Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:34:36 (708)

1996-10-31 14:34:36# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:34]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Ég skal gera hv. ræðumanni þann greiða að minnast ekki á síðari hluta ræðu hans um ástarmál Alþfl. og Alþb.

Ég ætla hins vegar aðeins að víkja að því sem hann sagði í fyrri hluta ræðu sinnar þegar hann var svo vinsamlegur að vitna til ummæla minna í fyrra um stækkun NATO. Það er auðvitað allt rétt sem ég sagði þar varðandi Bandaríkin og bandaríska þingið. Þar liggur hið raunverulega neitunarvald í þessu máli. Það eru Bandaríkin sem munu þurfa að taka á sig ábyrgðina og kostnaðinn við að taka að sér þær varnir sem bætast við verði NATO stækkað. Það vita allir. Tilvísun mín til Bandaríkjaþings er auðvitað sú að bandaríska þingið þarf að samþykkja þessa stækkun. Þar kann að vera önnur afstaða en hjá framkvæmdarvaldinu í Bandaríkjunum, eins og við þekkjum. Ég veit fyrir víst að það verður mjög erfitt að fá bandarísku öldungardeildina sem þarf að staðfesta alla alþjóðasamninga Bandaríkjamanna til þess að samþykkja stækkun NATO með Eystrasaltslöndin innbyrðis í fyrstu lotu. Þetta eru bara staðreyndir sem allir geta kynnt sér sem fylgjast með fréttum eða tala við menn sem til þekkja. Það stendur allt sem ég sagði um þetta í fyrra. Þetta er bara því miður ein af þeim staðreyndum sem við verðum að horfast í augu við. Það breytir hins vegar ekki því að við Össur Skarphéðinsson erum sammála um að helst ætti þetta ekki að vera svona. Helst ættu þeir að vera sammála okkur um að taka þessi lönd inn strax. Það er alveg rétt.