Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:30:22 (699)

1996-10-31 12:30:22# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:30]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi viðskiptabann og takmörk á viðskiptum er alveg rétt að menn hafa farið ýmsar leiðir í þeim efnum á undanförnum árum og viðskiptabannið á Írak er t.d. afskaplega umdeilt vegna þeirra áhrifa sem það hefur haft og hefur bitnað mest á konum og börnum þar í landi meðan herforingjarnir sem þar ráða ríkjum virðast lifa í vellystingum praktuglega.

Ég held að almennt sé álitið að viðskiptabannið á Suður-Afríku hafi haft töluverð áhrif á þróunina þar þannig að þetta er ákaflega vandmeðfarið. Ég tek undir það að þeir sem þekkja best til mála í Kína hafa verið þeirrar skoðunar að það væri miklu betri leið til að reyna að hafa þar áhrif í lýðræðisátt að eiga við þá samskipti frekar en að einangra þá. En það sem ég var að reyna að vekja athygli á er að umræðan um mannréttindi og viðskiptabann nær til sumra ríkja en annarra ekki og þar virðist vera sem hagsmunir, ekki síst viðskiptahagsmunir, ráði mestu.

Varðandi ræðu hæstv. utanrrh. almennt finnst mér að hún sé of mikið Evrópumótuð og mótuð mjög af okkar nánasta umhverfi meðan ég hefði óskað eftir því að við reyndum að horfa á heimsbyggðina alla og átta okkur á því hver er þróunin og hvert stefnir og hvar getum við beitt okkur því að það er ekki bara í Evrópu.