munum hafa jákvæð áhrif í þeim samskiptum. Ég tel það t.d. alveg ljóst að samskipti við Kína þjóna þeim tilgangi. Það er enginn vafi á því að ef við ætlum okkar að hjálpa lýðræðisþróun í ýmsum ríkjum, hvort sem er í Kína eða Rússlandi, þá gerum við það fyrst og fremst með samskiptum. Þar með erum við að stuðla að bættum mannréttindum þegar til framtíðar er litið. Að því er varðar hins vegar mörg önnur ríki eins og t.d. Írak þá hafa vestræn ríki komið sér saman um að það að setja viðskiptabann á það ríki vegna þess að menn hafa ekki trú á því að núverandi stjórnarherrar muni ætla sér að bæta mannréttindi í því landi. Það er allaf álitamál og viðkvæmt hvenær slíku skuli beitt. Ég nefni það sem dæmi og það var líka gert að því er varðar ríki fyrrum Júgóslavíu með ákveðnum árangri. En ríki heims verða að koma sér saman um þessa hluti því að viðskiptabann Íslendinga eitt og sér þjónar afar litlum tilgangi.

Að því er varðar ræðu mína er það rétt að það er ýmislegt sem ekki er þar nefnt. Hv. þm. sagði jafnframt að gerð var tilraun til þess að taka þar undir öll svið þannig að það gengur nú aðeins í sitt hvora áttina. Það er hins vegar rétt og er áhyggjuefni hvernig íslensk utanríkisþjónusta ræður við vaxandi verkefni á alþjóðavettvangi. Ég vil halda því fram að við getum aðeins sinnt því sem við teljum brýnast á hverjum tíma.