Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:34:31 (701)

1996-10-31 12:34:31# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:34]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Menn hafa verið að gagnrýna ræðu hæstv. utanrrh. m.a. vegna þess sem er ekki að finna í ræðunni. Það er líka mjög athyglisvert að horfa hér yfir þingbekki og sjá hverjir eru aðallega áberandi vegna fjarveru sinnar. Það er athyglisvert að hæstv. forsrh. sýnir nánasta samstarfsmanni sínum, hæstv. utanrrh., ekki þá lágmarksvirðingu að vera viðstaddur umræðuna, reyndar er afar athyglisvert að enginn af ráðherrunum sýnir sig í þingsal eða sýnir þessum þýðingarmesta þætti íslenskra þjóðmála nokkurn minnsta áhuga og það segir sína sögu að fjórir menn eru í þingsalnum þegar hér er komið umræðunni. Þetta virðist benda til þess að á Alþingi Íslendinga sé enginn áhugi á þessum málum og það áhugaleysi stafar væntanlega af því að enginn skilningur er á því hversu þýðingarmikil mál við erum hér að ræða. Það er athyglisvert, ekki bara úti í þjóðfélaginu heldur svona hvaða augum það verður litið af öðrum samstarfsþjóðum okkar sem leggja sig kannski fram um að fylgjast með umræðum á Alþingi Íslendinga um utanríkismál.

Herra forseti. Í gær kom hingað góður gestur, Hans-Dietrich Genscher, sem var utanríkisráðherra Þýskalands í 16 ár og hefur gegnt því embætti lengur en nokkur annar, á árunum 1976--1992. Hann kom hingað til þess að minnast hálfrar aldar afmælis aðildar okkar að Sameinuðu þjóðunum. Hann fór viðurkenningarorðum um árangur íslenskrar utanríkisstefnu að undanförnu. Hann nefndi sérstaklega til sögunnar frumkvæði Íslendinga á árunum 1989--1991 að því er varðaði stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða og nefndi þá stefnu og þær aðgerðir sem dæmi um það að smáþjóðir gætu stundum með frumkvæði og samstöðu náð árangri þar sem hinar stærri þjóðir gætu af ýmsum átæðum ekki hreyft sig. Hann lét þess getið að Þýskaland og reyndar Danmörk hefðu í þessu máli komið eftir á Íslandi. Það má kannski skjóta því inn í umræðuna að í gær kom út í Danmörku minningar Uffe Ellemans-Jensens sem í 10 ár var utanríkisráðherra Dana á þessu tímabili en Hans-Dietrich Genscher, vinur hans, kemur þar mjög við sögu og það er athyglisverð upprifjun á þessu mesta umbreytingar- og byltingarskeiði Evrópu eftir stríð.

Genscher lét þess getið að við hefðum einnig átt mjög gott samstarf að því er varðaði það að reyna að tryggja rétt þeirra þjóða sem voru að segja sig úr lögum við gömlu Júgóslóvíu og þá sérstaklega Slóveníu og Króatíu þar sem við Íslendingar höfðum náið samstarf og hann þakkaði mjög eindregið fyrir þann litla stuðning sem við gátum veitt Þjóðverjum að því er varðaði sameiningarferlið sem a.m.k. var afdráttarlausari en margra annarra.

Allt er þetta gott og blessað en það rifjar upp samhengi hlutanna. Ísland gat því aðeins beitt áhrifum að því er varðaði Eystrasaltsþjóðirnar og rétt þeim hjálparhönd þannig að það skilaði árangri að Ísland var aðili að Atlantshafsbandalaginu. Ef við Íslendingar hefðum ekki verið það heldur hlutlaus þjóð í Norðurhöfum hefði enginn hlustað og áhrifin engin orðið, það er mér alveg fullkomlega ljóst. Þess vegna þykir mér afar leiðinlegt að heyra að talsmaður Alþb. í þessum umræðum, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, skuli ekki hafa skoðað hug sinn betur í ljósi reynslunnar um breytt hlutverk Atlantshafsbandalagsins, breytt vinnubrögð, breyttar aðferðir, en viðvarandi gildi þess ekki síst að því er varðar möguleika smáþjóðanna og hinna lýðræðisríkjanna í Evrópu til þess að hafa áhrif í heiminum í þágu friðar og mannréttinda.

Ég nefndi að það hefði verið aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem varð þess valdandi að við gátum lagt Eystrasaltsþjóðunum lið en það er líka athyglisvert að við gerðum það á sama tíma og forusturíki Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, taldi sig ekki geta látið til sín taka, m.a. vegna þess að þeim væri nauðsyn á því að byggja upp samstarf og samstöðu með Rússlandi í aðgerðum við Persaflóa og Þýskaland hafði hljótt um sig og hafðist ekki að þrátt fyrir söguleg áhrif við Eystrasalt vegna þess að Þýskaland átti svo mikið undir stuðningi Rússlands, Gorbatsjovs, við sameiningarferlið. Það var þess vegna sem frumkvæði Íslendinga með aðstoð þegar frá leið annarra smáþjóða, fyrst Dana, skipti máli. Og það er alveg rétt sem Genscher sagði í ræðu sinni í gær að þetta er dæmi um það að þær aðstæður geta stundum skapast að smáþjóðir geti með frumkvæði og samstöðu haft umtalsverð áhrif.

