Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:45:58 (715)

1996-10-31 14:45:58# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil segja hér út af þeim ummælum sem ég viðhafði um stöðu norrænnar samvinnu og sem urðu tilefni til svara af hálfu hv. þm. Geirs H. Haardes, 4. þm. Reykv., að ég var út af fyrir sig ekki að dæma það fyrir fram að þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru í Norðurlandaráði hefðu þegar mistekist og það hefði sannast. Ég taldi þær hins vegar mistök og tel enn. Ég hef áhyggjur, ég endurtek það ég hef áhyggjur af því sem ég þykist sjá í þróun mála á norrænum vettvangi og ég segi það hreinskilnislega og hreint út eins og það er --- ég hef áhyggjur af því. Ég þykist sjá ýmis teikn á lofti, hafandi fylgst með því af og til um átta ára bil eða svo sem þar er að gerast. Það er alveg greinilegt, og það er svo sem út af fyrir sig eðlilegt, að tími, áhugi og kraftar norrænna stjórnmálamanna, a.m.k. annarra en þeirra íslensku og að einhverju leyti þeirra norsku, dreifast núna til austurs og suðurs og það ber í ríkari mæli á því að menn gefi þeim málum forgang og norræn verkefni mæti afgangi, því miður. Ég nefndi til sögunnar niðurskurðartillögur Svía og sakna þess að menn skuli ekki hafa tekið beinna á því máli t.d. á ríkisstjórnarplani, að menn beinlínis reyni að hafa áhrif á sænsk stjórnvöld í þá veru að vera ekki uppi með stanslausar tillögur um stórfelldan niðurskurð á norrænum verkefnum. En sú er staða mála. Undanfarin skipti hefur norræna fjárlagagerðin einkennst af reiptogi, ekki síst við þá, um hversu mikill þessi niðurskurður skyldi vera. Hitt er svo rétt sem hv. þm. Geir H. Haarde sagði að vissulega geta líka verið jákvæðir þættir í þróuninni innan Norðurlandaráðs og ég tel t.d. þær breytingar sem orðið hafa á nokkru árabili, að utanríkismál og pólitísk mál eru farin að koma í ríkari mæli inn í umræður á þeim vettvangi til bóta. Þó ég sé ekki endilega þar með að skrifa upp á tillögu hægri manna í Norðurlandaráði er ég í sjálfu sér ánægður með að sjá pólitískar tillögur af því tagi koma þar á dagskrá því umræðum um þær mun fylgja líf og þá þurfa menn að taka á þeim o.s.frv. Hitt er svo annað mál að efni þess máls er vandasamt og flókið og mér finnst menn kannski ræða fullgáleysislega á köflum um þau álitamál sem tengjast stækkun NATO í austurátt og aðild Eystrasaltsríkjanna að því. Ég kýs að nálgast það mál þannig, það er sjálfsagt mál og ekkert nema gott um það að segja af minni hálfu að við Íslendingar styðjum Eystrasaltsríkin í því sem þau vilja. Það finnst mér rétt að gera og það er ég tilbúinn til að gera. En það er ekki þar með sagt að það sem þau vilja sé einfalt mál og það gangi auðveldlega eftir. Ég hef miklar áhyggjur af því að einmitt stækkun NATO í austur geti orðið til ófarnaðar fyrir Evrópu ef illa tekst til, ef nýtt járntjald myndast austar í álfunni. Ef Rússar upplifa sig í þannig stöðu að að þeim sé sótt, þeim sé ógnað, mun það ekki verða til velfarnaðar hvað sem öðru líður og hvað sem um ástandið þar má segja. Ég held að mjög mikilvægt sé að ná að halda þannig á þessum málum að ekki myndist nýtt járntjald í Evrópu, hvorki pólitískt né hernaðarlegt. Og til þess þurfa málin að ganga þannig fyrir sig að menn nái alla leið austur, og helst austur að Kyrrahafi, en ekki sé staðar numið með girðingum einhver staðar á miðri leið. Þetta vil ég segja um það mál. Ég held að þessi blokkamyndun sé öll mjög varasöm, mjög varhugaverð, og það þurfi að vinna gegn því að við drögum gamla kaldastríðsblokka-hugsunarháttinn með okkur inn í framtíðina. En sú hætta er fyrir hendi og hana ber að varast.

