Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:41:24 (713)

1996-10-31 14:41:24# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér talaði sá þingmaður sem helst má um hafa lýsingarorðin: ,,hissa, hissari, hissastur``. Ég get hins vegar fullvissað hv. þm. um það að nú er að stíga niður af stalli sínum sá formaður sem hann kvað hafa komið úr Alþb. Sá formaður hefur smurt annan til arftökunnar, eins og alþjóð veit, en einhvern nýsvein sem er tiltölulega nýlega skriðinn úr Alþb. þannig að hv. þm. getur huggað sig við það að innan skamms verður formaður kjörinn í Alþfl. sem sannanlega hefur aldrei verið í Alþb. (Gripið fram í.) Hins vegar er það svo að eðlilegt er það að hv. þm. Árni M. Mathiesen viti ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Hann hefur verið eitt af skærustu ljósunum í hinum frjálslynda armi Sjálfstfl. sem nýbúið er að setjast á. Hv. þm. talar ekki lengur eins og hann hefur gert á undanförnum þingum um aukin tengsl við útlönd, um að reyna að nota GATT-samninginn til að bæta kjör íslensks almennings vegna þess að hann er partur af Sjálfstfl. sem hélt landsfund um daginn þar sem var lokað á alla umræðu. Sem eins og segir í gagnmerkum leiðara sem hv. þm. hefur einnmitt vitnað til, þar sem Sjálfstfl. læsti að sér og skaut bröndum fyrir hurðirnar. Það er auðvitað þeirra heimilisböl. En vegna þess að hv. þm. tínir hér sérstaklega til það sem þar segir um Framsfl. þá er það bara svo að Sjálfstfl. í dag er að þessu leytinu til mjög svipaður Framsfl. eins og hann var fyrir 15--20 árum. Hæstv. forsrh. svipti flokknum aftur til fortíðar á meðan þingmenn Framsfl., m.a. í umræðunum hér í dag, hafa verið að kanna svörðinn, hafa verið að hlusta eftir ymnum í grasrótinni. Það er a.m.k. talsverður munur að ,,leyfa þúsund blómum að blómstra`` svo vitnað sé í löngu látinn leiðtoga.