Nú er spurningin sú að því er varðar eitt stærsta málið sem hér er á dagskrá, opnun Atlantshafsbandalagsins til austurs og samrunaferlið í Evrópu, þ.e. umsóknir allra ríkja annarra en Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Getur Ísland eitthvað aðhafst og á Ísland eitthvað að aðhafast til þess að hafa áhrif á þá þróun? Vert er að hafa það í huga að við erum stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu og Atlantshafsbandalagið starfar á grundvelli þess að þar verða engar ákvarðanir teknar nema um þær sé fullkomin samstaða. Þar verður ekki gengið til atkvæða. Það þýðir að hið örfámenna íslenska lýðveldi hefur ef á reynir gríðarleg áhrif innan Atlantshafsbandalagsins. Ef um það væri að ræða að Norðurlandaríkin sem í Atlantshafsbandalaginu eru, þ.e. Noregur og Danmörk, gætu mótað samstöðu um afstöðu, t.d. að því er varðar hlut Eystrasaltsþjóðanna í opnun Atlantshafsbandalagsins, þá hafa þær innan Atlantshafsbandalagsins ákvörðunarvettvang þar sem áhrif þeirra eru í reynd jafnmikil og sjálfra stórveldanna. Þess vegna er ekki hægt að segja eins og fram kom í máli hv. þm. Geirs H. Haarde að það skipti nánast engu máli þótt hægri flokkarnir á Norðurlöndum væru með einhverja stefnumótun í Norðurlandaráði sé það bara til málamynda en það var auðheyrt á ræðu hans að hann hafði enga trú á því að nokkur maður hlustaði á það eða hefði einhver áhrif. Það er lítilþægni og vanmat á sjálfum sér sem mér kemur á óvart að heyra, satt að segja. Reyndar er það svo að það stenst ekki dóm staðreyndanna vegna þess að ef hugur fylgir máli, ef menn meina það sem þeir eru að segja, hafa menn innan Atlantshafsbandalagsins vettvanginn og áhrifin, atkvæðavægið, til þess að hafa áhrif.

Spurningin er þessi: Hefur Ísland mótað sér einhverja stefnu í þessu máli? Hæstv. ráðherra, utanrrh. segir: Já, við styðjum það að Eystrasaltsþjóðirnar fái aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þá er næsta spurning: Ef það er svo, er það t.d. samstaða á milli Íslands, Noregs og Danmerkur um þessa stefnu og þá spyr ég: Hafa utanríkisráðherrar þessara þjóða rætt það með sér hvort þeir muni sameiginlega tala máli þessarar stefnu innan Atlantshafsbandalagsins? Hafa þeir gefið það til kynna í samtölum við utanríkisráðherra annarra þjóða innan Atlantshafsbandalagsins að þegar að ákvörðuninni kemur muni þessar þjóðir beita sér fyrir því að þær verði ekki skildar eftir sem afgangsstærð? Við þurfum að taka tillit til nokkurra meginþátta.

1. Hver eiga að vera samskipti Atlantshafsbandalagsins og hins vestræna varnarbandalags, Bandaríkjanna og Evrópu, við Rússland?

2. Hvernig ætlum við að halda á málum að því er varðar stækkun bandalagsins til austurs? Á það að gerast í áföngum og á það að gera greinarmun á milli þjóða? Hvernig ætla menn að tryggja það að þær aðgerðir, þessi opnun, verði ekki til þess að draga úr öryggi eða auka á óvissu, skapa jafnvel óöryggi því að tilgangurinn er væntanlega sá að gera þvert á móti, að eyða óvissu?

3. Telja Íslendingar í ljósi nýliðinnar sögu og reynslu að þeim beri einhver sérstök skylda til að reyna að hafa áhrif á þessa þróun að því er varðar Eystrasaltsþjóðirnar?