Herra forseti. Þó það sé pínulítið á skjön við dagskrármálið, þá verð ég að segja hér nokkur orð um hina útréttu hönd hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem því miður að vísu er farinn á fund í Þingvallanefnd en það er önnur saga. En þetta má þá bara fara í þingtíðindin. Ég tek því sömuleiðis mjög vel þegar hv. þm. í einlægni réttir fram hönd og ég tek í hana en með þeim fyrirvara að við séum þá líka að mætast á jafnræðisgrundvelli og að við berum fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hvor annars. Það þarf að vera gagnkvæm virðing og skilningur til þess að það hafi eitthvað upp á sig að takast í hendur og það eru ekki forsendur til þess fyrr. Samstarf og samvinna og sameining og allt slíkt hlýtur að byggjast á því að menn mætist af heilindum á jafnræðisgrundvelli og beri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum sem að einhverju leyti eru uppi og verða alltaf hvort sem menn eru í einum flokki eða mörgum. Það er nú einfaldlega þannig. Mér fannst að hinu leytinu til, það sem hv. þm. sagði t.d. um stöðuna í utanríkismálum, alls ekki að öllu leyti merkilegt innlegg í þetta mál vegna þess að hv. þm. féll í þá gryfju eins og reyndar margir aðrir að vilja stilla málum upp sem svo að annar aðilinn hefði haft hundrað prósent rétt fyrir sér en hinn hundrað prósent rangt. Nú væri þetta komið í ljós og þar með væri allt í lagi en málin liggja nú ekki þannig. Auðvitað eru öll þessi bónorð og þessar ástarjátningar út og suður hjá Alþfl. og Alþýðublaðinu athyglisverð þessa dagana. Ég leyfi mér að spyrja hvers á aumingja Kvennalistinn að gjalda, ég held að hann hafi gleymst. Ég man ekki eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi borið upp bónorð til Kvennalistans, það hljóta hafa verið mistök. Ég bendi hv. þm. á eða leiðarahöfundum Alþýðublaðsins að helga nú Kvennalistanum smáhorn af leiðara á næstu dögum og biðla til hans. Og ég tek því sömuleiðis þokkalega vel þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallar mig jafnaðarmann, ég segi nú það var gott að hann sagði ekki krati. Ég skilgreini sjálfan mig sem félagshyggjumann, svona húmaníska félagshyggjuveru, vinstri mann og þess vegna jafnaðarmann, allt í góðu lagi með það. Ég tek satt best að segja merkimiðann ekki mjög hátíðlega. Það er innihaldið sem skiptir máli, ekki umbúðirnar, ekki nafngiftirnar. Á því þurfum við að átta okkur. Í raun og veru stöndum við ekki hænufeti nær hvor öðrum, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, né heldur fjær þó að við finnum einhverja sameiginlega nafngift. Við erum t.d. báðir sannanlega Íslendingar. En út af fyrir sig breytir það engu um skoðanir okkar þannig að það er nú bara orðaleikur.

Að allra síðustu, herra forseti, vegna orða sem hv. þm. lét falla um afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það er alveg rétt við greiddum atkvæði gegn þeim samningi, við vildum fara aðrar leiðir. Við vildum semja við Evrópusambandið um mál okkar á annan og einfaldari hátt sem hentaði betur sérstöðu okkar og smæð í því sambandi. Það er hins vegar ekki það sama og að segja að þegar að menn eru orðnir aðilar að samningi, hann er kominn á og menn eru orðnir bundnir af honum, jafngildi sú afstaða því að við viljum þar með segja honum upp og/eða þá hvort og hvernig það geti gerst. Svoleiðis liggja málin ekki. Meðan menn eru í samningaviðræðum hafa menn stöðu til þess að staldra við og segja: Nei, við viljum gera þetta einhvern veginn öðruvísi. En það er ekki víst að það sé svo einfalt mál þegar menn eru reyrðir í viðjar flókins samnings með tiltekinni aðferðafræði hvað varðar uppsögn og endurskoðun o.s.frv. Það er sjálfstætt og nýtt mál hvort og með hvaða hætti menn kjósa þá að breyta stöðu sinni þegar inn í slíkt samningaferli er komið.