Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:59:01 (718)

1996-10-31 14:59:01# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:59]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að við bætum okkur ekkert með því að vera tala mikið á þessari stundu um þetta skipulag sem tekið var upp á síðasta ári. Eins og kom fram í máli hv. þm. Geirs H. Haardes er ekki komin reynsla á það. Hins vegar er hægt að breyta því aftur ef okkur finnst það hafa mistekist en ég er ekki þeirrar skoðunar í dag að það hafi gerst. Við erum með þessu að bregðast við breytingum sem eru því samfara að þjóðirnar eru að ganga fleiri inn í Evrópusambandið með því að stofna til Evrópunefndar. Það er mikill áhugi á Norðurlöndum fyrir samstarfi við nærsvæðin, og þá sérstaklega baltísku löndin, og í nærsvæðanefnd er fjallað um þau mál og eins nýtt arktískt samstarf o.fl.

Ég vil hins vegar í lokin, hæstv. forseti, þó ég misnoti kannski aðeins aðstöðu mína, segja að umræðan í dag hefur verið mjög áhugaverð. Framsfl. hefur verið mikið í sviðsljósinu í þeirri umræðu og það er náttúrlega ekki að ástæðulausu þar sem formaður okkar flokks fer með utanríkismálin í ríkisstjórn. En vegna þess leiðara sem í gær var í Alþýðublaðinu og hefur verið nokkuð til umræðu og menn hafa verið að gera hér játningar hvar þeir séu í pólitík, þá ætla ég að gera þá játningu hér að ég tel mig ekki vera krata.