[12:45]

Herra forseti. Í mínum huga er það svo að það getur verið gríðarlega varasamt af hálfu Atlantshafsbandalagsins að stuðla að þróun sem yrði á þá leið að einstökum ríkjum yrði veitt aðild í fyrstu lotu en önnur ríki og þá sérstaklega Eystrasaltsríkin skilin eftir og þá búin til, með vísan til sögunnar, eins konar ,,óvissukorridor`` sérstaklega í áttina að Kaliningrad og sérstaklega nú þegar pólitísk óvissa um framtíð Rússlands er algjör, ekki síst óvissa að því er varðar óstöðugleika og stjórn hersins í Rússlandi. Þetta gæti beinlínis verið stórlega varasamt og haft þveröfug áhrif á við það sem ætlast er til. Ég held að aðalatriðin í þeirri stefnu sem þarf að móta séu þessi: Í fyrsta lagi að menn verði að gera sér ljóst að vesturveldin, Bandaríkin, Evrópusambandið, eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta nú í upphafi nýs forsetakjörtímabils í Rússlandi að koma í veg fyrir að þar endi allt í algjörri upplausn, hugsanlega jafnvel með valdatöku hers. Það er engin leið önnur í því en massíf Marshall-aðstoð við Rússland í þessu tilviki. Rússland er af þeirri stærðargráðu, þrátt fyrir hið efnahagslega og pólitíska hrun sem þar hefur orðið, að það eru tvíhliða samskipti, annars vegar Bandaríkjanna og hins vegar Evrópusambandsins við Rússland sem skipta máli.

Að því er varðar Mið- og Austur-Evrópu er það meginatriði að tengja saman annars vegar tilboðið um massífa Marshall-aðstoð við Rússland og hins vegar því að Rússland skilji og sætti sig við stækkun Atlantshafabandalagsins í austurátt og skilji að það er ekki gert til þess að stofna öryggishagsmunum þess í hættu heldur þvert á móti til að eyða óvissu sem ella væri á einhvers konar óskilgreindu gráu svæði milli aðila. Að því er varðar Eystrasaltsþjóðirnar þá er það lífshagsmunamál þeirra nú ekki síður en það var árið 1990--1991 að þau verði ekki skilin eftir í fullkominni óvissu á þessum tíma. Einmitt vegna þess að ástandið í Rússlandi er svo gjörsamlega óvissu undirorpið gæti grátt svæði, autt svæði þar sem Atlantshafsbandalagið væri í raun og veru að viðurkenna að væri einhvers konar rússneskt áhrifasvæði í Eystrasaltslöndum, orðið til þess að skapa meiri óvissu og meira öryggisleysi fyrir þessar þjóðir á úrslitastundu þegar þær þurfa að tryggja öryggi sitt bæði með inngöngu í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Af því tilefni segi ég alveg sérstaklega: Af hálfu Lennarts Meris, forseta Eistlands, hafa verið settar fram tillögur, ,,konkret`` tillögur sem hafa verið kynntar ríkisstjórnum Vesturlanda og mér er kunnugt um að hæstv. utanrrh. vor þekkir til og stjórnvöld í Danmörku sérstaklega. Þessar tillögur eru um það að ef bandalagið treystir sér ekki til að taka inn þessar þjóðir allar á einu bretti þá verði niðurstaðan ekki sú að taka inn þrjú eða fjögur og gera síðan ekkert að því er varðar hin ríkin. Tillögur hans er með öðrum orðum um nýja útfærslu á öryggissáttmála og samstarfi þessara ríkja sem er skref fram á við, allstórt skref til viðbótar við friðarfrumkvæðið, þ.e. Partnership for Peace. Þá stöndum við frammi fyrir þessari spurningu: Er íslenska ríkisstjórnin reiðubúin til að hafa frumkvæði að því í samstarfi við aðrar ríkisstjórnir Norðurlanda innan Atlantshafsbandalagsins og reynar aðrar ríkisstjórnir Norðurlanda innan Evrópusambandsins, um að skapa pólitískar forsendur og jarðveg fyrir því að þessar tillögur fáist meðhöndlaðar alvarlega og það verði tekin afstaða til þeirra, til þess að þarna verði ekki slys? Stefnumótun og frumkvæði að þessu leyti og á þessum nótum er það eina sem væri samboðið þeim ferli sem viðurkennt er að Íslendingar eiga að baki að því er varðar samskiptin við þessar þjóðir. Ég hygg að það sé ákveðinn skilningur á því meðal Norðurlandaþjóðanna núna að þeim varð á í messunni á þessum tíma, ekki síst nánustu grannþjóðum Eystrasaltsþjóðanna. Þær hafa lært af þeim mistökum og eru væntanlega tilbúnar til að bregðast við á annan máta. Ég les þessar tillögur frá hægri flokkunum innan Norðurlandaráðs sem vísbendingu um það.

Herra forseti. Mér skilst að þessi tími sé nú búinn en ég mun áskilja mér rétt til að koma aftur til að segja örfá orð um Evrópumál. Það þarf nú ekki að hafa mörg orð um þau við núv. hæstv. ríkisstjórn þó ég kunni vel að meta að hæstv. utanrrh. talar þar á öðrum nótum og af meira manviti og skilningi en hæstv. forsrh. og þeir sjálfstæðismenn. En jafnframt er nauðsynlegt að sjálfsögðu að fara nokkrum orðum um stöðu mála að því er varðar hafréttarmálin.